Dagarnir sem aðrir eiga

Mér hefur alltaf fundist það vera þess virði að hafa samband við vini og ættingja þegar ég man eftir að þeir eigi afmæli. Raunar er ég með viðvarandi áhyggjur af samviskubit yfir að gleyma afmælisdögum. Mér  finnst ég aldrei vera nógu duglegur við það, og í seinni tíð, eftir að Facebook kveðjurnar tóku við þá er jafnvel eins og maður sé að stíga inn á persónulegt svæði fólks; ryðjast inn til þeirra á afmælisdeginum heimtandi veisluhöld. Símtöl eru orðin svo agressíf.

Mér hefur alltaf fundist það vera þess virði að hafa samband við vini og ættingja þegar ég man eftir að þeir eigi afmæli. Raunar er ég með viðvarandi áhyggjur af samviskubit yfir að gleyma afmælisdögum. Mér  finnst ég aldrei vera nógu duglegur við það, og í seinni tíð, eftir að Facebook kveðjurnar tóku við þá er jafnvel eins og maður sé að stíga inn á persónulegt svæði fólks; ryðjast inn til þeirra á afmælisdeginum heimtandi veisluhöld. Símtöl eru orðin svo agressíf.

Manni líður samt einkennilega vel að fá kveðjurnar á Facebook. Jafnvel þótt þær staðfestir í raun lítið annað en að vinir manns hafi munað eftir að þeir þekki mann þegar Facebook tilkynnir um að maður eigi afmæli. „Hjálpaðu honum Þórlindi vini þínum að eiga ánægjulegan afmælisdag,“ segir gervigreindin. Þá setja margir inn stutta kveðju og maður fær tilkynningu um það. Afmælisdagarnir hjá mörgum fara að mestu leyti í að setja hjörtu á þessi komment í símanum. Stundum svarar maður kveðjum, en ef þær eru margar þá nennir maður því ekki en setur bara status daginn eftir og þakkar bara öllum í einu, eins og svara hamingjuskeytum með því að láta lesa útvarpsauglýsingu daginn eftir.

En það jafnast auðvitað ekkert á við afmælisdagana sem voru stórir í bernskunni og það eru ekki bara manns eigin dagar. Afmælisdagar systkina verða líka risastórir ef maður var heppinn að eiga góða í kringum sig. Það eru dagarnir sem munu alltaf tilheyra þeim, dagarnir sem þau eiga.

Fáir dagar standa nefnilega jafnhátt upp úr dagatalinu eins og þeir sem fela í sér árleg veisluhöld og kökur. Í litlum systkinahópi eru allir afmælisdagar miklir merkisdagar. Það eru kannski ekki einföldustu dagarnir hjá börnum, því það er dagurinn sem einhver annar í fjölskyldunni á algjörlega einn, en hin börnin njóta líka góðs af tilstandinu. Og þegar maður nær smá þroska þá lærir maður að leyfa afmælisbarninu að eiga daginn og nýtur þess að sjá daginn þeirra heppnast vel.

Allt frá því maður man eftir sér eru afmælisdagar systkina eldrauðir dagar við hliðina á jólum, 17. júní og (ef maður er úr Eyjum) þjóðhátíðin. Afmælisdagar foreldra komast ekki nálægt afmælisdögum systkina í helgidómi, enda er alls ekki hægt að stóla á kökur og veisluhöld þá. Foreldrar eru gjarnan „too cool for school“ þegar kemur að því að æsast af spenningi út af afmælum.

En það er ómögulegt að gleyma afmælisdegi þeirra sem maður elst upp með. Dagsetningin og jafnvel daganúmerið og mánuðurinn eru eign systkinisins. Þótt maður viti ósköp vel að dagurinn hefur fyrst og fremst merkingu fyrir ákaflega þröngan hóp í kringum afmælisbarnið, þá finnst manni einhvern veginn samt eins og allur heimurinn snúist allur um þann viburð sem dagurinn er helgaður innan fjölskyldunnar. Maður gengur um með þá skrýtnu tilfinningu að fólkið sem maður mætir hugsi: „Þarna kemur þessi. Systir hans á einmitt afmæli í dag.“

Þegar tíminn líður fer það smám saman að renna upp fyrir manni að þessir afmælisdagar systkina manns, þar sem manni fannst heimurinn snúast um þau, voru kannski ekki svo margir. Þeir voru bara svo svakalega stórir og merkilegir.

Í dag er einn slíkur dagur. Sá stærsti. Það er óhugsandi að hann renni upp og ég verði svo upptekinn eða viðutan að ég muni ekki hugsa til þess oft að nú ætti ég að finna góðan tíma í ró og næði fljótlega eftir að ég fer á fætur, slá inn númerið og segja: „Til hamingju með afmælið elsku systir.“

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.