Agnes og Friðrik

Ríkisstjórn Bandaríkjanna stóð í dag að fyrstu aftökunni á sínum vegum síðan árið 2003 þegar Daniel Lewis Lee var tekinn af lífi með eitri sem sprautað var í æðar hans. Daniel þessi hafði beðið dauðans hálfa ævina í kjölfar dómsniðurstöðu þar að lútandi árið 1997 þegar hann var dæmdur til dauða fyrir morð á þremur manneskjum.

En Daniel Lewis Lee var ekki einn Bandaríkjamanna um það að bíða þess innilokaður í hámarksfangelsi að vera tekinn af lífi í nafni laganna. Samkvæmt Death Penalty Information Center voru um síðustu áramót 2.620 manns á dauðaganginum svokallaða í bandarískum fangelsum, tveir af hverjum fimm hvítir og tveir af hverjum fimm svartir.

Til þessa dags hafa 1.520 manns verið teknir af lífi í Bandaríkjunum frá því að dauðarefsingar voru teknar upp að nýju árið 1976. Langsamlega flestir höfðu verið teknir af lífi yfirvöldum í einstökum ríkjum, aðeins þrír af alríkisstjórninni, eins og raunin var með Daniel Lewis Lee. Fyrir hann breytti það litlu í sjálfu sér, eins og gefur að skilja. Af þeim sem teknir hafa verið af lífi á framangreindu tímabili voru 56% hvítir, 36% svartir og hlutfall annarra kynþátta var lægra. Verulegur kynjahalli er á dauðarefsingum í Bandaríkjunum en af þessum 1.520 föngum sem teknir hafa verið af lífi síðan 1976 eru 16 konur.

Dauðarefsingum er óvíða beitt í lýðræðisríkjum og langt er um liðið frá síðustu aftökunni hér á landi sem fór fram á Vatnsdalshólum í Húnavatnssýslu 12. janúar 1830. Þá voru tekin af lífi Agnes Magnúsdóttir vinnukonu á Illugastöðum og Friðrik Sigurðsson bóndasonur frá Katadal. Þau höfðu verið dæmd til dauða fyrir að myrða Nathan Ketilsson bónda á Illugastöðum og Pétur Jónsson frá Geitaskarði. Voru þau skötuhjúin hálshöggvin af bróður Nathans að viðstöddum bændum úr sveitinni ásamt presti, sýslumanni og öðrum mikilvægum mönnum.

Ísland er í dag í hópi þeirra ríkja sem hvetja önnur ríki til þess að láta af dauðarefsingum. Þeirri afstöðu ræður fyrst og fremst virðing fyrir mannhelgi og sú grundvallarafstaða að ríkisvaldið sé þess ekki umkomið að svipta einstaklinga lífi. Það er vonandi að þeirra Agnesar og Friðriks verði um ókomna tíð minnst fyrir það að vera síðasta fólkið á Íslandi til að vera tekið af lífi.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.