PISA könnunin gaf til kynna að íslenskir nemendur virðast verr undirbúnir fyrir framhaldsskólanám en jafnaldrar þeirra í OECD löndunum. Svo virðist sem tíminn sem krakkarnir okkar eyða í skólanum sé ekki nægjanlega skilvirkur og að þeir standi ekki jafnfætis nemendum annars staðar.
Þó svo að hægt sé að velta upp ýmsum ástæðum fyrir þessu er nauðsynlegt að komast í botns í því hverjar raunverulegar orsakir eru. Til dæmis mætti nefna að skólaár grunnskólanema er styttra hér en víða annars staðar og sumarfríin lengri. Þar fyrir utan eru dagar sem skólahald raskast utan hefðbundinna frídaga um 27 sem er töluverður fjöldi í alþjóðlegum samanburði. Íslensk ungmenni fá álíka margar kennslustundir í sinni grunnskólagöngu og jafnaldrar þeirra innan OECD þrátt fyrir að vera einu ári lengur í grunnskóla. Líklega kemur þó fleira til.
Á þriggja ára fresti er birt mæling á menntakerfi í OECD löndum og árangur 15 til 16 ára nemenda í lesskilningi, stærðfræði og náttúruvísindum. Íslenskir skólastjórnendur kvíða birtingu PISA enda ber könnunin þess merki að ekki sé allt með felldu.
Frá árinu 2000 hefur árangur íslenskra nemenda í PISA verið á hraðri niðurleið. Lesskilningur hefur versnað um 5%, 5,3% í stærðfræði frá 2003 og 3,6% í náttúrufræði frá 2006. Þó svo að prófin séu ekki gallalaus, gefa þau ákveðna vísbendingu um þróun menntunar. Þangað til að annar mælikvarði á samkeppnishæfni skólakerfisins kemur fram ber að taka niðurstöðurnar alvarlega.
Skólarnir hafa á móti bent á að það er ýmislegt sem PISA mæli ekki, svo sem vellíðan barna, að samanburður milli málsvæða sé erfiður og vegna fólksfjölda á Íslandi geti skekkjan verið mikil. Þó fer lítið fyrir rannsóknum sem gefa til kynna að íslenskum börnum líði betur í skólanum en krökkum í OECD og samræmi virðist vera í slöku gengi okkar á milli ára. Því er fátt sem bendir til betra ástands hér á landi en það sem PISA rannsóknin gefur til kynna.
Nýlega var framhaldsskólinn styttur úr fjórum árum í þrjú til að íslenskir nemendur ljúki hefðbundinni skólagöngu á svipuðum tíma og jafnaldrar þeirra í OECD. Útfærsla styttingarinnar var harðlega gagnrýnd enda var mikilvægum tíma á menntaskólaárunum fórnað. Menntun í skólastofnunum sem gera meiri kröfur en grunnskólinn var skorin niður ásamt tækifærum til persónulegrar þróunar og félagslegs þroska. Svo virðist sem styttingin hafi skert nám íslenskra námsmanna í stað þess að auka skilvirkni skólakerfisins sem er þó brýn þörf á.
Stytting náms var þó eðlilegt skref í því samhengi að lítil ástæða fyrir íslensk ungmenni að verja meiri tíma í menntun en ungmenni annarra landa. En það hefði verið mun skynsamlegra að stytta grunnskólagönguna með það fyrir augum að auka skilvirkni án þess að það komi niður á heildarmenntun. Stefna að því að skila nemendum betur eða jafn vel undirbúnum í fjögurra ára menntaskólanám en einu ári fyrr.
PISA könnunin er nefnilega vísbending um að eitthvað vanti upp á menntun krakka á 15 til 16 ára aldri. Því er full ástæða til að skoða að flýta fyrir grunnhæfni í stærðfræði, náttúrufræði og lestri á fyrri stigum. Hugsanlega mætti nýta tímann í skólanum betur.
Því vaknar upp sú augljósa spurning: Af hverju var ekki grunnskólinn styttur í stað framhaldsskólans? Af hverju var nám á yngri stigum ekki fært nær því sem gengur og gerist annars staðar í heiminum og tryggt að nemendur hafi nægan tíma í framhaldsskóla til að læra að beita þeirri grunnþekkingu?
- Nýr 100 ára Selfoss - 20. júlí 2021
- Íslensk sumarnótt - 7. júlí 2021
- Skýrar línur í bankasölu - 24. júní 2021