Hvað er það versta sem gæti gerst?

Ég hef dálítið gaman að velta fyrir mér mögulegri samfélagsþróun, enda geta litlir hlutir valdið drastískum breytingum. Þetta er að mörgu leiti nauðsynlegt, sjáið til dæmis þankagang fólks fyrir hrun. Þá virtist næstum enginn spá í framtíðina og allir nutu þess að lifa í núinu. Afleiðingarnar voru ekki beint jákvæðar.

Nýlega kvartaði vinkona mín yfir háu leiguverði í miðbænum og að allar íbúðir væru fráteknar fyrir ferðamenn. Ég fór að velta fyrir mér hvað þyrfti að breytast en þá varð til athyglisverð orsakakeðja, sem mig langaði til að deila með ykkur.

Byrjum bara á einfaldri spurningu. Hvað ef það verður offramboð á gistirýmum í miðborginni? Þetta er ekki svo langsótt enda er verið að byggja mörg stór hótel, til dæmis eitt 320 herbergja við Höfðatorg og annað 150 herbergja við Hlemm. Ekki misskilja mig, ég hef ekkert á móti þessum byggingum en ef þær myndu leiða til offramboðs hvar værum við þá stödd?

Líklegasta myndi þrýstihópur hóteleiganda fara fram á að einungis þar tilgreind fyrirtæki mættu leigja erlendum ferðamönnum gistirými. Þetta er alls ekki svo ólíklegt, enda hafa aðrir þrýstihópar álíka ákvæði í lögum. Til dæmis er til ákveðin reglugerð um leigubílstjóra. Auk þess hafa hóteleigendur þegar kvartað yfir hlutum eins og airbnb.com. En hvaða myndi þannig lagasetning þýða?

Þeir íbúðaeigendur sem leigja til ferðamanna þyrftu að selja íbúðir sínar eða finna aðra leiguaðila. Íbúða- og leiguverð ætti því að lækka og samhliða myndi sala „löglegra“ gistirýma að aukast. Ferðamönnum gæti þó fækkað lítillega sökum takmarkaðra valmöguleika. Þetta virðist ekki svo neikvætt en við erum ekki búin að skoða heildarmyndina.

Með lækkandi húsnæðisverði yrði meira um greiðsluörðuleika hjá einstaklingum. Auk þess hafa margir fjárfest í fasteignum sökum gjaldeyrishaftanna og þær fjárfestingar myndu skila tapi. Eignasafn bankanna er af talsverðum hluta byggt upp af húsnæðislánum og myndi því minnka. Hér er hægt að vísa aftur í hrunið en á þeim tíma virtust bankarnir ekki telja neinar líkur á öfgatilvikum, sem þessum, og gerum við ráð fyrir að svo sé enn.

Við höfum hingað til talað um fjárfesta, íbúðaeigendur og banka. En hvaða áhrif hefði þetta á aðra í samfélaginu? Ef bankarnir skila miklu tapi eða fara jafnvel aftur á hausinn yrði hér annað hrun, þó minna en það fyrra. Atvinnuleysi myndi aukast, lánsfjármagn myndi minnka og stjórnmálakreppan, sem hefur verið viðloðandi síðan 2008, myndi að öllum líkindum versna, sem sagt það færi allt til fjandans.

Þetta kann eflaust að hljóma sem einhvers konar dómsdags spá og það alveg réttmæt gagnrýni. Ég held samt að allir hafi gott að því að velta svona hlutum fyrir sér ef þeir kynnu að eiga sér stað. Það getur vel verið að þið séum ósammála en þetta er bara pæling.

Latest posts by Einar Leif Nielsen (see all)

Einar Leif Nielsen skrifar

Einar Leif hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2008.