Efnahagshamfarir yfirvofandi?

Fátt brennur heitar á vörum landans þessi dægrin en sú spurning, hvort allt sé að fara fjandans til efnahagslega – hvort góðærið sé búið og krepputímar framundan. Þeir sem aðhyllast þessa skoðun benda gjarnan á að viðskiptahallinn sé hár og verðbólga mælist allt að 5,8% á ársgrundvelli. Aðrir benda gjarnan á að þessi hækkandi verðbólga, eins óviðunandi og hún er, sé hefðbundinn fylgifiskur mikilla efnahagsframfara.

Fátt brennur heitar á vörum landans þessi dægrin en sú spurning, hvort allt sé að fara fjandans til efnahagslega – hvort góðærið sé búið og krepputímar framundan. Þeir sem aðhyllast þessa skoðun benda gjarnan á að viðskiptahallinn sé hár og verðbólga mælist allt að 5,8% á ársgrundvelli. Aðrir benda gjarnan á að þessi hækkandi verðbólga, eins óviðunandi og hún er, sé hefðbundinn fylgifiskur mikilla efnahagsframfara.

Lægsti samnefnari á ofangreind sjónarmið er að efnahagsástandið sé viðkvæmt og ákveðin hættumerki séu fyrir hendi, allir virðast sammála um það en þá greinir um hversu viðsjárvert ástandið er. Í þessu samhengi verður að hafa í huga að kjarasamningar eru á næstu grösum og er það lenska hér að í aðdraganda þeirra upphefjast grátkórar í öllum hornum. Það er hins vegar til marks um þá hugarfarsbreytingu, sem orðið hefur síðastliðinn áratug, að nær allir aðilar samninganna tala um nauðsyn þess, að ríkið dragi saman seglin. Aðilar munu þá væntanlega frábiðja sér í lengstu lög að ríkisvaldið komi að kjarasamningum með nokkrum hætti.

En það sem kannski er furðulegast í þessu öllu er sú staðreynd, að þrátt fyrir öll hættumerkin, vaxtahækkun Seðlabankans og bölsýnisspár „virtustu“ sérfræðinga, hækkar úrvalsvísitala hlutabréf stöðugt um þessar mundir og nær nýjum hæðum svo að segja daglega. Varla bendir það til mikils ótta um efnahagshamfarir? Gæti ekki verið að lausn núverandi „efnahagsvanda“ sé innbyggð í vandamálið sjálft?

Vandamálið er í raun gífurlegar efnahagsframfarir, miklar lántökur samfara aukinni bjartsýni og ónógur sparnaður fólks. En í efnahagsbrjálæði síðustu ára hefur átt sér stað umbylting á efnahagslífinu. Það er nú frjálsara og fjölbreyttara en nokkru sinni fyrr og betur í stakk búið að mæta skammtímaerfiðleikum. Ekki eru mörg ár síðan efnahagslífið var niðurnjörvað og fábreytt og í því umhverfi hefðu hættumerkin, sem nú sjást á lofti, án efa verið skýr undanfari kreppuástands.

Það sem stjórnvöld verða umfram allt að forðast er að láta ekki undan æ háværari kröfum um einhvers konar sértækar aðgerðir, neyðaráætlun, aðgerðaplan og hvað þetta nú heitir allt saman. Fyrstu skref í slíka átt yrðu upphafið að þrautagöngu efnahagslífsins. Því þótt skútan velti eitthvað í mestu ágjöfunum er ekki rétt að grípa til örvæntingarfullra aðgerða. Sé rétt lestað og stöðugleiki til staðar, mun skútan komast í gegnum ágjöfina, ef hún heldur sama stími af festu.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.