„Ég á afmæli í dag“—gleðilegt sumar!

Á Íslandi hefur löngum þótt gott ráð að klæða sig eftir veðri. Víðast hvar annars staðar dugir að klæða sig eftir dagatalinu. Á sumardaginn fyrsta—er sannarlega ekki alltaf hægt að treysta á að það sé komin sól og blíða. Þvert á móti er allt eins víst að hinn svokallaði sumardagur fyrsti eigi jafnmikið skylt við harðneskjulegan vetur eins og blítt vorið. Veðrinu hér á landi er skítsama um dagatalið.

Við höfum ekki farið varhluta af veðrinu þennan vetur. Veturinn hefur hegðað sér eins og illmenni í lélegri spennumynd—hann neitar að deyja. Jafnvel þótt hetjan sé búinn að særa illmennið fjölmörgum banasárum, keyra yfir það á flutningalest, drekkja því í sýru og henda fram af háhýsi, þá nær illmennið einhvern veginn að krækja sig aftur í stuðarann á bílnum og draga sig fram á framrúðuna.

Þannig hefur veturinn verið. Hver djúplægðin hefur rekið aðra og Íslendingar hafa barmað sér sárt. Svo höfum við fengið örfáa sæmilega daga inn-á-milli, og þá hefur geðlag þjóðarinnar tekið skyndilegum stakkaskiptum. Við lærum að gleðjast yfir litlu. Fólk sest út við kaffihúsin í 3 stiga hita og golu og líður eins og það sé komið til Rómar.

En nú er komið sumar. Dagatalið segir það—og útsýnið í gluggum Reykvíkinga virðist staðfesta það. Það er svokallað „gluggaveður“—hugtak sem sennilega er hvergi annars staðar til.

Sennilega er best og hollast að leyfa sér það sama og 2 ára dóttir mín. Hún fullyrðir flesta daga að hún eigi afmæli í dag—og hefur gert frá því hún átti afmæli í ágúst sl. Fyrr eða síðar kemur auðvitað að því að fullyrðing dóttur minnar um að hún eigi afmæli í dag verði sönn—og fyrr eða síðar kemur að því að á Íslandi verði sumar. Ætli það sé ekki best að segja þá bara „Gleðilegt sumar“ á hverjum degi þangað til.

Gleðilegt sumar.

Og—til að fyrirbyggja misskilning—ég á ekki afmæli í dag.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.