Með þér

Fjörutíu ár eru liðin frá því að Bubbi Morthens reið inn í svið íslenskrar dægurmenningar með áður óþekktum látum. Ríflega helming þess tíma hefur Deiglan komið út með misreglulegum hætti. Það var þó ekki fyrr en núna í þessum júlímánuði við það sem ranglega hafa verið kallaðar fordæmalausar aðstæður að Bubbi og Deiglan áttu samleið. Allt efni Deiglunnar í júlí hefur með einum eða öðrum hætti verið skírskotun í lög og texta Bubba Morthens.

Heilagur maður frá Austurlöndum. Sú lýsing á Bubba Morthens hefur verið eignuð Megasi og það er kannski ekki verri lýsing en hver önnur. Árið 1991 þegar ég hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík þótt ekki sérstaklega fínt að halda upp á Bubba Morthens, sagt að hans bestu dagar væru að baki. Síðan eru liðnir nálega þrír áratugir og enn í dag trónir Bubbi á toppnum, treður upp með tónlistarfólki sem ekki var einu sinni fætt þegar hann var sagður kominn yfir sitt besta.

Vinsældir Bubba Morthens, eða öllu heldur gildi hans fyrir íslenska samtímamenningu, er kannski ekki auðvelt að útskýra. Ferill Bubba sýnir að hann er stöðugt að endurnýja sig, hann er opinn fyrir nýjum hugmyndum og óhræddur að tileinka sér nýja hluti, óhræddur við að taka áhættu, jafnvel þótt það þýðir að gárungar þessa lands fái þannig færi á því að hafa hann í flimtingum. Auðvitað er Bubbi Morthens mótsagnakenndur í sínum boðskap en þó eru rauðir þræðir sem liggja í gegnum allan ferilinn þar sem hann hefur verið sjálfum sér samkvæmur.

Tvennt ber þar kannski hæst. Annars vegar er hann baráttumaður réttinda sem ekki eru endilega sjálfsögð. Hann var einna fyrstur til að taka upp hanskann fyrir samkynhneigða á Ísland, á tímum þegar það var alls ekki til vinsælda fallið, og síðar hefur hann gert réttindi innflytjenda að baráttumáli. Hins vegar er það hinn stöðugi óður Bubba til landsbyggðarinnar. Bubbi er ekki landsbyggðarmaður, hann er erlendu bergi brotinn og alinn upp í Vogunum. En í listsköpun hans hættir landsbyggðin að vera landfræðilega fyrirbrigði og verður hugarástand, hluti af eðli manns.

Á þessum síðasta degi júlímánaðar lýkur nú tímabundinni og algjörlega einhliða samfylgd Deiglunnar og Bubba Morthens. Af þeirri ástæðu og öðrum líka er við hæfi að yfirskriftin sé sú sem hún er.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.