Aldnir hafa orðið

Forsetakosningar verða haldnar í Bandaríkjunum fyrsta þriðjudag í nóvember á hausti komandi. Það hefur í það minnsta ekki annað verið ákveðið og verður vonandi ekki, því grímulaust lýðræðið á alltaf að vera í forgangi. Þótt framboðsfrestur sé ekki runninn út má slá því föstu að tveir frambjóðendur muni bítast um sigurinn, um atkvæði þeirra kjörmanna sem ráða því hver verður forseti.

Þeim lesendum Deiglunnar sem ekki vita hverjir þessir frambjóðendur eru bent á að víða á netinu má finna efni sem eflaust er meira við þeirra hæfi en það sem hér er birt.

Þeir Donald Trump og Joe Biden eru báðir meðal elstu manna sem boðið hafa sig fram til þessa embættis. Sá fyrrnefndi er 74 ára og sá síðarnefndi verður 78 ára skömmu eftir að atkvæði hafa verið talin og endurtalin. Það vill svo skemmtilega til að lífslíkur bandarískra karlmanna eru að meðaltali einmitt 78 ár. Til samanburðar má nefna að forseti Íslands er 52 ára og forsætisráðherrann okkar er 42 ára og eru lífslíkur hér á landi þó hærri en í Bandaríkjunum.

Það er því ekki að undra að helstu vangaveltur um framvindu kosningabaráttunnar vestan hafs snúist að mestu um hvor þessara öldunga þoli álagið betur. Það er þó ekki í fyrsta sinn sem aldur forsetaefnis verður að bitbeini í kosningabaráttu þar í landi. Árið 1984 atti Walter Mondale frambjóðandi demókrata að kappi við sitjandi forseta Ronald Regagan sem þá var 73 ára en Mondale var þá 56 ára og þrautreyndur stjórnmálamaður.

Í kappræðum forsetaefnanna var Reagan spurður að því hvort hann teldi að aldur hans og mögulegt heilsuleysi gætu hindrað hann í störfum. Reagan var augljóslega viðbúin spurningunni og fór með línuna óaðfinnanlega:

I will not make age an issue of this campaign. I am not going to exploit, for political purposes, my opponent’s youth and inexperience

Erfitt er að spá um framvindu kosningabaráttunnar sem nú er hafin. Þó virðist mega slá því föstu að ekkert af því sem öldungarnir nú munu segja mun komast í hálfkvisti við þetta tilsvar Reagans.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.