Hvað gerðist eiginlega á Laugavegi?

Líklega er engin gata frægari á Íslandi en Laugavegurinn. Nær allir Íslendingar hafa á einhverjum tíma á sinni ævi gengið eða ekið niður Laugaveginn alla vega einu sinni og leggja við hlustir þegar heyrast raddir um skemmdarverk og eyðileggingu götunnar. Slíkar raddir eru ekki nýjar af nálinni og hafa heyrst reglulega í gegnum tíðina. En um hvað snýst málið nú? Af hverju er þessi togstreita milli kaupmanna sem vilja óbreyttan Laugaveg og annarra sem vilja loka fyrir bílaumferð?

Í Kaupmannahöfn eiga menn Strikið og í Reykjavík eiga menn Laugaveg. Líklega er þetta þannig í hugum margra Íslendinga. Og göturnar eiga sannarlega margt sameiginlegt, ekki síst að hafa verið miðstöð verslunar í hvorri borg fyrir sig hér á árum áður. Laugavegurinn var sannarlega miðstöð verslunar og þegar rýnt er í gamlar ljósmyndir má sjá allar mögulega tegundir af búðum við götuna. Fatnaður, skór, raftæki, húsgögn, bækur, gleraugu, matvara, lyf. Og neðst, í Bankastrætinu, voru bankaútibú, tryggingarfélög og að lokum Pósthúsið og Reykjavíkurapótek í Austurstræti. Allt á einum stað, ef svo má segja. Allir sem eitthvað þurftu að útrétta lögðu leið sína á Laugaveg og nágrenni. En svo er ekki lengur. Af hverju ekki?

Mjög stutt svar er: borgin stækkaði og breyttist. Og það ekkert smá. 1965 bjuggu rétt 100 þúsund manns á höfuðborgarsvæðinu – í dag um 233 þúsund. Og margt annað breyttist: almennir lífshættir, kaupmáttur, neysla og tækninýjungar. En hugmyndir manna um hvernig ætti að byggja góðar borgir breyttust mikið og stýrðu hlutunum á ákveðinn farveg sem, með öllu hinu, skilaði borg sem á lítið sammerkt með fyrirmyndum fyrri alda. Mun stærri híbýli með miklu meira plássi á milli þeirra og góðum götum og ætíð nóg af bílastæðum til að allir gætu nýtt hina eðlilegu fjárfestingarákvörðun, einkabílinn, til að fara frá A til B. Og öllum fannst þetta stórkostlegt.
En fyrir Laugaveginn hefur þetta ekki verið svo stórkostlegt. Nýja borgin bjó til meðvitaðar og reyndar ómeðvitaðar verslunarkringlur og skeifur sem voru hannaðar utan um hinn nýja lífsstíl og sogaði til sín mikið af þeirri verslun sem áður þreifst á Laugaveginum. Þetta var upp úr 1970-75, og stærsta skrefið var opnun Kringlunnar 1986. Margar verslanir fluttu alfarið eða opnuðu útibú þar. En það er annað sem gerðist líka og gerðist ekki í Kaupmannahöfn, eða eiginlega öllum öðrum borgum: þungamiðja búsetu fluttist eindregið í eina átt, frá miðbænum til austurs, ár frá ári. Er nú við Haðarland 12 i Fossvogi. Og eðli markaða er að vera nærri fólkinu. Það ýtti enn frekar við þeirri þróun að Laugavegurinn, og gamli miðbærinn í heild reyndar, glötuðu þessu fyrra hlutverki sínu. Undanfarið hafa svo tæknibreytingar gert pósthús og bankaútibú að hálf-úreltu fyrirbæri og í dag er netverslun farin að ógna allri hefðbundinni götuverslun, svo hröktir í stoðum jafnvel hinna fyrrum ósigrandi verslunamiðstöðva (búist er við að ein af fjórum verslunarmiðstöðvum í BNA hafi lokað á tímabilinu 2017 til 2022).

En þrátt fyrir þessar gríðarlega miklu breytingar stendur Laugavegurinn þó ágætlega keikur enn. Hann er bara allt öðruvísi. Hnignunin var samt ótvíræð í kringum aldamótin, þegar Kringlan upplifði líklega sitt mesta blómaskeið og önnur eins kringla opnaði í Kópavogi. En með gríðarlegri mannvirkjafjárfestingu og þungum áherslum í skipulagsmálum Reykjavíkur gagnvart miðborginni hefur, með ferðamannasprengjunni, tekist að lyfta miðbænum á allt annan stað en þá. Og við Laugaveginn hefur líka verið fjárfest gríðarlega mikið, í nýju húsnæði, nýjum íbúðum og nýju verslunarhúsnæði, þótt það hafi ekki verið af þeim mikla skala sem yfirvöld höfðu hugmyndir um í kringum 2000. Og fyrir vikið er mjög margt sem blómstrar með ágætum við Laugaveg. Mannlíf á Laugaveginum, fyrir Covid-19, var farinn að líkjast Strikinu. Því eðlilegt næsta skref, margir töldu, að Strikvæða götuna alfarið og breyta í göngugötu. En af hverju urðu sum fúl með það – og er það rétt afstaða?

Til að skilja ólíka afstöðu kaupmanna þarf líklega að rýna í bakgrunn þeirra, kúnnahóp og annað. Sá sem þetta skrifar er ekki með verslunarfræði sem sérgrein, en ætli megi ekki skipta búðum við verslunargötur eins og Laugaveginn í tvær gerðir: eina sem nærist nær alfarið af götulífinu sem á leið framhjá og aðra sem gerir það í mun minni mæli, en reiðir sig meira á að kúnninn geri sér sérstaka ferð í þá búð til að t.a.m. kaupa sér úlpu sem áður var búið að auglýsa (í dagblaði). Á ensku destination stores. Og líklega gengur ákveðin kynslóðalína þvert á þessar gerðir, þar sem sumar búðir þjóna hinni yngri rafskútu-, strætóhjólandi kynslóð og aðrar hinar eldri bílakandi kynslóðir. Fyrir síðasta hópinn gildir mannlíf litlu máli, svo fremi sem hinn akandi kúnni eigi greiða leið að sér, og helst öðrum svipuðum búðum til að ná upp góðri klasavirkni (e. retail clustering). Til að skila reiði síðarnefnda hópsins þarf að skilja að þær eru að reyna að fóta sig í nýjum veruleika, þar sem klasavirknin er orðin mun minni en hún áður var (vegna flótta verslana af svipuðum toga í Kringluna og annað) og annarra ógna sem steðja að, s.s. frá netverslun. Þær hafa því ástæðu til að óttast þegar gera á umfang bílsins minna en áður. Það er eðlilgur ótti. En óttinn er ástæðulaus, ekki síst ef þær horfa til framtíðar og vilja þróast.

Tímarnir nú eru líklega þeir erfiðustu fyrir alla hefðbundna verslun. En þróunin í dag býður einnig upp á tækifæri og getur jafnvel bætt upp fyrir það að vera ekki lengur í hringiðu hins daglega lífs borgaranna. Kófið hefur kennt okkur að staðsetning er ekki lengur forsenda alls. Allt er aðgengilegt á netinu og í netheimum skiptir minna máli hvar þú ert staðsettur með vöruna þína. Og netið er ekki töfralausn fyrir allt: fólk vill eftir sem áður gjarnan máta föt, skó og skartgripi. Vefrisar eru því t.d. farnir að útbúa sýningarrými (e. showcases) þar sem það er hægt, en öll kaup fara fram á netinu og varan kemur með pósti. Ef hinar rótgrónari verslanir á Laugaveginum vilja lifa af og þrífast til framtíðar þurfa þær að taka andlitið úr götunni og taka þátt í þessari þróun. Þær ættu að leggja áherslu á að öðlast meiri tilvist á vefnum og nota verslunarrými sín á Laugaveginum til að vera, í auknum mæli, sýningarrými fyrir vöru sína sem þeir selja (einnig) á vefnum, frekar en að reyna að teyma alla kúnna (á bíl) niður í miðbæ. Nýlega gerðist Kringlan stafræn og allar verslanir sammerktust um að setja vörulínu sína í sameiginlegt app. Næsta skref er sameiginleg vefverslun. Þetta er tilvalið næsta skref fyrir verslanir við Laugaveg. Og það er upplagt fyrir borgaryfirvöld að styðja við bakið á slíku verkefni – gæti mögulega stuðlað að sátt við þá sem óttast göngugöturnar. Það verslunarfólk sem fagnar göngugötunum veit sem er að í langflestum tilfellum eykur það veltuna í búðum sem þar eru. Fólk einfaldlega sækir í umhverfi þar sem bílnum er úthýst og mannlíf er til staðar. Þetta tvennt getur því boðað alveg nýja og bjarta tíma fyrir alla kaupmenn á Laugaveginum, kjósi þeir að spila með.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.