Örlagaskot í Teheran?

Klukkan rúmlega fimm í gærmorgun að íslenskum tíma var Saeed Hajjarian skotinn í andlitið af óþekktum byssumanni í miðborg Teheran, höfuðborgar Írans. Að sögn vitna flúðu árásármennirnir af vettvangi á mótorhjóli en nærstaddir lögreglumenn gerðu enga tilraun til að ná þeim.

Klukkan rúmlega fimm í gærmorgun að íslenskum tíma var Saeed Hajjarian skotinn í andlitið af óþekktum byssumanni í miðborg Teheran, höfuðborgar Írans. Að sögn vitna flúðu árásármennirnir af vettvangi á mótorhjóli en nærstaddir lögreglumenn gerðu enga tilraun til að ná þeim. Hajjarian lifði árásina af en liggur meðvitundarlaus á sjúkrahúsi. Hann er talinn einn helsti hugmyndafræðingur umbótasinna í Íran, en þeir unnu stórsigur í almennum þingkosningum fyrir skemmstu.

Þetta banatilræði gæti orðið vendipunktur í hinni „þöglu“ byltingu, sem átt hefur sér stað í Íran á síðustu árum og náði hámarki í fyrrnefndum kosningasigri umbótasinna. Hajjarian er einn nánasti samstarfsmaður Mohammads Khatamis, hins umbótasinnaða forseta Írans, og sú ákvörðun forsetans, að setja öryggissveitir í Teheran í viðbragðsstöðu í kjölfar tilræðisins, þykir benda til þess, að hann telji að harðlínuöflin standi að baki tilræðinu. Umbótasinnaðir stuðningsmenn Hajjarians eru ekki í neinum vafa um að harðlínuöflin, sem ráða lögreglsveitum, dómstólum og fleiri mikilvægum valdastofnunum, séu ábyrg fyrir tilræðinu. Ef sú er raunin, þá er hættan á borgarastríði í Íran meira en raunhæf.

Sú hugarfarsbreyting, sem orðið hefur meðal írönsku þjóðarinnar á síðustu árum og rekja má að verulegu leyti til Khatami forseta og áhrifa vestrænnar menningar, er djúpstæðari en flestir töldu, áður en gengið var til kosninga fyrir skemmstu. Íranska þjóðin vill eiga samleið með hinum vestræna heimi en slíkt er auðvitað eins og að samrekkja með Satan í augum bókstafstrúarmanna. Valdastéttin mun ekki gefa eftir baráttulaust og hæpið er að þjóðin láti á ný hneppa sig í fjötra bókstafstrúar. Einhvers konar uppgjör virðist óhjákvæmilegt og banatilræðið í Teheran í gærmorgun er hugsanlega vísbending um það sem framundan er.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.