Hvar er pabbinn?

Alveg eins og íslenskir karlmenn virðast þurfa lagasetningu til að annast börn sín eftir fæðingu, til jafns á við mæður, velti ég því fyrir mér hvort aðra slíka þurfi til þess að opna augu fólks fyrir því að ekki aðeins konur og karlar eignast saman börn.

Hvar

Alveg eins og íslenskir karlmenn virðast þurfa lagasetningu til að annast börn sín eftir fæðingu, til jafns á við mæður, velti ég því fyrir mér hvort aðra slíka þurfi til þess að opna augu fólks fyrir því að ekki aðeins konur og karlar eignast saman börn. Og komi þetta einhverjum á óvart bendi ég á það að árlega eignast fólk í samkynja samböndum börn saman og leiðirnar sem þar eru farnar eru jafn ólíkar og margar og hjá fólki í gagnkynja samböndum.

Hér að ofan er ég að vísa til frumvarps til breytinga á lögum um fæðingarorlof.  Þar skal lengja rétt til fæðingarorlofs en nánast öll sú lenging verður færð feðrum með þeim rökum að bæta þurfi þátttöku þeirra þegar að orlofstöku kemur. En í allri þeirri umræðu, sem vissulega er mikilvæg, virðist margir hafa gleymt því að börn eiga ekki alltaf foreldra að gagnstæðum kynjum.  Börn eiga tvær mæður, tvo feður og foreldra sem ekki skilgreina sig eftir kyni.  Hér er því mikilvægt að draga það út úr jöfnunni að vandamálin sem liggja að baki hugmyndinni að jafnri skiptingu fæðingarorlofs, eiga ekki við í öllum tilfellum.  Og tala skal um það með þeim hætti.

er

Nú liggur sömuleiðis fyrir frumvarp um breytingu á barnalögum er snúa að kynrænu sjálfræði. Þar má meðal annars sjá fram á löngu tímabærar breytingar á stöðu trans foreldra en annað situr eftir.  Löggjafinn virðist enn hanga það aftarlega á merinni að þrátt fyrir breytta tíma þykir ekki tímabært að gera barnalögin kynjalaus. Og enn aftar hangir hann því ekki mun staða samkynja para sem eignast saman barn með aðstoð tækninnar verða leiðrétt.  Því verður það látið óbreytt að eftir fæðingu barns þarf það foreldri sem ekki gekk með barnið að skila inn vottorði þess efnis að barnið sé þess – og getið með samþykki!

pabbinn..?

Það eru ekki alltaf pabbar. Það eru ekki alltaf mömmur. Fólk er foreldrar og því fólki er löggjafinn að mismuna.  Nú er tækifæri til bóta. Við gætum öll ímyndað okkur að væri gagnkynja fólk sett í sömu stöðu væri ekkert hlé gert á mótmælum.  

Latest posts by Helga Margrét Marzellíusardóttir (see all)

Helga Margrét Marzellíusardóttir skrifar

Helga Margrét hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2010.