Lækir lifandi vatns

Enn mikilvægara er fyrir kristið fólk að lifa eftir grunngildum kristinnar trúar. Að lifa í kærleika, umhyggju og virðingu fyrir náunganum, að vera tilbúið til að fyrirgefa.

Þegar ég útskrifaðist úr meistaranámi færði móðurafi minn mér útskriftargjöf og með gjöfinni fylgdi kort með hamingjuóskum. Neðst í kortið hafði afi svo skrifað ,,Jóh. 7. 37-38.“

Síðasta daginn, hátíðardaginn mikla, stóð Jesús þar og kallaði: „Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki. Sá sem trúir á mig,  – frá hjarta hans munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir.“

Jóh. 7. 37-38.

Af minn er trúaður maður, en hann kynntist ömmu minni í biblíuskóla í Noregi um miðbik síðustu aldar. Afi minn og amma kenndu mér að biðja bænir og við afi höfum átt ófá samtölin um trú og trúartengd málefni. Þau störfuðu innan KFUM og KFUK og fyrir Kristniboðssambandið stærstan hluta ævinnar. Á sínum yngri árum fóru þau m.a. til Kenýa til að aðstoða við kristilegt hjálparstarf þar og þau hafa komið að kristilegu starfi hérlendis á margvíslegan hátt, hvort heldur sem er við fræðslu eða húsbyggingar. Þau hafa kappkostað að vera öðrum til eftirbreytni; að hvetja aðra til kærleika og góðra verka, enda segir í Ritningunni að við verðum dæmd af breytni okkar og verkum.

Undanfarin ár hefur verið sótt að þjóðkirkjunni og beinlínis að kristinni trú hérlendis , m.a. fyrir tilstilli borgaryfirvalda. Þjóðkirkjan og þjónar hennar hafa verið gagnrýndir fyrir að taka við almannafé og fyrir að nýta það óskynsamlega. Starf presta hefur verið smættað og lítilsvirt og yfirboðarar kirkjunnar verið harðlega gagnrýndir. Kirkjan er ýmist of eða van frjálslynd og opin. Þegar slíkar væringar ganga yfir er mikilvægt fyrir okkur sem erum kristinnar trúar og styðjum kirkjuna, að láta í okkur heyra. Að taka til varna fyrir kirkjuna. Að segja frá upplifun okkar og reynslu af þjónum kirkjunnar á okkar helstu gleði- og sorgarstundum. Staðreyndin er sú að prestar fá oft alltof litlar þakkir fyrir erfiða og krefjandi þjónustu.

Enn mikilvægara er fyrir kristið fólk að lifa eftir grunngildum kristinnar trúar. Að lifa í kærleika, umhyggju og virðingu fyrir náunganum, að vera tilbúið til að fyrirgefa. Við erum lánsöm að búa í þjóðfélagi þar sem þessi kristnu gildi eru samofin menningunni og þar sem ekki hefur orðið bakslag, líkt og í sumum nágrannaríkjum okkar. ,,Dyggustu stuðningsmenn kirkjunnar“ ættu að hafa þessi kristnu gildi að leiðarljósi í verki fremur en orði. Þeir ættu sömuleiðis að fagna því hvernig íslenska þjóðkirkjan hefur þróast með samfélaginu okkar sem er umburðarlynt og frjálslynt.

„Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.“

(1Kor. 13. 1-2).

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.