Íþróttir efla alla dáð

Íþróttir skipa veigamikinn sess í tilveru margra en gildi þeirra fyrir mannlegt samfélag er engu að síður verulega vanmetið. Sannleikurinn býr í úrslitum kappleikja og frammistaða einstaklinga og liða er í flestum tilvikum metinn á hlutlægan mælikvarða. Það er mikilvæg og góð tilbreyting frá flestum öðrum sviðum mannlífsins þar sem sannleikurinn byggir á upplifun hvers og eins.

Auðvitað finnst sumum nóg um endalausa umfjöllun um íþróttir og áhugi margra er auðvitað ekkert annað en klínísk þráhyggja. Kona sem ég þekki skilur til dæmis ekkert í því af hverju er verið að tala um leikinn endalaust fyrirfram, á meðan á honum stendur og svo kannski í marga daga á eftir. Undir þetta má taka, að einhverju leyti.

En það er einmitt hluttekningin sem skipar svo stóran sess í þessu öllu saman. Að láta sig það varða hver úrslit leiksins eru, að upplifa sigur og taka ósigri, eða ekki.

Nú til dags hafa allir skoðun á öllu og allar skoðanir eru auðvitað studdar tilvísun til alls konar upplýsinga sem finna má með fingursmelli. Megnið af þessu er fullkomið kjaftæði og raunveruleg skoðanaskipti sem til gagns eru, að ég tali nú ekki um til gamans, týnast í aurnum og eðjunni sem flæðir um allt.

Það er skrýtið að fylgjast með íþróttum núna. Allt er sveipað einhvers konar dulu, eins og það sé þarna en samt ekki. Það sem vantar er auðvitað hin áþreifanlega hluttekning áhorfenda, stuðningsmanna.

Það er eitthvað svo satt og raunverulegt við ástríðuna sem fylgir íþróttunum.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.