Ávísun sem lausn við heimilisleysi

Það ætti enginn að þurfa að vera heimilislaus. Um það erum við örugglega flest sammála. En hvaða aðgerðir virka best til að tækla heimilisleysi? Þessari spurningu hefur verið reynt að svara í stórri rannsókn á vegum bandaríska húsnæðismálaráðuneytisins (HUD) sem staðið hefur yfir frá 2008.

Rannóknin, Family Options Study, fólst í því að fylgja eftir 2.282 fjölskyldum sem komu inn á neyðarskýli í 12 borgum víðsvegar um Bandaríkin. Fjölskyldunum var skipt í fjóra hópa:

SUB: Hópur sem fékk skilyrðislausar húsaleigubætur óháð því hvort hann rétt á þeim eða ekki. Hér var því fyrst og fremst lögð áhersla á að gefa fólki peninga en ekki að veita aðstoð að öðru leiti. Það Við getum kallað þetta avísana-leiðina.

CBRR:  Hópur sem fékk sérsniðna aðstoð við finna nýtt heimili. Í því gat falist aðstoð við leit ásamt tímabundinni leiguaðstoð. Það má líkja þessu við að fólk fái þjónustufulltrúa sem aðstoði það við öll skref í húsnæðisleit. Köllum þessa leið þjónustu-leiðina.

PBTH: Hópur sem fékk strax inn í tímabundnu húsnæði á vegum hins opinbera eða velgjörðarsamtaka. Þessi húsnæðisúrræði voru hins vegar alltaf tímabundin og gátu lengst varað í 24 mánuði. Eftir það þurfti fólk að finna annað húsnæði. Köllum þessa leið athvarfs-leiðina.

UC: Hópur sem fékk hefðbundna aðstoð. Í því gat falist sambland af hinum leiðunum, en fólk þurfti þá sjálft að rata í gegnum kerfið til að finna þau úrræði og sækja um. Köllum þessa leið hefðbundnu-leiðina.

Hópunum var fylgt eftir yfir nokkurra ára skeið og skoðað hversu vel fólkinu gekk að halda sér í húsnæði, hvaða áhrif úrræðin höfðu á tekjur, vímuefnaneyslu, ofbeldi, næringu, atvinnuþátttöku, líðan og fleira.

Niðurstöðurnar benda skýrt til að ávísana-leiðin sé árangurríkust til að tækla heimilisleysi. Sá hópur sem fékk skilyrðislausar húsnæðisbætur skoraði hæst á flestum sviðum en þjónustu-leiðin kom þar á eftir. Þjónustuleiðin var þó ögn ódýrari og þeir sem nýttu sér hana sýndu oft aðeins hærri atvinnuþáttöku.

Það má líka nefna að langflestir sem fengu boð um skilyrðislausar húsaleigubætur þáðu það boð en sama gilti ekki um önnur úrræði. Það er skiljanlegt. Það er ekki sjálfgefið að fólk segi já við öllu húsnæði, þar sem fólk vill kannski ekki flytja milli skólahverfa eða lenda í því að þurfa að flytja aftur ef húsnæðið er tímabundið.

Ávísanaleiðinn tryggði mesta stöðugleikann en eina sem gerðist við það að fólk t.d. þyrfti ekki lengur á aðstoðinni að halda var að hún skertist með hækkandi tekjum og varð svo að engu, en fólk gat áfram búið þar sem það vildi.

Það þarf auðvitað að taka fram að það er ekki alltaf hægt að heimfæra niðurstöður rannsókna milli landa. Bandaríkin eru ólík Íslandi. Rannsóknin fjallaði fyrst og fremst um heimilislausar fjölskyldur en ekki þann hóp sem  fyrirferðarmestur á í umræðunni á Íslandi sem eru einstaklingar með miklar og flóknar þjónustuþarfir.

Það úrræði sem skoraði hæst er til á Íslandi. Við veitum leigjendum húsnæðisbætur. Sveitarfélög veita svo sérstakar húsnæðisbætur til þeirra sem þurfa aukna aðstoð. En aðstoðin er ekki án skilyrða þó þau séu ekki mörg. Fyrir þarf að liggja þinglýstur leigusamningur til þriggja mánaða og húsnæði má ekki vera herbergi heldur íbúð með sér-svefnherbergi, baði og eldhúsi.

Á þessu eru gerðar undantekningar þegar um er að ræða herbergi á stúdentagörðum og áfangaheimilum. Þessi úrræði nýtast ekki endilega einstaklingum sem eru í virkri neyslu. Ef meiri sveigjanleiki yrði á greiðslu húsnæðisbóta fyrir þennan viðkvæma hóp myndi vonandi byggjast upp markaður þar sem aðilar með reynslu og fagþekkingu gætu séð um að þjónusta hann. Jafnframt má ætla að fleiri gætu leyst sín húsnæðisvandamál á eigin spýtur eða með minniháttar hjálp við húsnæðisleit. Niðurstaða rannsóknar gefur alla vega tilefni til að skoða þessa leið frekar í stað þess að einblína á þjónustuþyngri inngrip.

Stundum er látið eins og heimilisleysi snúist ekki bara um peninga. Margir eru hræddir við að ef einstaklingar í neyslu fá peninga eyði þeir þeim bara í rugl. Niðurstöður Family Options rannsóknarinnar benda hins vegar til að sú aðferð að gefa fólki ávísun sem nota má í leigu skilar góðum árangri.

Þó að vandi sumra þeirra sem glíma við heimilisleysi einskorðist ekki við peninga virðast peningar sannarlega geta hjálpað til við að leysa hann.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.