Stöðugleiki á víðsjárverðum tímum

Sú höfuðskylda hvílir á stjórnmálaflokkum að mynda landinu starfhæfa ríkisstjórn að loknum kosningum. Það tapa allir á langvarandi óvissu í stjórnmálunum. Stjórnmálaflokkarnir skulda kjósendum sínum að stefnumálunum verði sem flestum hrint í framkvæmd. Annað er óábyrgt og í sjálfu sér svik við kjósendur.

Skoðanakannanir sem hafa birst undanfarna daga og í kringum áramótin sýna sterka stöðu ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt nýjasta Þjóðarpúlsi Gallups styðja tæp 58% landsmanna ríkisstjórnina. Það verður að teljast harla gott veganesti fyrir þriggja flokka ríkisstjórn í upphafi kosningaárs, ekki síst í ljósi þess að heimsfaraldurinn hefur fært stjórninni erfið og snúin verkefni.

Engin þriggja flokka ríkisstjórn hefur setið heilt kjörtímabil á Íslandi. Hvort þessi ríkisstjórn skapi slíkt fordæmi verður að koma í ljós en það er ljóst að hún hefur til þess vind í seglin. Lítil breyting er á fylgi stjórnmálaflokka milli skoðanakannana en í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallups hafa ríkisstjórnarflokkarnir tapað fáeinum prósentum frá síðustu Alþingiskosningum sem getur ekki talist stórvægilegt í ljósi aðstæðna. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn tapa minnst eða um og innan við 2% en Vinstri græn rétt rúmum 5%. Þar hafa tveir þingmenn gengið til liðs við stjórnarandstöðuna á kjörtímabilinu. Allir stjórnarandstöðuflokkar bæta við sig fylgi nema Miðflokkur og Flokkur fólksins sem tapa fylgi frá síðustu kosningum.

Það er huggun harmi gegn í herbúðum Vinstri grænna að könnun Masíknu sem unnin var fyrir fréttastofu Stöðvar 2 og birt í Kryddsíld á Gamlársdag leiðir í ljós að þriðjungur landsmanna styður Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra næstu ríkisstjórnar og nýtur hún langmests trausts allra stjórnmálaleiðtoga í embættið. Í þessu felst sóknarfæri fyrir flokkinn.

Það hefur sýnt sig margsinnis að skoðanakannanir sveiflast til á kosningaári enda eykst þá spennan í stjórnmálunum verulega og uppslátturinn verður meiri. Þá spila áherslur flokkanna og val á frambjóðendum stórt hlutverk og geta breytt heildarmyndinni töluvert. Það er hins vegar nokkuð ljóst að fjölflokkastjórnmál eru að festa sig í sessi á Íslandi. Fjórflokkurinn svokallaði er dauður.

Á annan bóginn má segja að fleiri flokkum fylgi fjölbreytni og ólík stjórnarmið séu þannig betur dregin fram í dagsljósið. Á hinn bóginn verður óhjákvæmilega aukin fylgisdreifing þegar flokkarnir eru margir, burðarásum fækkar og málamiðlanir verða fleiri. Fjölflokkastjórnmál kalla á leiðtoga sem búa yfir sterkum persónuleika og þau þrífast best í þroskaðri stjórnmálamenningu.

Þennan þroska skortir í íslenskum stjórnmálum. Í fjölflokkastjórnmálum er tilhneiging til að tala í fyrirsögnum, hátt og digurbarkalega svo það heyrist. Setja fram afarkosti og skapa afgerandi sérstöðu. Margir flokkanna dansa í kringum 10% og enn aðrir berjast við 5% þröskuldinn til þess að komast inn á þing. Galdurinn er að finna eitt til tvö stefnumál sem kveikja í tilskildum fjölda kjósenda. Slík stjórnmálaöfl hafa þó sjaldnast styrkinn til að halda út ríkisstjórnarsamstarf og þar er flokksstarfið jafnan veikburða. Fáeinir kverúlantar geta sett allt í uppnám og með vanstillingu jafnvel sprengt ríkisstjórn í skjóli nætur, eins og dæmin sanna. Fyrir síðustu Alþingiskosningar kepptust sumir flokkar á vinstri kantinum við að útiloka ríkisstjórnarsamstarf við aðra til að ná hylli kjósenda og þrengdu þar með möguleika sína til ríkisstjórnarþátttöku verulega. Það reyndist skammgóður vermir en þrátt fyrir það er nú sami söngurinn hafinn á nýjan leik.

Sú höfuðskylda hvílir á stjórnmálaflokkum að mynda landinu starfhæfa ríkisstjórn að loknum kosningum. Það tapa allir á langvarandi óvissu í stjórnmálunum. Stjórnmálaflokkarnir skulda kjósendum sínum að stefnumálunum verði sem flestum hrint í framkvæmd. Annað er óábyrgt og í sjálfu sér svik við kjósendur.

Sitjandi ríkisstjórn var ekki síst mynduð vegna þess að þar fóru ábyrgir stjórnmálaflokkar sem héldu stöðunni opinni og höfðu þroska til að gera nauðsynlegar málamiðlanir. Þeir hafa allir skilað kjósendum sínum og þjóðfélaginu öllu góðum árangri. Þessir flokkar spanna mikla breidd í íslenskum stjórnmálum og þeir hafa skapað þjóðfélaginu stöðugleika á víðsjárverðum tímum. Ríkisstjórnin hefur staðið fast í báðar fætur og einmitt þess vegna er henni treyst.

Latest posts by Guðfinnur Sigurvinsson (see all)

Guðfinnur Sigurvinsson skrifar

Guðfinnur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.