Samsæri og lygar

Þegar stjórnvöld, fjölmiðlar—og nú tæknifyrirtækin—leggjast á eitt við að breiða út tilteknar skoðanir og kaffæra aðrar, er mikilvægara en nokkru sinni að leyfa efasemdum, tortryggni og jafnvel vænisýki að vera hluti af umræðunni.

Ein af ógnunum sem talin er steðja að vestrænu samfélagi um þessar mundir er talin vera vaxandi trú fólks á ýmis konar samsæriskenningar og útbreiðsla svokallara falsfrétta. Meðal þeirra sem skipa sér fremst í röð baráttunnar gegn þessum vágestum eru sumir af þekktustu fjölmiðlum heims og tæknifyrirtækin í Kísildalnum. Saman eru þessi valdamiklu öfl smám saman að skilgreina sínar eigin markalínur um hvers konar fréttir og skoðanaskipti séu boðlegar í lýðræðislegri umræðu.

Fjölmiðlar á borð við New York Times í Bandaríkjunum og Guardian í Bretlandi telja virðast til dæmis telja sér í auknum mæli skylt að tiltaka af eigin frumkvæði hvort staðhæfingar sem aðrir setja fram eru ósannar. Þar er ekki óalgengt núna að settir sé fyrirvara á borð við „wrong“ og „false“ við það sem haft er eftir fólki í fréttum. Dæmi um svipað hef ég séð hjá RÚV. Hugtakið „handhafi sannleikans“ hefur löngum verið haft í háði um þá sem skortir víðsýni og umburðarlyndi til að efast um eigin sannfæringu. Nú virðist vera sífellt sjaldgæfara að fólk skilji orðin sem háðsglásu. Þess í stað virðist sem baráttan gegn falsfréttum og samsæriskenningum sé tilgangur sem helgar flest meðul, jafnvel þótt klassískar kenningar um mikilvægi skoðana- og tjáningarfrelsist sé meðal þess sem tjónast í hamaganginum.

Vissulega er það svo að margvíslegir rugludallar, og jafnvel nokkrir illvirkjar, ala blygðunarlítið á ýmis konar fjarstæðukenndum samsæriskenningum. Þetta er ekkert nýtt. Hins vegar kann farvegurinn að vera frjósamari þessi misserin en oft áður. Hér ættu stjórnvöld og fjölmiðlar ef til vill að líta sér nærri, því þeir sem trúa á fjarstæðukenndar samsærikenningar og falsfréttir hafa af einhverjum ástæðum misst trúna á hinn „opinbera sannleik.“ Og satt best að segja er það býsna hrokafullt bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi (og mun víðar) að halda að töpuð tiltrú á opinbera sannleikann sé til marks um að fólk sé að missa vitið eða skynbragð á raunveruleikann. Á undanförnum árum og áratugum hafa nefnilega hrannast upp máli þar sem stjórnvöld hafa beitt blekkingum og lygum, gjarnan í bæði annarlegum og hættulegum tilgangi. Aðdragandinn að Íraksstríðinu er kannski stærsta dæmið um þetta, en í honum brugðust flestir fjölmiðlar á báðum löndum með eftirminnilegum hætti. Og þegar stjórnvöld telja sig þurfa að sannfæra fólk um að hætta að hugsa og hlýða—þá er ætíð stutt í að sannleikurinn þyki of margbrotinn og tormeltur fyrir venjulegt fólk.

Hefði hugtakið verið komið í almenna notkun má heita öruggt að Nixon hefði klínt merkimiðanum „falsfréttir“ á sístækkandi ásakanir blaðamanna Washington Post um Watergate-innbrotið í upphafi áttunda áratugarins. Það er heldur ekki óhugsandi að í núverandi andrúmslofti hefði gengið betur að þagga niður í Seymour Hersh, sem fletti ofan af glæpsamlegu framferði bandarískra hermanna í bænum My Lai.

Þegar stjórnvöld, fjölmiðlar—og nú tæknifyrirtækin—leggjast á eitt við að breiða út tilteknar skoðanir og kaffæra aðrar, er mikilvægara en nokkru sinni að leyfa efasemdum, tortryggni og jafnvel vænisýki að vera hluti af umræðunni. Þótt trú fólks á hæpnar samsæriskenningar geti vissulega verið hættuleg, þá bliknar sú hætta í samanburði við ógnina sem stafar af þeim sem hafa óheft valdi til þess að skilgreina hinn eina rétta sannleika. Slíkt vald, eins og allt vald, spillir.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.