Nokkrir ferkílómetrar af frjálsu landi

Í dag eru liðin 76 ár síðan uppreisnin í Varsjá hófst. Á fyrstu fjórum dögum náðu uppreisnarmenn umtalsverðum hluta borgarinnar á sitt vald. Pólskir fánar héngu á hæstu byggingum borgarinnar, blöð og komu út og sjálfstæðar útvarpssendingar hófu göngu sína.

Ég hef heimsótt uppreisnarsafnið í Varsjá. Sú minning skildi mest eftir sig var veggur með litlum miðum sem íbúarnir höfði sent sín á milli en ungir skátar sáu um póstþjónustu á tímum uppreisnarinnar. Miðarnir voru nefnilega ekki svarthvítir eins og flestar myndirnar heldur skrifaðir með pennum í alls konar litum á alls konar pappír. Og skilaboðin voru oftast: “FLESTIR DAUÐIR HÉR. EN HJÁ YKKUR?”

Uppreisnarmenn áttu við ofurefli að etja. Þjóðverjar lömdu uppreisnina niður af ómennskri hörku og Stalín gerði lítið til að hjálpa. Uppreisnin varði í tvo mánuði og hafði skelfilegar afleiðingar fyrir borgina og íbúa hennar. Tugþúsundir óbreyttra borgara voru teknir af lífi í Wola-hverfinu og á öðrum stöðum í borginni. Samtals létust um 200 þúsund manns. Varsjá hér um bil jöfnuð við jörðu, ekki aðeins í stríðsátökum heldur með skipulögðu niðurrifi eftir að átökunum lauk. Fyrir vikið eru flest “gömul” hús í Varsjá í á aldrinum við húsin í Hlíðunum.

Þrátt fyrir ósigurinn þá varð það engu að síður þannig að þessa tvo mánuði voru nokkrir ferkílómetrar í Varsjá sem voru hvorki undir stjórn nasista eða kommúnista. Það áttu eftir að líða 45 ár þangað til að það varð raunin að nýju.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.