Hleypið okkur út

Margir gráta þá slæmu stöðu sem upp er komin á mörkuðum ástarinnar. Það eru rauðir dagar í þeirri kauphöll dag eftir dag og engin von á að það breytist í bráð.

Vegna ástandsins er virkni samfélagsins að miklu leyti í lamasessi og margir þættir þess fúnkera eftir algjörlega breyttum leikreglum. Ég á til dæmis ennþá eftir að venjast því að horfa á enska boltann án áhorfenda. Að undanförnu hefur svo mikið verið rætt um hve erfitt fólki finnst að komast ekki í sund og líkamsrækt, þá eru hárgreiðslustofur lokaðar og enginn kemst í leikhús eða í bíó. Samkomutakmarkanir gera okkur erfitt að lifa lífi okkar með eðlilegum hætti og er ófyrirséð hversu lengi það ástand muni vara.

Einn þáttur samfélagsins er þó í algjöru lamasessi líka og minna er um það rætt finnst mér. Fólk í makaleit á virkilega erfitt með að spila eftir nýjum leikreglum samfélagsins og tilhugalíf fólks sem ekki er í sambúð hefur að miklu leyti lagst af. Það er kannski ekki skrýtið að þetta sé ekki rætt enda þykir þetta ekki mikið vandmál.

Mér og vinum mínum þykir þetta þó gríðarlega hvimleitt vandamál. Við ræðum þetta mikið okkar á milli enda ungir menn, vanir að stunda næturlíf borgarinnar. Vettvangur makaleitar er enginn þar sem barir og skemmtistaðir eru lokaðir og hvergi hægt að kynnast skemmtilegu fólki. Maður héldi kannski að stefnumótaforrit yrðu einhver lausn á þessu en hver vill bjóða á fyrsta stefnumót heim til sín. Auðvitað vildi maður heldur fara á einhvern bar og hittast yfir einum drykk til þess að skapa rétta stemningu.

Iðulega er aðeins rætt um tekjutap, atvinnumissi, lokunarstyrki og hlutabótaleiðir þegar rýnt er í afleiðingar þess að samfélagið sé nú í dvala af völdum veirunnar. Það sem minna er rætt – og kannski eðlilega – er þörf fólks á nánd og samveru. Ekki vildi ég vera að stíga mín fyrstu skref á flóknum markaði ástarinnar þegar ekkert má gera. Nemendur sem byrjuðu í menntaskóla í fyrra til dæmis, munu varla fá tækifæri til þess að nýta þann tíma til þess að gera það sem krökkum í menntaskóla er tamt að gera á menntaskólaböllum og úti á lífinu. Sorglegt.

Ef til vill munum við, að þessu ástandi öllu yfirstöðnu, sjá svipaða kynslóð baby-boomers og við gerðum eftir síðara stríð, þegar fólk fjölgaði sér meira en nokkru sinni fyrr á Vesturlöndum. Ég er viss um að það verði algjört karníval-ástand á skemmtistöðum borgarinnar þegar fólk fær loks að svala þorsta sínum eftir nánd og, eftir atvikum, skyndinánd.

Auðvitað er ekki forgangsmál hjá sóttvarnayfirvöldum að taka tillit til ungs fólks í ástarleit enda er margt mikilvægara sem þau þurfa að taka tillit til. Það eru samt margir sem taka eftir og gráta þá slæmu stöðu sem upp er komin á mörkuðum ástarinnar. Það eru rauðir dagar í þeirri kauphöll dag eftir dag og engin von á að það breytist í bráð. Staðan er raunar orðin svo slæm að íslensk ungmenni láta sér það lynda að hitta leikmenn Manchester United á hótelherbergjum í borginni. Nú er mál að linni.

Latest posts by Oddur Þórðarson (see all)

Oddur Þórðarson skrifar

Oddur hóf að skrifa á Deigluna í maí 2020.