Hvernig er fattið?

Við vitum öll að áhugamál eru mjög mikilvæg en svo virðist vera að áhugamál sem snúa að því að bæta sig í einhverju, komast í nýtt umhverfi, kynnast nýju fólki og mæta einhverskonar áskorunum séu alltaf vinsælust.

Um landið fer nú alveg ótrúlegt æði. Og ég kalla það ótrúlegt af því það er svo fjarri áhugasviði mínu að mér þykir það ótrúlegt. Gönguskíðaæði!  Alltaf þegar einhver segir mér að hann sé á leið vestur, á mitt heimasvæði, eða norður (sem vissulega er ekki eins góður kostur – af augljósum ástæðum), þá fara af stað hugsanir sem ég ræð ekki við.  

Þú ert að ljúga að mér. 

Þig langar ekkert til að fara á gönguskíði – þú bara þorir ekki að segja frá því.

Einhver laug því að þér að þetta væri næs! 

Þið skiljið hvert ég er að fara með þessu.

Þessar hugsanir eiga sér vissulega skýringar. Ég æfði gönguskíði í of mörg ár, keppti of oft,áhuginn var enginn. Meira að segja sagði þjálfarinn minn einu sinni við mig að ég hefði getað náð mjög góðum árangri… hefði ég haft vott af áhuga. Seinna kom svo í ljós að ég er með áreynsluasma sem sannarlega vann ekki með mér í köldu veðurfari.  

Ég hef alveg gaman af því að stökkva á skíði af og til, sjá hvort rythminn er þarna ennþá og geta rætt við einhvern um “fattið”. En ég fer strax í það að leita að brekku til að renna niður. Einu sinni. Því ekki nenni ég aftur upp.

En allavega, af hverju þessar vinsældir? 

Við vitum öll að áhugamál eru mjög mikilvæg en svo virðist vera að áhugamál sem snúa að því að bæta sig í einhverju, komast í nýtt umhverfi, kynnast nýju fólki og mæta einhverskonar áskorunum séu alltaf vinsælust.  Og ég get verið sammála því að gönguskíði ættu að geta tikkað í öll þessi box. Fólk virðist vilja námskeið, læra tæknina, átta sig á búnaðinum og gera þetta af alvöru.  Þessi fræðsla virðist öll skipta máli. 

Ég held að þetta sé eitthvað sem við mættum líta meira til, þ.e. átta okkur á því að fullorðið fólk þarf ennþá að láta reyna aðeins á sig. Ekki bara líkamlega, heldur láta líka reyna á heilann! Ótalmargt er í boði; Skella sér á skíði, syngja í kór (já, ég myndi alltaf taka það framyfir skíðin!), læra á nýtt hljóðfæri eða á ritlistarnámskeið.  

Það er holt og gott að örva heilann og þroska á öðrum stað en í vinnu og á heimilinu. Uppbyggjandi áhugamál eru vanmetinn þáttur og nú hvet ég ykkur til að finna eitthvað sem þið hafið gaman af.  Ég hef meira að segja heyrt einhverja minnast á gönguskíði… 

Latest posts by Helga Margrét Marzellíusardóttir (see all)

Helga Margrét Marzellíusardóttir skrifar

Helga Margrét hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2010.