Strákarnir á Borginni

Barátta fyrir hvers kyns réttindum er að jafnaði því marki brennd að því erfiðara sem það er berjast fyrir réttindunum því mikilvægari er réttindabaráttan. Það er hvorki erfitt né áhættusamt að hampa og halda á lofti réttindum sem almennt eru viðurkennd, þótt vissulega sé mikilvægt að standa sífellt vörð um grundvallarréttindi, þótt tryggð séu, því menn eru aldrei nær því að missa neitt en hið sjálfgefna og sjálfsagða.

Það er ekki svo ýkja langt síðan að samkynhneigðir á Íslandi þurftu að vera í felum með kynhneigð sína, þurftu að vera inni í skápnum. Kyneðlisávísun þeirra var af samfélaginu talin forritunarvilla og ekki bara ólögmæt lengi vel heldur nánast fram á okkar daga litin hornauga og í mörgum tilvikum fyrirlitin.

Það er merkilegt til þess að hugsa að frjálsræðisbylgja hippatímans hafi ekki náð að vinna betur á viðhorfi samfélagsins gagnvart samkynhneigðum. Langt fram eftir níunda áratugnum var hómófóbía rótgróin, jafnvel í hinum frjálslyndu norrænu samfélögum. Þegar eyðni kom til sögunnar í byrjun níunda áratugarins var gjarnan talað um hommakrabbameinið.

Á þessum tíma var hvorki sjálfsagt eða til vinsælda fallið að taka upp hanskann fyrir samkynhneigða. Einn vinsælasti listamaður Íslands á þeim tíma, maður sem seldi plötur í bílförmum, gerði mjög út á karlmennskuímynd sína sem gúanórokkari, steig þá fram fyrir skjöldu. Þorri þeirra sem keyptu plöturnar hans hafa eflaust verið illa haldnir af hómófóbíu og það að taka upp hanskann fyrir hið fyrirlitna var auðvitað áhættusamt í þeim skilningi.

Það er einmitt við slíkar aðstæður sem þannig einstaklingar geta haft svo mikil áhrif á gang á mála. Ekki þegar allt er í höfn og allt er sjálfsagt og sjálfgefið, heldur einmitt þegar á móti blæs, í andstreyminu. Bubbi Morthens þurfti ekki að taka upp hanskann fyrir samkynhneigða á 9. áratugnum en hann gerði það samt og það skipti máli.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.