Morfísvæðingin

Eitt sinn elskaði ég að fara á góða Morfís keppni, heyra liðin berjast fyrir sínum málstað og gera allt til þess að vinna keppnina. Umræðuefnin voru á ýmsa vegu en alveg sama hvaða hlið þitt lið var að verja þá hélstu með liðinu, þó þú værir ósammála. Þitt lið skyldi vinna. Mér er minnisstætt að hafa einu sinni haldið með liði sem átti að tala fyrir dauðarefsingum, sem ég er í alfarið og innilega á móti.

En Morfís keppnir eru skemmtilegar fyrir það sem þær eru, keppni í rökræðum en í daglegu lífi á samfélagið ekki að vera eins og stanslaus Morfís keppni. Upp á síðkastið hef ég velt því fyrir mér hvort samfélagið okkar sé kannski að breytast í daglega Morfís keppni. Í hverri viku kemur upp eitthvert mál fyrir okkur sem samfélag til að rökræða sem nær tökum á allri umræðu, hvort sem það er nýleg hótelheimsókn, hinsegin Jesú, COVID 19 samsæri eða drepleiðinlegur Orkupakkinn. Í hvert skipti sem upp koma svona mál þá verð ég hissa á frásögnum vina minna, ekki vegna þess að ég er þeim ósammála heldur vegna þess að þau ummæli sem þau hafa séð á sínum samfélagsmiðlum eru hvergi sjáanleg á mínum samfélagsmiðlum eða öllu heldur í mínum persónulega bergmálshelli.

Þegar svona mál heltaka umræðuna þá auðvitað fer ég að leita að ummælum eins og vinir mínir hafa tekið eftir og ég auðvitað smelli í status um málið. Þannig virkum við bara. En er ég ekki bara eins og allir hinir að tala inn í salinn?

Ég er orðin hrædd um að svo sé því við eigum það öll til að í sleppa því að ræða við þá sem eru á annarri skoðun og reyna að skilja hvert annað. Ástæðan er líklega (amk hjá mér) að við nennum ekki í rifrildið það er þægilegra að smella í stöðufærslu um málið og fá nokkur like frá manns eigin bergmálshelli. Þar kemur ákveðin friðþæging um að við séum að gera okkar til að bæta stöðuna.

Til að nálgast betra samfélag er ekki endilega best að beita Morfís aðferðinni, kannski er betri leið að reyna að skilja þann sem er á öndverðum meiði og ræða málin og sjá hvort það  sé ekki vænlegra til að minnka heiftina á milli hópa.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.