Hvítasunna 2020

Hector prins, sonur konungsins í Trjóu var í andlegu kófi þegar hann fullyrti að það yrði áreiðanlega ekkert Trjóustríð. Það stóð reyndar í tíu ár og Hector lét lífið í einvígi við hinn gríska höfðingja Akkiles. 

Það hefur löngum verið erfitt að spá um framtíðina. Þrátt fyrir öll reiknilíkön og exelskjöl. Þrátt fyrir vit og vísindamenn stöndum við á gati og vitum ekki okkar rjúkandi ráð þegar óvæntar hörmungar ríða yfir. 

Það er hægt að segja að nútíminn hafi verið í kófi í allmörg ár og látið eins og ekkert gæti raskað því ástandi. En með kórónuveikinni höfum við verið stöðvuð í æðibunugangi síðustu áratuga. Við höfum orðið að setjast niður og hugsa okkar gang. Margir velta því fyrir sér hvort það sem var sé endilega sá lífsmáti sem er æskilegur eða hvort nú sé tilefni til að nema staðar og breyta til.

Fram yfir miðja síðustu öld lagðist fólk yfirleitt ekki í ferðalög nema nauðsyn krefðist. Skemmtiferðir til fjarlægra staða voru sjaldgæfar og ekki nema á færi fárra. Það hefur sannarlega breyst og við gerum plön um utanlandsferðir og njótum þess að skemmta okkur, fræðast og njóta á ferðalögum erlendis. Það eru vissulega lífsgæði og ekki viljum við hverfa aftur til fyrri hátta. En tilefni er til að hugleiða hvort ekki megi taka með öðrum hætti á kostunum. Líta nær okkur og gleðjast og nærast af því að horfa á það smáa og fara ekki fram úr okkur.

Í dag er við hæfi að vera á guðfræðilegum nótum. Líta til baka og rifja upp söguna um leið og við horfum í kringum okkur í veröldinni í dag og lítum til framtíðar.

Þær eru þrjár stórhátíðir kirkjunnar. Það eru jólin þegar við fögnum fæðingu frelsarans. Þá er gaman og við fáum öll að vera börn og gefum og þiggjum. Og svo eru það páskarnir með boðskap lífsins og upprisunnar. Á páskunum gerum við okkur dagamun og margir fá páskaegg og málshátt til að velta vöngum yfir. Og svo er það hvítasunnan. Og þó að við séum skírð og fermd og þekkjum biblíusögurnar nokkuð vel getur það vafist fyrir okkur að segja af nokkru öryggi hvers vegna hvítasunna er ein af stórhátíðum kirkjunnar. En hvítasunnan minnir á að heilagur andi kom yfir postulana og er stofndagur kirkjunnar.

Heilagur andi er mikilvægur þáttur í trúarlífi í kristninnar. Hann sér um að upplýsa, skapa og koma góðu til leiðar í mannlífi og náttúru. Jól og páskar segja söguna en heilagur andi er gerandi og krafturinn í daglegu lífi okkar. Heilagur andi hjálpar okkur til að horfa á og lifa lífinu í gegnum Jesú helgast hjarta. Í því felst að við reynum að horfa á heiminn með hjartanu og okkur langar til að vera góðar og dugandi manneskjur Guði til dýrðar og öðrum til góðs. Heilagur andi hvetur til samstöðu, samfélags heilagra. Og hann gerir fleira. Heilagur andi styrkir von okkar á fyrirgefningu syndanna, upprisu og eilíft líf. Það er ekki lítið. En allt er þetta gjöf og okkar að þiggja.

Það eru margar þrennurnar í kristinni trú. Það eru jól, páskar og hvítasunna. Guð er faðir, sonur og heilagur andi og þess vegna er trúarjátningin í þremur greinum. Og í guðspjöldunum finnum við þrenninguna: biðjið, leitið og knýið á. Að biðja styrkir vonina um úrlausn erfiðra vandamála og hjálpar okkur til að takast á við þrengingar.  Í bæninni leitum við lausna og leiða til að halda áfram og gera okkar besta og í bæninni knýjum við á um að koma í framkvæmd  því sem leiðir til bestu niðurstöðu. Þannig virkar bænin og heilagur andi í daglegu lífi okkar. Og til að hvíla hugann er gott að hafa yfir orð Elísabetar Jökulsdóttur: Á bak við alheiminn er lítil tjörn.

Og á dögum covid-19 eignumst við þrenningu sem hefur reynst okkur frábærlega vel: Alma, Víðir og Þórólfur.

Gleðilega hátíð.

Latest posts by Sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson (see all)