Fögnuður tímans

Heimurinn hefur í dag snúist um sjálfan sig og sólina, eins og hann gerði í fyrra og öll árin þar á undan, lengur en árin hafa verið til. Samt er allt breytt, nýtt.

Nýársdagur er hinn endanlegi og algeri morgundagur. Hann er alltaf dagurinn eftir. Enginn gerir neinar kröfur til hans eða annarra á þessum degi. Timburmenn eru þeir einu sem einhverjar skyldur hafa á nýársdag. Allir aðrir eru stikkfrí. Þetta er einhvers konar hvíldarstaður á tímans endalausu göngu. Það er ekkert verra þegar hann ber upp á föstudag.

Það gerðist ekkert á miðnætti. Heimurinn hefur í dag snúist um sjálfan sig og sólina, eins og hann gerði í fyrra og öll árin þar á undan, lengur en árin hafa verið til. Samt er allt breytt, nýtt. Hið gamla er að baki og hið nýja hefur tekið við. Maður sér það í andlitum barnanna að jafnvel þeim finnst það skrýtin tilhugsun að árin hverfi. Sú tilfinning mun einungis ágerast eftir því líður á ævina.

Það er ríkt í okkur að skipta tímanum í bil. Árið er það augljósasta. Áramótin marka nýtt upphaf og þau veita okkur tækifæri til þess að skilja við hið liðna. Þess vegna höfum við þörf fyrir ársuppgjör með tilheyrandi fyrirheitum. Það má hæglega ímynda sér að það yrði okkur öllum andlega óbærilegt að eiga við tímann ef ekki væri fyrir kerfisbundna skráningu hans.

Við höfum kvatt árið 2020 og skilið það eftir til þess að hverfa í aldanna skaut. Það var ekkert að þessu ári frekar en öðrum árum. Ár eru saklaus af öllum ásökunum sem á þau kunna að verða bornar, hér eftir sem hingað til. Við eigum að hafa væntingar til framtíðarinnar, sem er sú tilfinning sem við flest upplifum þegar nýtt ár gengur í garð.

Því þótt tíminn virðist streyma fram af miskunnarlausum þunga þá er það samt þessi sami straumur sem færir okkur allt það sem er nýtt og hann felur í sér væntingar okkar. Fögnum tímanum, hann er – þegar öllu er á botninn hvolft – allt sem við eigum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.