Húsdýra- og kyrkislöngugarðurinn

Mér hefur aldrei verið sérstaklega vel við slöngur, þótt þær séu vissulega heillandi skepnur. Mitt skjól hefur þó verið að búa hér á landi þar sem engar slöngur eru, nema hjá einstaka tattúveruðum mönnum sem laumast til að koma þeim til landsins.

Mér hefur aldrei verið sérstaklega vel við slöngur, þótt þær séu vissulega heillandi skepnur. Mitt skjól hefur þó verið að búa hér á landi þar sem engar slöngur eru, nema hjá einstaka tattúveruðum einstaklingum sem laumast til að koma þeim til landsins.

Ég hef aldrei almennilega áttað mig á því hvað það er við þessi dýr sem gerir það að verkum hve illa fólki er við þau. Mögulega er þetta eitthvað sambland af grimmu augnaráði, snöggum og lúmskum hreyfingum og hvernig þær drepa og melta bráð sína. Þær hafa ekki þetta krúttlega element sem er í mörgum dýrum sem gerir það að verkum að maður gerir sér grein fyrir því að við þær verður ekki tjónkað. Það er enginn að fara að klappa þeim á hausinn og gefa þeim smá bita til að hafa þær góðar.

Mér hefur því fundist þetta ágætis fyrirkomulag. Ég bý hér og þær búa einhvers staðar annars staðar.

Þar til nýlega. Fréttir bárust af því að nú standi til að flytja til landsins fimm kyrkislöngur (var hægt að velja ógnvænlegra nafn á dýr?) og hafa í Húsdýragarðinum. Þetta vekur óneitanlega nokkrar spurningar. Hvers vegna fimm slöngur? Bíður það ekki upp á að þær myndi sterk tengsl og geti jafnvel unnið saman? Hvaða áhrif hefði þetta á stemninguna meðal hinna dýranna í garðinum? Er þetta ekki svolítið eins og fimm töffarar sem eru farnir að reykja og slást eru allt í einu fluttir í lítið þorp út á landi og settir í bekk með saklausum krökkum sem hafa aldrei séð neitt misjafnt? Og hvað gerist ef þær sleppa?

Eins og er til siðs í dag þá hefur málið reyndar fengið faglega umfjöllun í stjórnsýslunni og Umhverfisstofnun skilaði umsögn um málið. Unnið hefur verið áhættumat í tengslum við mögulegan flótta þeirra úr garðinum, sem er kannski ekki óþarft enda hafa t.d. litlir kópar flúið úr garðinum. Í áhættumatinu er fjallað um þetta og þar segir:

„Niðurstaða áhættumats er að útilokað sé að tegundin geti lifað við náttúrulegar aðstæður á Íslandi. Tegundin þarf lík vaxtarskilyrði og finnast í Vestur-Afríku en þaðan er tegundin uppruninn. Hún er ekki talin geta lifað við lægra hitastig en 21°C og þarf a.m.k. 50% raka. Hún myndi því ekki lifa við íslenskar aðstæður ef svo fari að hún slyppi úr búrinu eða garðinum.“  

Sá sem skrifar þetta deilir greinilega ekki áhyggjum Ian Malcolm, sem Jeff Goldblum lék svo eftirminnilega í Jurrasic Park. Þar lágu fyrir ýmis konar úttektir fræðinga um að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af risaeðlurnum endursköpuðu, en eins og Goldblum bendir réttilega í frægri ræðu í mynndinni þá hefur lífið einstakt lag á að brjóta sér leið í gegnum hindranir og ráðast inn á nýjar lendur. „Life finds a way,“ sagði hann og átti heldur betur eftir að vera sannspár. Og eins og Muldoon vörður sýndi fram á þá myndi ekki einu sinni duga að loka þær af með hástraumsgirðingu þar sem þær leita kerfisbundið að veilum og ráðast aldrei tvisvar á sama stað, “… they remember.”

En burtséð frá því hvort slöngurnar sleppi og nái að skjóta rótum í Laugardalnum þá má líka velta fyrir sér hvort það sé eðlilegt að dýr sem lifi villt í allt öðrum aðstæðum eigi að vera flutt hingað til að vera í dýragarði, langt frá sínum heimkynnum og náttúrulegu umhverfi. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er farinn að teygja talsvert á heiti sínu og tilgangi þegar þangað eru flutt dýr sem eru hvorki íslensk né húsdýr. Ef það er of þröng krítería fyrir garðinn að vinna bara með húsdýr þá gæti hann að minnsta kosti sett mörk við að taka inn dýr sem koma fyrir í kvikmyndatitlum á borð við Snakes on a plane.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.