Höldum í horfinu

Varfærinn fögnuður um áfangasigur gegn kórónaveirunni situr ennþá í skugga þess að mörgum líður ennþá illa. Fólk óttast að lítið megi út af bregða, þá fari allur árangurinn fyrir gýg. Líðanin er svolítið eins og hjá manneskju sem er nýbúin að taka til á heimilinu, þrífa allt hátt og lágt, koma öllu í skínandi og ilmandi ástand—en veit inn við beinið að bráðum koma aðrir fjölskyldumeðlimir heim, henda töskum og fötum á gólfið, rífa upp ísskápinn og skilja mjólkurfernur eftir á borðinu, dreifa úr bókum og pappírum um allt hús og öll vandasama vinnan virðist vera til einskis.

Nema hvað þetta er auðvitað margfalt verra. Árangurinn virkar viðkvæmur og afleiðingarnar af því að glutra honum niður virðast ægilegar. Samfélagið á Íslandi hefur verið í hægagangi undanfarnar vikur og mánuði, en smám saman er lífið að glæðast. Þeir sem vilja eru farnir að heilsast með handabandi og jafnvel faðmast. Margir af mikilvægustu þáttum lífsins virðast vera að komast í eðlilegt horf. En hvað gerist ef smit kemst aftur á kreik? Fer þá allt lóðbeina leið aftur í sama far? Lendum við strax á neyðarstigi. Mætir þríeykið aftur í sjónvarpið á hverjum degi og þurfa allir að hanga heima?

Sem betur fer er alls ekki víst—og jafnvel ekki einu sinni líklegt—að viðbrögð við nýrri sýkingu þurfi að vera jafn afdrifarík eins og í fyrstu bylgjunni. Núna vitum við meira, kunnum meira og getum líklega beitt afmarkaðri og markvissari aðgerðum til þess að vinna bug á veirunni. Það er samt sem áður sorgleg staðreynd að á meðan veiran er einhvers staðar á sveimi í heiminum þá verður til staðar einhvers konar áhætta við það að eiga samskipti við umheiminn. Þetta er áhætta sem óhjákvæmilegt er að horfast í augu við, en rétt eins og það má ekki gera lítið úr henni—þá er ekki gagnlegt að láta ónotin sem sitja í okkur eftir umliðna mánuði ráða öllu um tilfinningar okkar, viðbrögð og ákvarðanir.

Á næstu vikum blasir við öllum þjóðum heims að finna leiðir til þess að lifa með veirunni á meðan hún drepst ekki. Skynsamlegar og snjallar leiðir til þess að lágmarka afleiðingar smita og sífellt meiri færni í meðhöndlun sjúkdómsins munu smáma sman færa valdajafnvægið milli manns og veiru okkur í hag; eins og mannkynið hefur náð ótrúlegum árangri gegn svo mörgum öðrum hættulegum ógnum í gegnum söguna.

Þegar búið er að taka til á heimilinu og gera allt glimrandi fínt þá vitum við að umgengni mun flækja málin og það er ekki nema rétt á eftir framkvæmdina sjálfa sem hlutirnir eru eins og maður helst vildi óska sér. Skynsamlegast er að reyna að koma þannig reglu á hlutina að hlutum sé sem best „haldið í horfinu“ eftir stóru tiltektina, en þó er vitað að einhverjir misbrestir geti orðið á snyrtimennsku heimilisfólksins þegar fram líða stundir. Eina leiðin til þess að viðhalda algjörlega óaðfinnanlegu heimili, sem hægt er að bjóða Húsum og híbýlum að ljósmynda hvenær sem er, felst nefnilega í því að hætta algjörlega að leyfa heimilisfólki að koma inn fyrir hússins dyr. Og þar með færi í raun forgörðum allur tilgangurinn á bak við það að halda heimili yfir höfuð.

Við opnun á ferðalögum fólks á milli landa er hægt að gera ýmislegt til þess að bæði draga úr líkum á að smit berist á ný inn á ósýkt svæði; og eins að draga úr neikvæðum afleiðingum slíkrar uppákomu. Það er hægt að „halda í horfinu“ með samstilltu átaki. Og það er líklega það sem við þurfum að gera meðan kórónaveiran er ekki alveg dauð—að halda í horfinu, nota aðferðirnar og þekkinguna sem fram er komin, en láta ekki allt þjóðfélagið vera áfram undirselt óraunhæfu markmiði um að aldrei aftur muni greinast smit hér á landi. Samgangur við umheiminn er landinu of mikilvægur til þess að hægt sé að fórna til lengri tíma.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.