Neyðin kennir valdi að spinna

Á reglulegum upplýsingafundi Almannavarna í síðustu viku kom fram að hjá heilbrigðisyfirvöldum væri í undirbúningi að gefa út svokallað „smitrakningarapp“ þar sem hver símanotandi mun veita heimild til að með hjálp GPS tækni muni síminn veita upplýsingar um ferðir viðkomandi inn í gagnagrunn yfirvalda. Þetta eigi m.a. að gefa smitrakningarteymi sóttvarnarlæknis (sem samanstendur helst af lögreglumönnum) og ríkislögreglustjóra færi á að sjá hvaða símar voru nálægt síma sýkts einstaklings.

Það er ljóst að yfirvöld hafa háleitar hugmyndir varðandi þetta forrit. Þannig hefur komið fram að markmiðið sé að í lok þessarar viku hafi yfir 60% landsmanna hlaðið forritinu niður á síma sína, samþykkt notkunarskilmálana og hafið notkun. Það er fáheyrð útbreiðsla.

Slæmar fyrirmyndir

Í kynningu á íslenska forritinu var sérstaklega tekið fram að sambærileg öpp hefðu verið nýtt í Singapúr og hjá Suður-Kóreumönnum. Hvorugt ríkjanna þykir sérstaklega sterkt þegar kemur að því að vernda friðhelgi einkalífs borgara sinna. Sem dæmi má nefna að bæði ríkin hafa birt opinberlega nöfn, heimilisföng og ferðasögu allra sem hafa verið greindir með Corona-19 veiruna – í nafni þess að almenningur geti séð hvort hann hafi verið í nálægð við sýktan einstakling. Vandamálin og óþægindin sem þessi framkvæmd hefur valdið sýktum einstaklingum eru ómæld og berast fréttir frá ríkjunu þess efnis að fólk sé jafnvel hræddara við að vera nafngreint en að fá sjúkdóminn sjálfan.

Forritið „Trace Together“ í Singapúr notar Bluetooth í stað GPS og vistar því ekki staðsetningu símtækja heldur lætur vita af tækjum sem hafa verið í um 2 metra nálægð við síma notandans hverju sinni. Yfirvöld geta þannig kallað eftir upplýsingum um alla sem hafa verið nálægt sýktum einstakling síðastliðna 14 daga án þess að vita nokkurn tímann hvar og hvenær viðkomandi aðilar hafi hist. Það er áhugavert að stór hluti af „söluræðu“ yfirvalda í Singapúr var að appið þeirra byggðist á Bluetooth en ekki GPS sem hamlaði verulega þeim upplýsingum sem yfirvöld gætu safnað. Þetta virðist hins vegar ekki hafa truflað íslensk stjórnvöld sem völdu GPS fram yfir Bluetooth vegna þess að fyrrnefnda lausnin væri „einfaldari í notkun“.

Í Suður-Kóreu hafa nokkur öpp farið í umferð sem tengja GPS símans við gagnagrunn yfirvalda. Þekktast af þeim er hið svokallaða „Corona 100 meter“ app sem varar notendur við því ef þeir fara innan við 100 metra frá svæði þar sem sýktur einstaklingur hefur verið. Þar á eftir kemur hið svokallaða „Corona Map“ forrit sem þjónar svipuðum tilgangi þ.e. að segja notandanum hvar sýktur einstaklingur hefur verið. Bæði öppin gefa notendum síðan ítarlegar upplýsingar um hina sýktu sem hafa verið á hverjum stað.

Þessi ríki voru nefnd af íslenskum yfirvöldum sem rökstuðningur og dæmi um árangursríka notkun á smitrakningarforritum. Í því samhengi var líka áhugavert að sjá hvaða lönd voru ekki nefnd en Singapúr og Suður-Kórea eru svo sannarlega ekki einu löndin til að beita þessum úrræðum. Kína, Íran og Ísrael hafa öll nýtt símtæki almennings til að berjast gegn Corona-19 veirunni og hafa stjórnvöld í öllum þessum ríkjum verið ásökuð um að nýta sér heimsfaraldurinn til að hafa enn betra eftirlit með þegnum sínum.

Upplýst og gagnrýnin samstaða

Þetta ætti ekki að koma á óvart. Utanaðkomandi ógn býr til kjöraðstæður fyrir óskammfeilin stjórnvöld til að takmarka réttindi þegna sinna. Þannig minnkar hræðsla og kvíði mótstöðu almennings gagnvart auknum heimildum stjórnvalda, til dæmi til að hnýsast í einkalíf hvers og eins. Það breytir því ekki að núna, þegar raunveruleg ógn ber að garði, þá ber okkur að sjálfsögðu að sýna samstöðu og reyna að hjálpa yfirvöldum eftir fremsta megni.

Við látum það svo gott sem algjörlega möglunarlaust yfir okkur ganga að funda- og ferðafrelsi okkar, eitt af grundvallarmannréttindum, sé skert með einu pennastriki á einu augnabliki. Við vitum nefnilega að það er nauðsynlegt til að tryggja eitt af fáum réttindum okkar sem vega þyngra – nefnilega réttinn til lífs. Það hjálpar líka að við getum, hér á landi, verið nokkuð viss um að þessar takmarkanir séu tímabundar og verði aflétt við fyrsta tækifæri.

En þrátt fyrir að gullna reglan í krísu sé yfirleitt að vera ekki fyrir þá megum við ekki missa sjónar á því sem við stöndum fyrir sem samfélag. Við verðum að vera á verði gagnvart aðgerðum sem ganga þvert gegn réttindum og lífsgildum okkar. Hættulegum fordæmum sem gætu haft skaðleg áhrif á allt þjóðfélagið löngu eftir að heimsfaraldurinn er gengin yfir.

Hvar er meðalhófið?

Og þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að íslenska forritið verði misnotað af yfirvöldum þá er augljóst að fordæmið, þ.e. gagnagrunnur með staðsetningu allra landsmanna, er í eðli sínu slæmt. Það þurfa því að vera veigamikil rök til að réttlæta slíkt inngrip. Því miður þá virðast þau rök af skornum skammti og í raun fátt sem réttlætir svo umfangsmikla aðgerð, sér í lagi í ljósi þess að sömu niðurstöðu má fá með veigaminni inngripum.

Fyrir það fyrsta, þrátt fyrir að forritið muni vissulega auðvelda yfirvöldum smitrakningu, þá er það í rauninni ekki að mæta brýnni neyð, þörf eða nauðsyn. Á upplýsingafundunum Almannavarna hefur einmitt komið fram að rakningarteymi ríkislögreglustjóra hafi náð aðdáunarverðum árangri við að rekja smit. Af þeim sökum er meirihluti þeirra sem smitast þá þegar í sóttkví vegna samneytis við smitaðan einstakling. Aðferðir teymisins, sem ganga mun skemur á friðhelgi okkar en hið fyrirhugaða forrit, virka – og þær virðast virka vel. Svo vel að eftir hefur verið tekið víða um veröld.

Það má einnig færa rök fyrir því að hið fyrirhugaða forrit sé langt frá því vægasta úrræðið til að ná fram yfirlýstum markmiðum. Á upplýsingafundum Almannavarna hefur komið fram að smitrakningarteymi ríkislögreglustjóra hafi lent í því að smitaðir hafi átt erfitt með að muna hverja þeir hafi hitt og/eða hvert þeir hafi farið síðustu 14 daga. Forritið muni hjálpa þeim með minnisleysið. Nú skal ekki gert lítið úr þessu vandamáli en rétt er að spyrja hvort ekki hafi verið réttara að reyna vægara úrræði áður en forritið verður kynnt til sögunnar. Það má t.d. færa rök fyrir því að einföld skilaboð frá vinsælasta sjónvarpsfólki landsins, hinu svokallaða þríeyki, um að allir eigi eftirleiðis að halda dagbók um allar ferðir sínar utandyra skili sömu niðurstöðu og háþróað rakningarforrit án þess að það fæli í sér innrás í einkalíf almennings.

Þess utan hefur þjóðfélagið nánast stöðvast og er stór hluti þjóðfélagsins nú þegar kominn í einhvers konar sjálfskipaða sóttkví, eða a.m.k. heimavist, með örfáum undantekningum vegna búðarferða eða vinnu. Það þýðir fyrir flesta að með hverjum deginum sem líður þá hittum við færri og höfum minna að gera. Sem dæmi má nefna að pistlahöfundur hitti í síðustu viku einn fjölskyldumeðlim, utan þeirra sem búa á heimilinu, og síðan fimm manns á einum vinnufundi. Samtals sex. Ein neyðarnammiferð í Pétursbúð og nokkrir göngutúrar með dótturina í vagni. Þetta er ekki flókin tilvera og skýrslan til smitrakningarteymisins, færi svo að það hefði samband, væri ekki aðeins auðveld heldur nákvæmlega eins og hún á að vera. Stutt, einföld og fámenn – og án þess að nauðsynlegt væri nota nokkur hjálpartæki.

Hverjum treystir þú?

Það hefur verið aðdáunarvert að sjá hvernig embættismenn okkar, aðallega hið svokallaða þríeyki, hafa farið með þau gífurlegu völd sem þeim hefur verið afhent. Á næstum því hverjum einasta upplýsingafundi Almannavarna hafa embættismennirnir ítrekað að ekki verði ráðist í harðari aðgerðir til að hefta frelsi borgaranna en að nauðsyn þykir. Meira að segja hafa þau oft þurft að réttlæta og verja ákvarðanir sínar um að fara léttvægari leiðir í aðgerðum t.d. varðandi ákvarðanir um að læsa ekki landinu, loka ekki landshlutum eða setja ekki á útgöngu- og/eða samgöngubann. Þess vegna stingur ákvörðunin um þetta smitrakningarapp í stúf.

Reyndar verðum við alltaf að taka persónur og leikendur út úr myndinni þegar valdheimildir eru metnar. Sem dæmi má nefna að líklega myndu margir Íslendingar vera tilbúnir að afhenda Víði Reynissyni viðkvæmar persónuupplýsingar, treysta því að hann myndi koma fram við upplýsingarnar af virðingu og aldrei láta koma sér til huga að misnota þær .

Reglur og umgengni við mannréttindi borgara geta hins vegar ekki verið sniðin að þeim einstaklingum sem eru við völd hverju sinni heldur skal ávallt að gera ráð fyrir hinu versta. Margir í Bandaríkjunum vildu t.d. óska þess núna að valdheimildir forsetaembættisins væru skýrari og að hefðir í kringum embættið hefðu verið skrásettar áður en síðast var kosið. Það er aldrei tryggt að heiðursmenn eða -konur setjist í æðstu embætti. Þvert á móti eru líkur á því að eftir þeim sækist fólk sem mun fara illa með þau völd sem þar er að finna. Reynið að máta aðra einstaklinga í sæti Víðis. Treystir þú hverjum sem er innan yfirstjórn lögreglunnar til að fylgjast með öllum ferðum þínum? En dómsmálaráðuneytinu?

Þarf þetta?

Það er gömul saga og ný að það sé erfiðara að afnema valdheimildir en að koma þeim á. Og þrátt fyrir að það takist þá stendur fordæmið eftir – tilbúið til notkunar næst þegar einhver ráðamaður fær þá flugu í höfuðið að fylgjast betur með okkur. Þess vegna þarf alltaf að sníða stjórnvöldum þröngan stakk til að ganga á réttindi borgaranna, þar á meðal friðhelgi einkalífs. Hinar fyrrnefndu erlendu fyrirmyndir af smitrakningaforritum sýna glöggt af hverju svo er. Þær eru bæði vafa- og varasamar og hafa vakið áleitnar spurningar um misnotkun. Forritið er ekki nauðsynlegt fyrir íslensk yfirvöld, vekja upp réttmætar spurningar um meðalhóf og setja slæmt fordæmi.

Vafalaust liggur góður hugur á bak við hugmyndina, að hjálpa í baráttunni gegn heimsfaraldrinum.  Og vissulega eru inngrip í friðhelgi einkalífs er ekki jafn áþreifanleg gagnvart almenningi og takmörkun á funda- og ferðafrelsi. En slík inngrip eru alveg jafn alvarleg og því miður bendir margt til þess að forritið hafi ekki verið mælt á sömu vogarskálum og hinar aðgerðirnar sem stjórnvöld hafa gripið til. Miðað við fyrri yfirlýsingar á upplýsingafundum almannavarna hefði það líklega þýtt að forritið hefði aldrei yfirgefið teikniborðið.

Enda ekki nauðsynlegt.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.