Öruggur skóli

Með því að halda starfsemi leikskóla og skóla óskertri er verið að bjarga heill margra barna á hverjum degi.

Það má færa rök fyrir því að heimaveran sem fylgir Covid fari almennt ágætlega með það fólk og þær fjölskyldur sem eru í ágætu jafnvegi frá degi til dags. Þessar fjölskyldur hafa fengið óvænt og jafnvel kærkomið tækifæri til að eyða meiri tíma saman og ráða bara ágætlega við, hvort sem er í auknum leik eða meiri skjátíma enda er bæði gott þegar það er gaman að vera saman. 

Þar sem jafnvægið er brothættara er samveran farin að reyna á. Þeir sem glíma við áfengis- og fíknivanda eiga til dæmis ekki sjö dagana sæla og enn síður fjölskyldur þeirra. Það þarf ekki einu sinni þann vágest til, til að gera heimilislífið óbærilegt hjá fjölda fjölskyldna sem eiga erfitt með óvissuna, líður ekki vel í návist hvors annars eða þola illa einangrunina. Í vor, þegar mikil röskun varð á starfi leikskóla og skóla, voru fjölskyldur yngri barna víða á barmi þess að missa tökin á ástandinu og margar misstu þau. Röð, regla og rútína er það sem skiptir langmestu máli í lífi barna, svona næst á eftir eða álíka miklu og ást og umhyggja. Þegar skólinn byrjar að riðlast fer þetta. 

Það er ekki búið að ná tökum á ástandinu í þessari bylgju en það er ekki útlit fyrir að samkomutakmarkanir verði hertar umfram það sem nú er. Það er rétt hjá sóttvarnaryfirvöldum að tiltekið hagsmunamat liggur hjá stjórnvöldum í því hversu hart á að ganga fram í sóttvarnaraðgerðum og samkomutakmörkunum. Spurningin hversu mörgum mannslífum á að bjarga fyrir skert lífsgæði og efnahagsþrengingar hvílir á endanum á stjórnvöldum að svara.

Sóttvarnaryfirvöld eru undir mikilli pressu að hefta starf skóla og leikskóla umfram það sem nú þegar er gert og vissulega gætu sóttvarnaryfirvöld sett þess ákvörðun á herðar stjórnvöldum í ríkara mæli en þau gera. En af einhverjum ástæðum hafa sóttvarnaryfirvöld ákveðið að standa vörð um leikskóla og skóla og ákveðið að þar verði óskert starfsemi. Enginn merki eru enn um að frá þessu verði vikið. Mikilvægi þess að standa í lappirnar með þessa ákvörðun er gríðarlegt. Þetta snýst ekki bara um að standa vörð um menntun barnanna okkar og félagslíf og gera foreldrum þeirra kleift að sinna vinnu. Fyrir þau börn sem búa á heimilum þar sem jafnvægið er brothætt kann skólinn að vera þeirra eini griðarstaður, þar sem þau losna við öskrin eða andlega ofbeldið, þurfa ekki að horfa upp á mömmu eða pabba líða illa, þar sem þau fá örugglega eitthvað að borða og geta slakað á. Með því að halda starfsemi leikskóla og skóla óskertri er verið að bjarga heill margra barna á hverjum degi. Yfirvöld geta ekki tryggt börnum ást og umhyggju en þau geta svo sannarlega búið þeim röð, reglu og rútínu með öruggu skólaumhverfi, sérstaklega þeim sem skortir ást og umhyggju.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.