Gangbærni borgar sig

Síðastliðna helgi var haldin ráðstefna um uppbyggingu húsnæðis í Reykjavík og var þar farið yfir helstu áherslur þróunaraðila fasteigna þessa daganna og hvernig þær áherslur fara saman við áherslur og forgangsröðun þeirra sem eru að leita sér húsnæðis.

Ríkjandi þema hjá ungu fólki er að komast í húsnæði þar sem ekki er jafnmikil þörf á bíl og annars. Þetta má bæði rekja til breytts neyslumunsturs en einnig er hér um að ræða spurningu um krónur og aura. Bílastæði í kjallara kostar um sex milljónir í byggingu og rekstrarkostnaður bíls er yfir milljón krónur á ári.

Það er önnur hlið á þessari umræðu um fjölbreyttari ferðamáta sem fær furðu litla athygli en það er efnahagslegur fýsileiki þess að byggja upp gangbær hverfi, eða hverfi þar sem aðgengi og umhverfi gangandi er framúrskarandi.

Gangbær hverfi er oft ruglað saman við göngugötur en gangbært hverfi getur vel verið opið fyrir umferð akandi en leggur þó áherslu á að það sé gott og öruggt að vera fótgangandi.

Brooking stofnunin rannsakaði nýverið fjölda hverfa í Washington borg og komst að því að hverfi sem leggja áherslu á að styrkja ýmsa þætti sem hafa áhrif á gott aðgengi hjá gangandi vegfarendum eru verðlaunuð með hærra leiguverði húsnæðis, meiri sölu í verslunum og hærra fasteignaverð. Á höfuðborgarsvæðinu þá er verð hæst í miðborginni og lækkar nokkuð jafnt eftir því sem leiðin frá miðborginni lengist en það hækkar umfram fjarlægðina í nokkrum kjörnum þar sem gangbærni er betri en annars.

Á meðal annarra niðurstaða Brookings var að gangbær svæði eru sterkari eftir því sem þau tengjast fleiri gangbærum svæðum. Það skilar enn hærri húsaleigu og fasteignaverði. Það skilar því minni ábata að byggja stök gangbær hverfi frekar en að þróa lengri keðju hverfa sem tengjast vel. Þessi áhersla kemur vel í ljós í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem hverfist um samgönguás þar sem stefnt er að því að hafa þéttari, blandaða byggð.

Þegar einkenni íbúa gangbærra hverfa er skoðuð þá kemur í ljós að þeir greiða minna í samgöngur, enda geta þeir sparað við sig bíl, og hafa betra aðgengi að almenningssamgöngum. Hinsvegar greiða þeir meira fyrir húsnæði enda er það dýrara í gangbærum hverfum. Að sama skapi þá hafa íbúar hverfa með minni gangbærni lægri tekjur og minni menntun.

Með þetta í hug þá er það undarlegt að fasteignaþróunaraðilar og fjármálastofnanir sem lána til fasteignaverkefna séu ekki í ríkari mæli farin að gera meiri kröfu um gangbærni í nýjum verkefnum. Slíkt er líklegt til þess að skila þeim verðmætari, betri verkefnum.

 

Skýrsla Brookings stofnunarinnar: http://www.brookings.edu/~/media/Research/Files/Papers/2012/5/25%20walkable%20places%20leinberger/25%20walkable%20places%20leinberger.pdf

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.