Manstu?

Okkur hættir til þess að horfa línulega á lífshlaupið. Að það eigi sér upphaf og endi og allt sem gerist þar á milli eigi sér stað í línulegu samhengi. Það er hálf ömurleg sýn á tilveruna og hún verður ömurlegri því nær endamarkinu sem við færumst.

Okkur hættir til þess að horfa línulega á lífshlaupið. Að það eigi sér upphaf og endi og allt sem gerist þar á milli eigi sér stað í línulegu samhengi. Það er hálf ömurleg sýn á tilveruna og hún verður ömurlegri því nær endamarkinu sem við færumst.

Hið línulega lífshlaup er auðvitað rökrétt og auðskiljanlegt. Þegar ævin er gerð upp, hvort sem er í ævisögu eða minningarorðum, eru atvik hennar gjarnan rakin í línulegu ferli, frá upphafi til enda. Helstu tímamót eru tilgreind, tímabil útlistuð, fæðingardagur og -staður, og svo í lokin dánarstundin sjálf.

En svona virkar mannshugurinn samt ekki, í það minnsta ekki ef við ætlum að gera minnstu tilraun til að skilja og upplifa í raun þessa daga sem koma og fara og við köllum lífið.

Minningar sækja á okkur eftir því sem aldurinn færist yfir. Af hverju? Er það söknuður eða þrá eftir hinu liðna? Er það einhvers konar vonbrigði eða jafnvel angist yfir því að skammt er eftir? Af hverju gerist það að hugurinn leitar til baka og æskan, unglingsárin og árin þar á eftir verða ljóslifandi?

Ég ætla að halda því fram að það gerist vegna þess að þá fyrst fáum við einhvern botn í málin, án minninganna og þess að endurupplifa liðna atburði verður lífið svo miklu fátæklegra.

Tveir listamenn, af ólíku kyni, á ólíkum tímum, af ólíkum bakgrunni, af ólíku þjóðerni og í raun eins ólíkir og hægt er að hugsa sér, hafa hvor um sig lýst framangreindu.

Virgina Wolf, enskur rithöfundur, sem fæddist í London árið 1882 og lést árið 1941, skrifaði um minningar og þýðingu þeirra:

“I can only note that the past is beautiful because one never realises an emotion at the time. It expands later, and thus we don’t have complete emotions about the present, only about the past.”

Og íslenskt skáld og tónlistarmaður, fæddur árið 1956, orti eftirfarandi í ljóði tileinkuðu látinni móður sinni:

Menn segja að minningar séu hjartans hilling
handrit töpuð, skrifuð upp á ný.
Og árin renna, með straumnum stríða
stillu hugans sökkva svo í.

Bubbi Morthens, Ég minnist þín, Von.

Auðvitað hafa fleiri listamenn, hugsuðir og aðrir sem minna hugsa orðað sömu hluti með sínum hætti í gegnum tíðina. Það sem mestu skiptir er að láta minningarnar ekki lönd og leið, því án þeirra er lífið bara hálft, bara tímalína atburða, auðskilið sem slíkt, með upphaf og endi.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.