Í kvöld er gigg

Það sem erlendis hefur kallast gig-economy mun skella á Íslandi af mikilli hörku í vetur. Íslenskur atvinnumarkaður er því að breytast varanlega.

Það hefðu ekki margir giskað á það fyrir ári síðan að þeir ættu á næstunni eftir að leita á netinu að skemmtilegum bakrunnsmyndum fyrir fjarfundi. Þetta hafa þeir eflaust reynt sem eru djúpt sokknir í slíka fundi. Það er nefnilega ýmislegt öðruvísi en fyrir ári síðan. Kórónukófið á sér ýmsar hliðar og breytingarnar sem það mun hafa á samfélagið eru án efa verulegar.

Hárgreiðslufólk og nuddarar búa við að geta ekki veitt sína þjónustu. Slíka þjónustu er líka verulega erfitt að veita í gegnum fjarfundarbúnað. Þó sum okkar búi að því að þurfa minna á þjónustu hárgreiðslufólks að halda en aðrir er hugur okkar vissulega hjá þeim sem veita slíka þjónustu. Það eru þó ekki endilega allir súrir yfir slíkri þjónustuskerðingu.

Margir atvinnurekendur sjá færi í því að þjónustustigið lækki að einhverju marki. Eða í það minnsta að viðskiptavinir hætti að treysta á þjónustu manneskju og eigi sín samskipti við vélar og hugbúnað. Verslanir eru okkur efst í huga, enda höfum við flest þurft að eiga við óþekktan hlut á pokasvæði. Þessu fylgja auðvitað ýmsar áskoranir. Maðurinn sem sló inn PIN-númerið sitt þegar sjálfsalinn spurði hve marga poka hann vildi hefur eflaust verið óhress með viðskiptin.

Bankar hafa lengi horft til þess hvernig lækka megi rekstrarkostnað. Fækkun útibúa um allt land ber glöggt vitni um það. Tímapantanir og netspjall eru sem tónlist í eyrum bankastjóranna, sem sjá fram á verulega lækkun starfsmannakostnaðar í framlínu sinni. Við höfum þegar sparað mikinn tíma í bankaviðskiptum og fækkað handtökunum verulega. Það sem þegar er búið að gera er þó mjög lítið í samanburði við tækifærin framundan, ef svo má segja.

Nú eru að ryðja sér til rúms ýmsar tæknilausnir sem lítil fyrirtæki – sem geta verið stór á íslenskan mælikvarða – geta nýtt sér til sjálfvirkni og sparnaðar í starfsmannahaldi. Þetta mun einkenna íslenskt atvinnulíf næstu misserin. Þegar rofar til úr kófinu verður nefnilega fyrsta skrefið ekki endilega að ráða aftur fólkið sem segja þurfti upp, heldur að innleiða slíka tækni til að þurfa ekki að fjölga fólki.

Þetta ásamt aukinni teymisvinnu, sem kallar á meiri sérfræðiþekkingu, verður til þess að sú þróun sem orðið hefur á vinnumarkaði undanfarin ár tekur heljarstökk á næstu misserum. Auðveldari innleiðing tæknilausna mun valda enn hraðari breytingum á Íslandi.

Verktaka á almennum vinnumarkaði mun stórkaukast og þörfin á sérfræðiþekkingu mun aukast. Það á ekki bara við um sérfræðiþekkingu á sviði tækni, heldur dýpri þekkingu í mismunandi geirum. Það sem erlendis hefur kallast gig-economy mun skella á Íslandi af mikilli hörku í vetur. Íslenskur atvinnumarkaður er því að breytast varanlega.

Það verður áhugavert að sjá hvernig verkalýðsfélög og hið opinbera mun bregðast við þessum breytingum. Meðal fyrstu merkja um þetta á markanum er hvernig skólar og ýmiskonar námskeið, diplómur og vottanir spretta upp. Fólk fer ekki bara á jóganámskeið lengur, heldur jógakennaranámskeið.

Sumir segja að sagan endurtaki sig. Allt fari í hringi. Við höfum séð hvernig litlu brugghúsin hafa sprottið upp sem mótvægi við Budweiser og Tuborg. Handverksbakarí eiga í fullu tré við Mylluna og Bakarameistarann. Nú er að sjá hvernig einyrkjunum mun reiða af í viðskiptum við bankana.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)