Markmiðið hlýtur að vera traust og sátt

Í byrjun árs voru gerðar breytingar á framkvæmd skimanafyrir brjósta- og leghálskrabbameinum í kjölfar þess að heilbrigðisráðherra ákvað að breyta skipulagi, stjórn og framkvæmd skimunar. Fréttirnar komu flestum í opna skjöldu. Viðbrögðin við þessum breytingum báru strax með sér að tíðindin vöktu upp kvíða og ugg

Í byrjun árs voru gerðar breytingar á framkvæmd skimanafyrir brjósta- og leghálskrabbameinum í kjölfar þess að heilbrigðisráðherra ákvað að breyta skipulagi, stjórn og framkvæmd skimunar. Fréttirnar komu flestum í opna skjöldu. Viðbrögðin við þessum breytingum báru strax með sér að tíðindin vöktu upp kvíða og ugg. Eðlilega vil ég leyfa mér að segja, enda eru miklir hagsmunir í húfi. Skimun fyrir þessum krabbameinum varðar heilsu og líf kvenna og mikilvægt er að traust ríki í garð heilbrigðiskerfisins og sátt sé um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu.

Skimun fyrir krabbameinum í brjóstum og leghálsi er mikilvæg forvörn sem býðst einkennalausum konum og ég held að það sé óhætt að segja að konur og allur almenningurséu þakklát fyrir hana. Strax af þessari ástæðu er það grundvallarskylda stjórnvalda að útskýra forsendur að baki breytingum sem þessum en verulega hefur skort á upplýsingar um forsendur og röksemdir. Eðlileg spurning í þessu sambandi er til dæmis hvort heilsugæslan hefur bolmagn til þess að bæta þessum verkefnum við sig? Heilsugæslan er þá þegar mjög verkefnum hlaðin. Og hvers vegna þykir betra að semja við erlenda rannsóknarstofu um greiningu sýna? Þung gagnrýni heyrist frá læknum um ýmsa þætti þessara breytinga. Læknafélag Íslands hefur ályktað að með því að flytja úr landi rannsóknarhluta krabbameinsleitar í leghálsi séu mikilvæg sérhæfð störf lögð niður og flutt úr landi. Undir þetta hafaFélag íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna, landlæknir, Félag íslenskra rannsóknarlækna og meirihluti fagráðs um skimun fyrir leghálskrabbameini tekið. Þessari gagnrýni hefur ekki nema að litlu leyti verið svarað.

Samtal við almenning verður líka að fá að eiga sér stað. Þetta mál stendur okkur öllum nærri, snertir víða sára taug og getur ekki átt sér stað með þessum hætti að breyting sé kynnt án nokkurs samtals. Eftir að hafa fylgst með gagnrýni sérfræðinga lagði ég þess vegna fram beiðni á Alþingi um að heilbrigðisráðherra láti vinna skýrslu fyrir Alþingi um forsendur og áhrif breytinga á skipulagi skimunar fyrir krabbameini í leghálsi. Skýrslan verði unnin af óháðum aðila. 

Markmiðið með skýrslubeiðni er að stuðla að því forsendur skapist fyrir því að efla traust kvenna og alls almennings til kerfisins. Margar konur hafa áhyggjur af því hvað þessar breytingar þýða og á þær raddir þarf að hlusta. Rýna þarf forsendur að baki þeirri ákvörðun heilbrigðisráðherra að semja við erlenda rannsóknarstofu  um að sinna greiningum á sýnum sem og samráð heilbrigðisráðuneytis við sérfræðinga áður en ákveðið var að flytja vinnunna til Danmerkur. Spurningar sem þarf að leita svara við eru til dæmis hver áhrif flutningsins er á öryggi skimunar, m.a. vegna aðgengis, flutninga og samskipta milli landa. Mikilvægt er að upplýsa hvort kostnaðarrök voru að baki þessari ákvörðun eða hvort hærri kostnaður hlýst af. Einnig skiptir máli að kanna hver áhrif þessa flutnings geta verið á sérhæfð störf við greiningar hérlendis sem og  möguleg áhrif á aðra rannsóknar- og greiningarvinnu hérlendis.

Markmiðið hlýtur að vera að eftirlit sé eins og best verður á kosið og að fólk upplifi að svo sé. Og að traust ríki til þessarar mikilvægu þjónustu í þágu heilbrigðis kvenna.

Latest posts by Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (see all)

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar

Obba hóf að skrifa á Deigluna sumarið 2001.