Manchester United sekkur

Um daginn var ég stödd í vinsælu bakaríi með börnunum mínum tveimur á sunnudagsmorgni. Að vanda var fullt út úr dyrum og við fengum síðasta lausa borðið og settumst þar niður. Á meðan ég reif niður rúnstykki fyrir þau að dýfa ofan í smurost (eina leiðin!) bryddaði ég upp á samtali við sex ára gamlan son minn um nýhafna skólagöngu hans.

Til þess að losna frá enn einni ræðunni minni um hversu mikilvæg menntun er og þá sérstaklega það markmið að vera klárari en klárustu bekkjarsysturnar, spurði sonur minn fljótlega að því hvert leiðin lægi eftir grunnskólann; hvað tæki við þegar Foldaskóli kláraðist. Syni mínum liggur hátt rómur og reyndar dóttur minni líka ef út í það er farið – sjaldan fellur eplið og allt það.

Það fylgdust því fljótlega margir bakarísgestir með framgangi samtalsins enda fátt annað fyrir þá að gera í langri röðinni að afgreiðsluborðinu. Ég svaraði syni mínum því að þá gæti hann t.d. valið að fara í menntaskóla. Við pabbi hans hefðum bæði valið að fara í Verzlunarskólann, þar hefðum við kynnst og orðið kærustupar. Viðbrögð sonar míns við þessum upplýsingum náðu til allflestra viðstaddra.

„En mamma þið eruð ekki lengur kærustupar.“

„Nei ástin mín, núna erum við hjón.“

„Nei mamma þið eruð ekki lengur kærustupar því þú ert alltaf fýlupúki við pabba því hann gerir ekki neitt.“

Ok.

Ég hef minnt mig á það margsinnis og lofað sjálfri mér því að vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín. Þau eru svo ótrúlega eftirtektarsöm og gjörn á að spegla okkur foreldrana í eigin hegðun. Ekki að það þurfi mikla eftirtektarsemi til að meðtaka skapstyggðina í mér og það hversu oft eiginmaður minn liggur undir ásökunum um að vera seinn til þess að taka til hendinni. Þegar ég síðan fylgist með dramatískum fýluköstum þriggja ára dóttur minnar og þegar hún raðar upp dúkkum og böngsum og les þeim pistilinn, er ég minnt á að börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Mamma er síðan dugleg að skjóta því að mér að í þessu viðfangsefni felist ákveðið karma, hafandi alið mig upp.

Í vikunni sem nú líður var ég enn einu sinni minnt á það hversu sterkir áhrifavaldar foreldrar eru í lífum barna. Sonur minn sagði þá (stundarhátt auðvitað) við matarborðið: „Manchester United sekkur.“ Pabbi hans var fljótur að taka undir það, Manchester United sökkaði og greindi frá því að Liverpool og Manchester United myndu eigast við um komandi helgi.

Hugur minn leitaði þá að vísu fyrst á vinnustaðinn minn þar sem samstarfsfélagar mínir hafa flutt skrifstofur sínar tímabundið milli hæða eftir slíkar viðureignir. Ég verð í það minnsta tilbúin til sáttamiðlunar á mánudaginn.

Og vonandi sekkur Manchester United á sunnudaginn.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.