Samuel Paty

Þessi barátta snýst um að standa vörð um opið og lýðræðislegt samfélag, þar sem mannréttindi eru ofar öllu, deilumál eru leyst með friðsamlegum hætti fyrir dómstólum og veraldlegt vald ríkir framar trúarbrögðum.

Morðið á franska kennaranum Samuel Paty föstudaginn 16. október í úthverfi Parísar var skelfileg áminning um þá atburði sem urðu í sömu borg í janúar 2015 þegar fjöldi fólks var myrtur – tekinn af lífi – á ritstjórnarskrifstofu teiknimyndablaðsins Charlie Hebdu af tveimur herskáum íslamistum. Það er bæði barnalegt og hættulegt að afgreiða þessi voðaverk sem einangruð tilvik, ódæði framin af sturluðu fólki.

Í samfélagi, sem byggir á þeirri hugmynd að einstaklingurinn sé frjáls til orðs og æðis, að hann njóti helgra mannréttinda, að deilur séu til lykta til leiddar frammi fyrir óháðum og óvilhöllum dómstólum, að leikreglur samfélagsins séu ákveðnar fólkinu eða fulltrúum þess, í slíku samfélagi á ofstækið ekki heima.

Samuel Paty var myrtur af íslömskum öfgamanni á viðurstyggilegan hátt þegar hann var á leið úr kennslustund eftir að hafa frætt nemendur sína um mikilvægi tjáningarfrelsins. Hann er nýjasta fórnarlambið í herför sem staðið hefur yfir í rétt rúm þrjátíu ár á hendur frjálsri hugsun og tjáningu hennar. Árið 1989 gaf íslamska klerkastjórnin í Íran undir út tilskipun (fatwa) til allra sanntrúaðra múslima um að breski rithöfundurinn Salman Rushdie skyldi drepinn fyrir guðlast. Rushdie hafði árið áður gefið út bókina Söngvar satans, þar sem ýjað var að því spámaðurinn Múhameð væri kannski ekki eins heilagur og múslimar höfðu viljað láta.

Eftir dauðadóminn vildi enginn Söngva satans kveðið hafa – eðlilega. Raunar voru fjölmargir sem gagnrýndu Rushdie harðlega fyrir að vega með þessum hætti að múslimum og reita þá til reiði. Leiðtogar múslima um heim allan kepptust við að bannfæra rithöfundinn og útgáfa bókarinnar var bönnuð í fjölmörgum löndum þar sem múslimar eru fjölmennir. Rushdie var óvíða aufúsugestur á þessum árum, enda fólk ekki mjög ágjarnt í vera innan um menn sem til stendur að sprengja í loft upp. Í raun má segja að fatwa-hótunin hafi virkað í næstum tuttugu ár, eða þar til nokkrum miðaldra blaðamönnnum á Jótlandi datt í hug árið 2005 hug að birta teiknimyndir af Múhameð í tilefni af ítrekuðum hryðjuverkum öfgasinnaðra múslima. Þeim var einnig hótað lífláti og raunar tilraunir gerðar til þess.

Einn af fáum fjölmiðlum í heiminum sem endurbirti teikningar Jótlandspóstsins var skopmyndatímaritið Charlie Hebdu í París. Hinir voru fleiri sem átöldu dönsku hippana fyrir þetta uppátæki. Ýmsir málsmetandi menn hér á landi tóku meira að segja upp hanskann fyrir hina móðguðu múslima og sögðu rangt að birta teiknimyndirnar.

Charlie Hebdu sagði hins vegar að það væri bara ekki þeirra mál þótt múslimar móðguðust, útgáfan lyti frönskum lögum sem ólíkt hinum íslömsku veitti mönnum frelsi til að tjá sig. Samuel Paty sýndi nemendum sínum skopmyndir til að undirstrika mikilvægi tjáningarfrelsisins. Fyrir það var hann tekinn af lífi eins og blaðamennirnir og teiknarnir á Charlie Hebdu.

Baráttan fyrir frelsi og mannréttindum, sem við tökum yfirleitt sem sjálfsögðum hlutum, er ævarandi. Sú barátta snýst ekki um útlendingahatur eða kynþáttahatur. Hún snýst heldur ekki um andúð á einstökum trúarbrögðum. Þessi barátta snýst um að standa vörð um opið og lýðræðislegt samfélag, þar sem mannréttindi eru ofar öllu, deilumál eru leyst með friðsamlegum hætti fyrir dómstólum og veraldlegt vald ríkir framar trúarbrögðum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.