Sinn er siður í landi hverju

Kristinfræði hefur verið kennd á Íslandi öldum saman. Lagaákvæði þar að lútandi var að finna í Grágás, elstu lögbók Íslendinga. Með breytingu á lögum um grunnskóla árið 2008 var, að frumkvæði Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þáverandi menntamálaráðherra, gerð tillaga um að kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði flokkuðust undir samfélagsgreinar en teldust þá ekki lengur sérstakur liður í lögum. Síðan þá hefur ekki verið sérstakt ákvæði í lögum um kristinfræðikennslu, en í 2. gr. grunnskólalaga segir m.a. að starfshættir grunnskóla skuli mótast af kristinni arfleifð. Sá hluti ákvæðisins var þó ekki hluti af stjórnarfrumvarpi Þorgerðar Katrínar, heldur kom inn í lögin sem breytingartillaga frá menntamálanefnd. Fleiri breytingartillögur er vörðuðu kristinfræði komu fram en hlutu ekki brautargengi í þinginu. Tveir þingmenn vildu t.a.m. telja kristinfræði sérstaklega upp sem samfélagsgrein, en þrír þingmenn Vinstri grænna lögðu til að grunnskólalögin kvæðu á um bann við „hvers kyns trúarleg[ri] innræting[u]“.

Siðrof

Síðan þá hefur kristinfræðikennsla í grunnskólum verið í umræðunni af og til, nú nýlega fyrir tilstilli þingmanna Miðflokksins sem hafa kallað eftir því á Alþingi að kristinfræði verði aftur kennd í íslenskum grunnskólum. Biskup Íslands hafði áður látið þau orð falla að það hefði orðið „siðrof“ hér í kjölfar afnáms kristinfræðikennslu, en hún skýrði þau orð síðar þannig að hún ætti ekki við siðleysi heldur við „rof við siðinn sem við höfum lifað eftir um aldir hér á Íslandi, sem er mótuð af kristnum gildum og kristinni trú.“

Það er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hver þessi siður er sem við Íslendingar höfum hér lifað eftir, hver þessi kristnu gildi eru. Og í framhaldinu, hvaða afleiðingar það geti haft ef við „rjúfum siðinn“, ef þá nokkrar.

Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður

Það hafa eflaust margir lærðari en pistlahöfundur kafað ofan í svör við framangreindum spurningum. Fyrir leikmann liggur beinast við að leita svara í Nýja-testamentinu, en það ætti að vera til á flestum þeim íslenskum heimilum sem Gídeonfélagið náði til áður en þeim var úthýst úr grunnskólunum. Meginstefið í boðskap Jesú Krists er kærleikurinn og rík áhersla á náungakærleikann kemur fram í mörgum predikunum hans. Jesú predikar sömuleiðis réttlæti, fyrirgefningu og mannvirðingu; að bjóða þeim hina kinnina sem gefur þér kinnhest  – að fara með þeim tvær mílur sem neyðir þig með sér eina.

Þótt eflaust sé erfitt að skoða einangruð áhrif trúarbragða á einstök samfélög, er ákveðin samsvörun augljós milli landa þar sem kristin trú hefur verið við lýði um langa hríð. Það er væntanlega óumdeilt að kristni hefur sett ákveðið mark á þessi samfélög og menningu þeirra.

Í ljósi vaxandi fjölmenningar og meiri og betri tengsla við aðra heimshluta hefur aukin áhersla á almenna trúarbragðakennslu verið talin eðlileg. Kennsla í kristinfræði er sömuleiðis nauðsynleg til þess að skilja sögu og menningu íslenskrar þjóðar sl. 1000 ár. Það hníga því sérstök rök að því að leggja áherslu á kristinfræði í samfélagsfræðikennslu í grunnskólum. Í núgildandi aðalnámskrá grunnskóla eru kristni og Biblían áfram tiltekin sérstaklega á nokkrum stöðum varðandi hæfnikröfur til nemenda. Kjarni málsins hlýtur því að vera sá hvort framangreindar breytingar á lögum og á námskrá hafi dregið úr getu nemenda til að skilja mikilvæg tengsl og sögu íslensks samfélags við trú og lífsviðhorf.    

Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá

Þegar rýnt er í orðræðu nýlegrar umræðu, m.a. varðandi „afkristnun“ í samfélaginu, eru nokkur atriði sem skjóta fljótlega upp kollinum. Það eru siðir sem telja má að stærstur hluti landsmanna sé ekki andvígur en hafa verið látnir fjúka í nýlegum rétthugsunaraðgerðum. Í því samhengi má nefna dreifingu á Nýja testamentinu og enn óumdeildari eru kirkjuheimsóknir grunnskólabarna á aðventunni.

Það er ekki hægt að fullyrða að aftenging fræðslu um íslenska menningu og siði við kristindóminn muni hafa alvarlegar siðferðilegar afleiðingar. Til þess þarf miklu meira en bara einfalda staðhæfingu. Öðru máli gegnir um að afleggja rótgróna íslenska siði af þeirri ástæðu einni að þeir eiga kristnar rætur og tengingu. Slíkt getur haft í för með sér aukna áheyrn og eftirtekt lýðskrumara, hverra boðskap maður veltir á stundum fyrir sér; kannski þeir hafi ekki tekið nógu vel eftir í kristinfræðitímum á sinni eigin grunnskólagöngu.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.