Covidkvíðinn

Við erum hrædd. Þá er einmitt mikilvægt að átta sig á því að í þessu samhengi þá ber að gæta að hvað mestu aðhaldi þegar kemur að auknum valdheimildum ríkisins.

Ég man í mars þegar Covid I byrjaði. Ég var stödd í London og hugsaði um þetta ástand fyrst á Harry Potter safninu, með dætrum mínum, umkringd 500 ósprittuðum grímulausum smitberum, á meðan ég borðaði hamborgara í mötuneyti með skrýtin gleraugu. Fyrstu smitin höfðu verið greind á Íslandi og í fyrsta sinn læddist hugsunin að mér, ætti ég kannski að passa mig betur. Þannig að ég náði í handspritt og sprautaði duglega á meðan ég horfði í fyrsta sinn á fólkið í kringum mig og fannst það of nálægt.

Það sem fólst í Covid fyrir mér á þessum tíma var óskilgreindur ótti. Svartsýnasta spá í mínum huga gerði ráð fyrir allsherjar umbreytingu samfélagsins. Væntanlega upplifði ég mitt fyrsta #coronaphobia, þarna á meðal Harry Potter aðdáenda sem því miður gátu ekki töfrað þetta ástand í burtu. Þegar heim kom magnaðist þessi óskilgreindi ótti.  Ég brunaði í búðina og keypti undanrennuduft. Því ég gerði ráð fyrir mjólkurskorti, en sleppti túnfiskdósunum, þar sem ég átti enn skammt af dósamat frá því að hafa hamstrað í hruninu. Núna varð undanrennuduft og klósettpappír fyrir valinu.

Kvíði og ótti eru hluti af vopnabúri okkar til að komast af. Allir sem hafa hitt góðan sálfræðing hafa einhvern tímann heyrt að eðlilegt sé að bregaðst við ástandi sem olli ótta með „fight or flight“. Þegar óttinn er yfirvofandi þá förum við manneskjur í ákveðið ástand sem er ætlað að vernda okkur.

Ég var víst ekki ein í þessu ástandi. Í vor var farið að gera rannsóknir á Covidkvíða og hafa þær gefið til kynna að kvíðatengd einkenni hafa stórkaukist árið 2020 vegna Covid. Tölfræði frá Bandaíkjunum gefur til kynna að einn af hverjum þremur fullorðnum finna fyrir kvíða eða þunglyndi vegna Covid og hefur hlutfall þeirra sem finna fyrir neikvæðum áhrifum Covid aukist eftir því sem á líður. Það þarf ekki annað en að slá upp í leitarforritum til að sjá að um er að ræða samfélagslegt vandamál sem mun hafa langvarandi afleiðingar.

Ríkisstjórnir hafa á heimsvísu brugðist við þessum alheimsfaraldri með aðgerðum sem hafa það að markmiði að takmarka útbreiðslu faraldurins. Ég þarf ekki að kynna þær hér, enda þekkjum við flest hvaða reglur gilda um samskipti okkar á tímum Covid. Við búum við takmörkuð réttindi á grundvelli almannavarna sem stjórnvöld hafa skilgreint til þess að vernda okkur í stríðinu gegn veirunni.  

Sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hafa haft mikil áhrif á okkar daglega líf, ítök ríkisvaldsins í daglegum rekstri fyrirtækja hafa vaxið gríðarlega á skömmum tíma og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Aðgerðirnar hafa verið réttlættar með hliðsjón af því að um tímabundið ástand sé að ræða og okkar bíði eðlilegt líf handan við hornið. Þangað til er þetta nýr veruleiki.

Sumir vilja halda því fram að gengið sé of langt í aðgerðum stjórnvalda í að vernda okkur frá veirunni á meðan aðrir halda því fram að gengið sé of skammt. Samtalið um mikilvægi aðgerða og hversu langt skuli ganga er jafnmikilvægt aðgerðunum sjálfum. Í hættuástandi, líkt og meirihluti landsmanna upplifir þetta ástand, virðist það bregða við að óttinn beri rökræðuna ofurliði og ólíkar raddir fá ekki að hljóma.

Það virðist gömul regla og ný að það sé deilt um það hversu langt stjórnvöld eigi að ganga til þess að vernda okkur frá utanaðkomandi þáttum sem geta haft skaðleg áhrif á heilsu okkar. Ótti eða kvíði samfélagsþegna virðist þar ákveðinn lykilþáttur. Sögulegt samhengi gefur til kynna að stjórnvöld gangi hvað lengst þegar kemur að því að takmarka réttindi borgaranna þegar staðan er sú að borgarar finna fyrir kvíða og ótta. Ég er síðust til að gagnrýna það, en það er einmitt þá sem reynir á samskipti ríkis og borgara og að allir þættir samfélagsins séu metnir í heild þegar aðgerðir eru ákveðnar.  Það er mikilvægt í þessu samhengi að gæta þess að vald sem stjórnvöld hafa sé aðgerða sé ekki ótakmarkað. Einnig að þegar staða sem þessi sé uppi að það sé tímabundið.

Það er þó ekki alltaf þannig sem ríkisvaldið fer fram. Í slíku samhengi má vísa til viðbragða Bandaríkjamanna við stríðinu gegn hryðjuverkum, þar sem gengið var markvisst á réttindi borgaranna með það að markmiði að vernda þá fyrir ósýnilegum óvini. Stjórnvöld virðast ganga mjög langt á réttindi borgaranna þegar kemur að verndarhlutverki þeirra, sérstaklega þegar ótti ríkir í samfélaginu og stjórnmálamenn vilja umvefja þjóð sína líkt og Lovísa Ronju þegar hún var stödd í Mattíasarskógi.

Við erum hrædd. Þá er einmitt mikilvægt að átta sig á því að í þessu samhengi þá ber að gæta að hvað mestu aðhaldi þegar kemur að auknum valdheimildum ríkisins. Ákvarðanir sem teknar eru í slíku ástandi eru líklegar til þess að verða fyrir hvað minnstum aðfinnslum. Sögulega virðist sem líftími aukins valds sé yfirleitt lengri en atburðurinn sjálfur. Á meðan þetta ástand varir skulum við hvetja til málefnalegrar umræðu og leggja okkar af mörkum til þess að þessu ástandi ljúki. Þá getum við vonandi farið að ræða aftur,  alla þessa einnota plasthanska í höfunum.

Latest posts by Helga Kristín Auðunsdóttir (see all)

Helga Kristín Auðunsdóttir skrifar

Helga Kristín hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2004.