Kaupmaðurinn á horninu

Þegar ég var að alast upp á Skaganum á níunda áratugnum þá kenndi ýmissa grasa í smásöluverslun. Kaupfélagið var auðvitað á sínum stað á Kirkjubrautinni og Sláturfélagið rak verslun á Vesturgötu. Í Kaupfélagið var ekki farið nema í ítrustu neyð en oftar var maður sendur í Sláturfélagið. Ég man nú ekki hvort vöruúrvalið var mjög frábrugðið í þessum búðum en eflaust hefur það verið fábrotnara en nú tíðkast.

Skagaver var sett á laggirnar nokkru síðar og stóð á mörkum efri og neðri Skaga, á stóru túni, ekki langt frá þeim stað sem nú er að finna bæjarskrifstofuna, en í þá daga var bæjarskrifstofan vitaskuld á neðri Skaganum, þar sem hjarta bæjarins sló – og ætti auðvitað ennþá að slá ef réttilega hefði verið haldið á málum.

Einar Ólafsson rak síðan samnefnda verslun sína á Skagabraut og þar áttum við meiri viðskipti, einkum þegar fram í sótti. Einar var kaupmaðurinn á horninu þótt verslunin stæði alls ekki á horninu okkar eða nokkru horni yfir höfuð. Kaupmaðurinn á horninu var vitaskuld í góðum tengslum við sína viðskiptavini, sérpantaði alls kyns vörur ef því var að skipta, seldi fisk frá trilluköllunum en landbúnaðarafurðir þurftu auðvitað að fara í gegnum hið súrelíska íslenska landbúnaðarkerfi sem sett var upp til að halda bændum í ánauð og neytendum óánægðum.

Þegar samkeppnin við stórmarkaði harðnaði brá Einar á þá ráð að panta sjálfur alls kyns vörur frá útlöndum í stað þess að fara í gegnum birgja hér á landi, sem þá voru að verða ofurseldir magninnkaupum stórmarkaðanna. Þetta leiddi til þess að maður fékk að neyta alls kyns skrýtinna drykkja og annarrar neysluvöru, til dæmis frá Danmörku, sem ég man ekki eftir að hafa séð síðar.

Eftir því sem ég best veit þá er verslunarrekstur Einars Ólafssonar enn í blóma og hann hefur staðið af sér samkeppni við útibú stórmarkaðanna, svona svipað og Melabúðin hefur gert í Vesturbænum. Hinir eru þó fleiri kaupmennirnir sem halloka hafa farið og eftirsjá er að.

Það gleymist stundum að verslun er ekki bara sala og kaup á vörum og tengdri þjónustu heldur er hún hluti af menningu hvers samfélags. Það er engin goðgá vitaskuld að versla í stórmörkuðum og þeir eiga sinn þátt í því að verðlag hér er þó rétt sunnan megin við sturlað. En kaupmaðurinn á horninu hefur hlutfallslega yfirburði á ákveðnum sviðum og þess vegna mun hann, og verður, að lifa af.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.