Parísaródæðin

Árásirnar í París síðastliðinn föstudag, sú í Beirút daginn áður, og á rússnesku farþegavélina yfir Sínaí 2. nóvember, virðast um margt frábrugðnar þeim hryðjuverkum sem drýgð hafa verið á Vesturlöndum á undanförnum árum. Með tilkomu og viðgangi íslamska ríkisins í Sýrlandi og Írak má segja að í fyrsta sinn geti Vesturlönd—og allur hinn siðmenntaði heimur—bent óhikað á hinn raunverulega óvin.

Á meðan al-Qaeda og aðrir hryðjuverkahópar bjuggu um sig í skyggðum hellum eða afskekktri eyðimörk—þá hefur forvígismönnum íslamska ríkisins tekist að koma á fót hálfgildings ríkisvaldi á stóru landsvæði. Þar ríkir vísir af stjórnarfari. Þar eru innheimtir skattar. Og þar er hugað að innviðum. Það má gefa þessu stjórnarfari ýmis nöfn; íslamófasismi er líklega einna besta hugtakið—því íslamska ríkið er fyrst og fremst pólitískt afl en ekki trúarlegt. Trúarbrögð eru ákaflega lítill hluti af hugmyndafræði og aðdráttarfali íslamska ríkisins, þótt þau séu vissulega hluti af heildarmyndinni. Miklu stærri hluti af áherslum íslamska ríkisins eru ýmis konar samsæriskenningar, tortryggni í garð Vesturlanda og draumar um stórveldi, ríkidæmi og pervertískt kúgunarvald. Hið veraldlega eru uppistaðan í heilaþvættinum sem á sér stað þegar ungt fólk er narrað til fylgis við íslamska ríkið. Sálnaveiðarar íslamska ríkisins leggja blátt bann við því að fylgismenn þeirra kynni sér á eigin spýtur kenningar íslam eða annarra lífsskoðana—enda er sjálfstæð hugsun ósamrýmanleg sefjuninni sem leiðtogar íslamska ríkisins treysta á að framkalla meðal stuðningsmanna sinn. Íslamska ríkið er nefnilega „költ“—og sem slíkt treystir það á algjöra einokun upplýsinga og hugmynda.

Til að skilja betur þetta fyrirbæri er gagnlegt að gera sér i hugarlund hvaða augum við litum það ef nýnasistum tækist í krafti ofbeldis að ná völdum á stóru landsvæði í Evrópu; og gæfu fólki val um að flýja, deyja eða undirgangast mátt þeirra. Allir heilvita menn myndu skilja að réttast væri að líta á þá sem byggju á slíku landsvæði sem fórnarlömb ótta og ógnana. Að sama skapi er vitað hvers konar grey eru að jafnaði ginnkeyptust fyrir því að verða hugfangin af sturlaðri heimsmynd öfganna og ofbeldis.

Árásin í París virðist vera framkvæmd af eins konar fimmtu herdeild íslamska ríkisins—ríkisborgurum Vesturlanda sem hafa sogast inn í hið hugmyndafræðilega svarthol hatursboðskaparins. Því miður er raunveruleg ástæða til þess að ætla að umtalsverður fjöldi Evrópubúa hafi á undanförnum árum togast í áttina að þessu svartholi. Flestir þessara einstaklinga eru líklega ungir og miklar líkur eru á að stærstum hluta þeirra sé viðbjargandi ef til þeirra næst. Þó er ljóst að hætta stafar af þeim sem eru heilaþvegnir af geggjuninni. Það þarf að finna þessa einstaklinga og bjarga þeim af þeim refilstigum sem þeir hafa ratað á.

En þrátt fyrir ógnina þá er sem betur fer afskaplega lítill hluti manna svo illa innrættur eða geðtruflaður að hann geti fengið af sér að taka þátt í kaldrifjuðum árásum á saklausa borgara og fórna sínu eigin lífi í ofanálag. Árásirnar í París voru nefnilega ekki flóknar. Það þarf ekki að hafa horft á marga sjónvarpsþætti til þess að átta sig á þeim skaða sem nokkrir menn geta valdið með einbeittan vilja, vélbyssur og miskunnarleysi að vopni. Í raun er umhugsunarvert—og vonandi til marks um þá mennsku sem erfitt er að útmá jafnvel hjá þeim sem eru firrtir af sturlun og reiði—að árásir eins og sú sem átti sér stað í París séu ekki algengari.

Frönsk stjórnvöld hafa brugðist við árásunum af mikill hörku og því miður virðist sem franski forsetinn hafi ekki heppilega skapgerð til þess að stýra frönsku þjóðarskútunni í gegnum þennan storm. Þegar þörf er á yfirvegun og visku býður Francois Hollande upp á taugaveiklun og stærilæti. Sprengjum rignir nú yfir landsvæðið sem fasistarnir hafa undir sinni stjórn. Að einhverju leyti er þarna verið að svala hefndarþorsta, en stríðsreksturinn er líka staðfesting á því að nú má í fyrsta skipti segja að óvinurinn í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ sé kominn með andlit og heimilisfang. Maður getur ekki annað en vonað að Frakkarnir séu ekki þessa dagana að stórauka aðdráttarafl ISIS með því að hranna upp saklausum fórnarlömbum til þess að hefna fyrir glæpi örfárra illvirkja.

Jafnvel í reiði sorgarinnar—og kannski einkum þá—þarf að horfa til lengri tíma en skyndihefndar. Þeir eru ekki margir sem telja sig geta varið þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar að bregðast við árásunum 11. september 2001 með því að ráðast inn í Írak. Uppgangur íslamófasistanna er skilgetið afkvæmi þeirrar innrásar, því Vesturlönd létu það viðgangast—og studdu jafnvel við þá þróun—að stríðsherrar í röðum súnníta komust til sífellt meiri áhrifa og höfðu aðgang að stöðugu streymi fjármagns, meðal annars frá furstadæmunum við Persaflóa, svokölluðum bandalagsríkjum Vesturlanda á svæðinu. Hugmyndin var að þessir stríðsherrar yrðu mótvægi við Íran og Sýrland um áhrif á svæðinu. Vesturlönd sáu hins vegar ekki fyrir að afleiðingin yrði nánast fullmótað fasískt ríki sem beindi spjótum sínum í allar þær áttir sem því sýnist.

Það er sannarlega þörf að uppræta veldi þessara fasísku stríðsherra—rétt eins og nauðsynlegt væri að uppræta það með öllum ráðum ef nýnasistar hefðu náð völdum einhvers staðar í Evrópu. Hernaður er óumflýjanlegur þáttur í því verkefni. En það er jafnljóst að enginn árangur næst ef aðgerðirnar takmarkast við loftárásir Vesturlanda og annað ofbeldi.

Eina raunverulega vonin felst í því að venjulegt og friðelskandi fólk, íbúar hinna hernumdu svæða, komist sjálft til valda og steypi hvort tveggja illmennunum sem þar ráða ríkjum og þeim viðurstyggilegu ranghugmyndum sem þeir þykjast byggja á. Styðja þarf þau öfl, bæði hugmyndafræðileg—svo sem friðelskandi múslímska leiðtoga—og hernaðarleg—til dæmis Kúrda sem hafa náð einna bestri viðspyrnu gegn hersveitum ISIS, til þess að mylja smám saman niður undirstöður óværunnar.

Til þess að svo geti einhvern tímann orðið er mikilvægt að fólk á Vesturlöndum leggi sig fram um að skilja betur þá krafta sem valda óstöðugleikanum í Mið-austurlöndum—og átti sig á því að vonina til þess að losa heiminn undan ógninni er að finna í hugum og hjörtum fólksins sem kýs að berjast eða flýja undan hryllingnum frekar en að selja sig undir hann.

Þess vegna geta Vesturlönd ekki látið ofbeldi duga. Miklum mun mikilvægara er að vinna áróðursstríðið—og tryggja að sem flestir þeirra sem nú kremjast undir járnhæl fasistanna viti að Vesturlönd muni styðja, og taka fagnandi á móti, hverjum þeim sem einhverjum hætti kýs að leggja mennskunni lið í orrustunni gegn ómennskunni—sama hvernig hann lítur út, og sama hvort eða hvernig hann trúir á æðri máttarvöld.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.