Í kvöld gefst íslenskum sjónvarpsáhorfendum tækifæri til að berja hið nafntogaða lið Stoke City augum í fyrsta sinn síðan íslenskir fjárfestar eignuðust meirihluta í félaginu. Stoke mætir þá Preston North End, sem Bjarki Gunnlaugsson leikur með, og verður leikurinn sýndur beint á Sýn. Hlutafjárútboð Kaupþings á bréfum í Stoke Holding síðustu daga setur leikinn í kvöld einnig í skemmtilegt samhengi. Nýbakaðir fjárfestar geta þá séð hvort þeir hafa keypt köttinn í sekknum.
Það olli Deiglunni nokkrum vonbrigðum hve lágmarkshlutur í útboði Kaupþings var hár, 150 þúsund krónur er tilfinnanleg fjárfesting fyrir meðaljóninn. Fyrirfram hefði mátt halda að skynsamlegast væri að bjóða minni hluti, eins og í útboði KR-Sport, þar sem aðalatriði væri hjá flestum að vera með, en ekki endilega að hætta miklum fjármunum í mikilli ágóðavon. En útboðið virðist ætla að ganga vonum framar og lýsir það í senn eðlislægri bjartsýni Íslendinga og tröllatrú landans á getu Guðjóns Þórðarsonar sem knattspyrnuþjálfara.
En áhættan er mikil og samkvæmt því sem Deiglan kemst næst stendur Stoke toppliðum 2. deildar töluvert að baki um þessar mundir, getulega séð. Benda má á, að þau lið sem farið hafa hratt upp um deildir á Englandi, hafa gert það í krafti gífurlegra fjármuna. Gott dæmi um það er Fulham, sem Kevin Keegan stýrði upp í 1. deild, en viðskiptajöfurinn Muhammed al-Fayed hreinlega jós peningum inn í félagið til uppbyggingar og leikmannakaupa. Fyrirheit íslensku fjárfestanna um fjármuni til leikmannakaupa og uppbyggingu æfingasvæðis Stoke eru brandari í samanburði við ofangreint dæmi.
- Rétta leiðin er aldrei auðveld - 3. febrúar 2023
- Foreldramótin - 10. júlí 2021
- Veiði eða della - 30. júní 2021