Lífið er lotterí

Lífið er lotterí, og ég tek þátt í því, sagði manngarmurinn hann Geiri og það er ekki bara hollt og gott, heldur beinlínis lífsnauðsynlegt að rifja þá speki upp annað veifið.

Það er hægt að ímynda sér áhættuminni staði – í jarðfræðilegum skilningi – á yfirborði jarðskorpunnar en Ísland. Og það er hægt að ímynda sér áhættuminni staði – í sama skilningi – en beinlínis ofan á flekamótunum sem kljúfa landið svo að segja í tvennt, ofan á möttulstróki sem stígur djúpt úr iðjum jarðar.

Hreyfingar á þessum flekaskilum hafa undanfarna daga skyggt á fréttir um að ýmist einn eða enginn hafi greinst með kórónuveiruna hér á landi þáliðinn sólarhring. Þótt jarðhræringar séu aldrei sérstakt fagnaðarefni þá hafa þær hrist hressilega upp í þeim hyldjúpa hamfarahugsunarhætti sem heltekið hefur íslenska þjóðarsál á veirutímanum undanfarið ár.

Til allrar mildi virðast vísindamenn á einu máli um að ekki séu miklar líkur á hamförum með tilheyrandi eyðileggingu og manntjóni í þeim hræringum sem nú standa yfir á Reykjanesi. Hins vegar hefur enginn vísindamaður útilokað neitt í þeim efnum og ef sjálfskipaðir faraldsfræðingar kæmust í návígi við þá mætti eflaust búa til krassandi fyrirsagnir og vekja ótta í þjóðarsálinni.

Við eigum tilveru okkar á þessu landi því að þakka að kynslóðirnar á undan okkur höfðu burði til að vega og meta áhættu sem hlutfall af ávinningi. Útgerð hefði til að mynda lagst af við Íslandsstrendur á fyrst ári ef menn hefðu kyrrsett alla báta þar til búið væri að tryggja að ekkert gæti komið fyrir. Jafnvel í dag eru þeir sjómenn sem hverju sinni leggja úr höfn í umtalsvert meiri áhættu að týna lífi en fólk sem dytti það í hug á morgun að æða um allan bæ grímulaust í óhóflegu návígi við bláókunnuga.

Lífið er lotterí, og ég tek þátt í því, sagði manngarmurinn hann Geiri og það er ekki bara hollt og gott, heldur beinlínis lífsnauðsynlegt að rifja þá speki upp annað veifið.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.