Síðustu Ólympíuleikarnir?

Skoðanakannanir sýna að meirihluti Japana er andvígur því að halda Ólympíuleikana í sumar. Hluti af skýringunni er auðvitað heimsfaraldurinn, en það er meira. Þetta er alþjóðleg þróun. Æ oftar falla hugmyndir um risaviðburði í borgum í grýttan jarðveg meðal íbúanna. Stjórnmálamennirnir fíla kannski umtalið en fólkinu finnst þetta bruðl.

Þetta er ekkert nýtt í sögulegu samhengi. Maður myndi halda að rík og gömul ríki skilji meiri montstrúktura eftir sig en þau yngri en það er alls ekki þannig. Stærstu og tilkomumestu egypsku pýramídarnir eru jafnframt þeir elstu. Stærstu og tilkomumestu minjarnar í Kína, til dæmis leirherinn frægi, eru allar frá dögum fyrsta keisarans. Eftir því sem samfélög verða ríkari og millistéttir vaxa verður minni áhugi á hvers kyns monti. Menn hætta að byggja hallir og fara að byggja innviði.

Það er ekkert sjálfgefið að við munum alltaf hafa ólympíuleika eða að þeir muni hafa sömu vigt og áður. Einu sinni voru heimssýningar það sem allt snerist um. Sumir fyrstu ólympíuleikanna voru raunar hliðarviðburðir alþjóðlegra heimssýninga. Nú er öldin önnur. Fáir eru spenntir yfir heimssýningum lengur.

Það má velta því fyrir sér hvort það sé hætta á að Ólympíuleikarnir lognist smám saman út af. Það yrði auðvitað ekki gott. Ólympíuleikarnir eru jákvæður partur af hnattvæðingunni, þeir láta okkur sameinast okkur um íþróttir og heilbrigða keppni. En ef við viljum halda þeim áfram verður að finna upp aðra leið til að fjármagna þá heldur en þá að heimaþjóð sé látin offjárfesta í misgagnlegum innviðum til að monta sig fyrir umheiminum. Við vitum að það dæmi mun ekki ganga upp til lengdar. Fólkið mun segja stopp.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.