Pacta sunt servanda

Ef framleiðendur bóluefnanna telja að það sé forsvaranlegt og gagnlegt að hefja allsherjarbólusetningar á Íslandi mjög fljótt þá væri það enn eitt lánið sem leikið hefur við okkur Íslendinga í þessum erfiða faraldri. Við vonum öll það besta. Ef ekki, þá verðum við að treysta því að við njótum samt góðs af því að aðrir samningsaðilar virði leikreglur alþjóðlegrar samvinnu og viðskipta.

Hvernig svo sem mun ganga að framleiða bóluefni gegn covid-19 í heiminum á næstu misserum þá er ljóst að hægt verður að selja alla framleiðsluna. Ekki nóg með það. Ef hefðbundin skólabókarhagfræði fengi að ráða þá væri hægt að selja bóluefnaskammta á nánast hvaða verði sem er.

Vill einhver kaupa skammt á fimm milljónir? Já—ekki er nokkur vafi á því að hægt er að selja milljónir skammta á fimm milljónir. Og milljónir til viðbótar er hægt að selja á eina milljón eða nokkur hundruð þúsund. Að selja bóluefni gegn covid-19 er eins og að selja vatn í eyðimörk.

Í hagfræðibókum er það vitaskuld þannig að sá sem mest getur borgað fær að kaupa vatnið í eyðimörkinni. En auðvitað myndi það aldrei skipta máli í eyðimörkinni hversu mikinn pening maður hefur á sér.

Þegar kemur að sölu á vatni í eyðimörk þá er það nefnilega þannig að ef þörfin er meiri en framboðið, að hefðbundin lögmál viðskiptalífs hyrfu fljótt út í veður og vind. Ef einn maður á vatn og tveir vilja kaupa, en annar þeirra er með byssu, þá er það sá með byssuna sem fær vatnið en ekki sá sem er með peningana.

Á hættutímum þar sem upplausn ríkir í heiminum, eins og við höfum fengið smjörþef af síðustu misseri, skýtur sú hugsun sér hratt niður og víða að Guðs miskunn kunni að vera það fyrsta sem deyi í hallæri—og hvað þá með alþjóðlega samstöðu og Evrópusambandið?! Enda hafa margvíslegir brestir komið í ljós í alþjóðlegu samstarfi og stjórnmálafólk hefur víða um lönd komist nálægt því að láta glitta í vígtennurnar gagnvart hvert öðru. En þrátt fyrir alla þessa bresti þá virðist miklu líklegra í augnablikinu að alþjóðleg samvinna og alþjóðleg tengsl muni hafa sannað gildi sitt sem aldrei fyrr.

Í erfiðu veðri og á torfærri leið er ekki raunhæft markmið að komast óhruflaður, flekklaus og þurr á leiðarenda. Það er einmitt við erfiðar aðstæður sem reynir á undirbúninginn. Og þá reynir líka á útbúnaðinn. Honum er ætlað að geta þolað skemmdir, álag og áföll. Það sama gildir um alþjóðasamvinnuna og virðingu fyrir alþjóðalögum—það skiptir máli hvort það dugir, en ekki hvort það komist á leiðarenda án fyrirhafnar eða tímabundins tjóns.

Nú þegar heimsbyggðin horfir upp á kapphlaup um bólusetningu er skiljanlegt að upp komi metingur um hvar gangi hraðast og best. Alls staðar er fólk óþolinmótt og vill heimta aftur sitt gamla lífa og heimtar jafnvel að fá að olnbogast framfyrir allar raðir til þess að geta hætt að hafa áhyggjur af eigin heilsufari. Þetta er ósköp eðlileg tilfinning. Við viljum öll svo sannarlega losna sem fyrst út úr þessu ástandi. Og margir eru hræddir, um sig sjálfa og þá sem þeim þykir vænst um. En jafnvel þótt hægt sé að hafa aljgöra samúð með eðlilegum tilfinningum fólks þá geta þær ekki stjórnað ferðinni. Allar þær tilfinningar sem við upplifum hér á landi, pirringurinn, óttinn og heimtufrekjan sem við reynum að bæla niður, er nokkuð sem nánast hvert einasta mannsbarn í öllu heiminum á sameiginlegt um þessar mundir. Fyrir hvern þann á Íslandi sem finnst að hann eigi að fara framar í bólusetningaröðina af því hann langar svo mikið til þess, eru þúsundir og milljónir manna annars staðar í heiminum sem telja sig hafa nákvæmlega sama tilkall til slíkrar sérmeðferðar.

Hagsmunir Íslands eru þeir að samningar haldi. Við njótum góðs af því að vera með í að panta gríðarlegt magt bóluefna í gegnum samstarf þar sem ákveðið var að veðja á marga hesta og gera fjölmörgum lyfjafyrirtækjum kleift að keppast um að koma þessum lífselixír í dreifingu. Það er ákaflega þakkarvert að svo virðist sem takast muni að koma mörgum hagkerfum heims aftur í gang á næstu mánuðum—þar er Ísland svo sannarlega framarlega í röðinni. Nánar tiltekið erum við á nákvæmlega sama stað í röðinni og hin Norðurlöndin og öll hin forríku lönd Evrópusambandsins.

Að minnsta kosti ef samningar halda.

Ef framleiðendur bóluefnanna telja að það sé forsvaranlegt og gagnlegt að hefja allsherjarbólusetningar á Íslandi mjög fljótt þá væri það enn eitt lánið sem leikið hefur við okkur Íslendinga í þessum erfiða faraldri. Við vonum öll það besta. Ef ekki, þá verðum við að treysta því að við njótum samt góðs af því að aðrir samningsaðilar virði leikreglur alþjóðlegrar samvinnu og viðskipta. Það er okkar stærsta von og vissa.

Og ekki er víst að fólki í öðrum löndum þætti rétt að sjá af miklu magni bóluefna til þess að gefa broddborgurum á Íslandi færi á að fara fyrr á menningarviðburði, meðan það býr sjálft við útgöngubönn og yfirkeyrð sjúkrahús. Og í því ljósi hefðu ekki endilega verið þægilegar fréttir frá stórveldum á borð við Þýskaland, Frakkland og Bretland—sem búa yfir framleiðslugetu á bóluefnum og að auki umtalsverðum herstyrk—ef þjóðarleiðtogar þessara landa héldu fram þeim málflutningi að þau ættu að beita öllum sínum mætti til þess að tryggja sínum eigin þjóðum bóluefnin á undan öðrum.

Þá er hætt við því að viðskiptin með bóluefni fari fljótlega að líkjast kaupum á vatninu, nema gjaldmiðillinn yrði líklega ekki sá sem við Íslendingar eigum mikið af.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.