Hinir rauðu herir

Ég hef aldrei kunnað neitt sérstaklega vel við Liverpool. Raunar haft á þessu liði megnustu andstyggð frá því að ég man eftir mér. Þessu var svipað farið með Sovétríkin, þótt vissulega væri bæði stigs- og eðlismunur á andstyggðinni. Rauði herinn er líka konsept sem þessir aðilar eiga sameiginlegt. En það er fleira.

Ég hef aldrei kunnað neitt sérstaklega vel við Liverpool. Raunar haft á þessu liði megnustu andstyggð frá því að ég man eftir mér. Þessu var svipað farið með Sovétríkin, þótt vissulega væri bæði stigs- og eðlismunur á andstyggðinni. Rauði herinn er líka konsept sem þessir aðilar eiga sameiginlegt. En það er fleira.

Fljótlega eftir tilkomu þjóðríkisins, og eflaust miklu fyrr, varð þeim ljóst sem treysta þurftu á að fólkið fylkti liði undir merkjum ríkisins, að blása þyrfti því byr í brjóst. Fánar og tákn skiptu þar miklu máli en á síðari tímum hefur baráttusöngurinn eflaust verið mikilvægastur.

Fólk þekkir La Marseillaise, hinn kyngimagnaða baráttusöng frönsku alþýðunnar, sem ber með sér hughrif frelsis, bræðralags og ættjarðarástar á hæsta stigi. Great Britannia, bara titillinn segir allt sem segja þarf um inntakið hjá Bretunum og ekki er yfirskrift þýska þjóðsöngsins mikið hógværari, Deutschland über alles.

En þó er það svo þegar kemur að áhrifum og innblæstri, samspili texta og hljómfalls, inntaki og hrynjandi, þá er einn þjóðsöngur sem ber höfuð og herðar yfir aðra. Ef það er einhver þjóðsöngur sem væri líklegur til að blása manni þann kjark í brjóst sem þyrfti til að hlaupa fram á vígvöllinn með einhleypuna eina að vopni gegni ofurefli stórskotaliðs, þá er það þjóðsöngur Sovétríkjanna, nú Rússlands.

Þrátt fyrir andstyggðina á Sovétríkjunum og þeirra mannfjandsamlega hugmyndakerfi, þá verður maður að viðurkenna að þeim tókst vel upp hvað þetta varðar.

Og þrátt fyrir andstyggðina á Liverpool, þá verður maður líka að viðurkenna að baráttusöngur stuðningsmanna liðsins er sá allra besti. Ekki eingöngu er lagið gott heldur fangar textinn allan þann tilfinningaskala sem býr innra með einlægum áhangendum alvöru fótboltaliðs. Og því miður er það reyndin með Liverpool, alvöru fótboltalið með alvöru stuðningsmenn – og langbesta lagið.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.