Fjölmiðlar á forræði ríkisins

Það blasir við hverjum manni að rekstur fjölmiðla er erfiður. Blaðaútgáfa berst í bökkum alls staðar í heiminum og Ísland er engin undantekning. Fjölmiðlar eru mikilvægir og þess vegna er þessi þróun áhyggjuefni.

Hér á landi stendur til að bregðast við með opinberum styrkjum til fjölmiðla sem þurfa þá að uppfylla tiltekin skilyrði. Um er að tefla hundruð milljóna og munar eflaust um minna fyrir einhverja. Ríkisvaldið mun þannig tryggja fjárhagslegan rekstur fjölmiðla með beinum fjárútlátum á grundvelli skilyrða sem það setur. En þótt tilgangurinn sé góður þá er frjálsri fjölmiðlun mikil hætta búin í slíku umhverfi og raunar má halda því fram að slíkt fyrirkomulag vegi að grunnhugmyndinni um frjálsa og óháða fjölmiðla.

Ef á annað borð er fallist á það sjónarmið að ríkisvaldið eigi að innheimta skatta af fólkinu í landinu til að standa straum af rekstrarkostnaði fjölmiðla, á tímum þar sem þeim virðast allar bjargir bannaðar, þá er betri leið til þess.

Ríkið ver nú þegar nokkur þúsund milljónum á ári hverju í rekstrarstuðning við einn tiltekinn fjölmiðil, sem þar ofan á tekur til sín drjúgan skref af öllum auglýsingatekjum. Til að tryggja frjáls, fjölbreytta og óháða fjölmiðlun, ætti útvarpsgjald að hætta að renna sjálfkrafa til Ríkisútvarpsins. Þess í stað ætti greiðandi gjaldsins að tilgreina á skattframtali sínu hverju sinni til hvaða fjölmiðils eða fjölmiðla hann eða hún vill að gjaldið renni.

Í stað þess að ríkið ákveði hvaða fjölmiðlar því eru þóknanlegir og hagi skilyrðum um fjárframlag í samræmi við það, þá eru það greiðendur útvarpsgjaldsins sjálfir sem ákveða hvaða fjölmiðli eða fjölmiðlum þeir vilji viðhalda með útvarpsgjaldinu sínu. Ekki yrði um neinar nýjar álögur að ræða og allt það fé sem í dag er lagt í fjölmiðla af hálfu ríkisins væri til ráðstöfunar með þessum hætti.

Með þessum hætti væri ríkið, í krafti valdheimilda sinna og skattlagningarvalds, að tryggja íslenskum fjölmiðlum öruggari rekstrarumhverfi en nú er raunin, án þess að vega að sjálfstæði þeirra og óhæði með jafn afgerandi hætti og óbreytt fyrirkomulag felur í sér.

Það er svo önnur spurning af hverju ríkið eigi yfir höfuð að hafa afskipti af fjölmiðlum en hún bíður hagfelldari vindáttar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.