Hin týpan

Í grein sem birtist nýlega á Deiglunni er minnt á þann góða sannleik að börn læri það sem fyrir þeim er haft og taki gjarnan upp hina ýmsu ósiði og hegðunarbresti okkar foreldranna. Þetta er gamall og gildur sannleikur og kemur foreldrum yfirleitt ekki mikið á óvart þegar þau sjá sjálf sig sem í spegli í augum barna sinna.

En svo er það hitt, þegar í barni birtist allt önnur manneskja og allt annar karakter en í foreldri. Dæmi um þessar andstæður er hin klassíska „extrovert“ vs. „introvert“ týpan og svo ADHD týpan vs. hin týpan – hvað heitir hún? Þessi ofurskipulagða, sem fellur aldrei verk úr hendi, gleymir engu, fylgir öllum reglum til hins ítrasta, missir aldrei stjórn á skapi sínu, kemur sér aldrei í hættulegar eða óöruggar aðstæður og hefur enga listræna hæfileika; af því að listin er að sjálfögðu eitthvað óöruggt, óskilgreint, með óljósa útkomu og jafnvel tilgangslaust!

Hvort er auðveldara að eiga við, „extrovert“ foreldri með „introvert“ barn eða öfugt? ADHD foreldri með barn sem er hin týpan eða foreldri sem er hin týpan og ADHD barn?

„Extrovert“ foreldrið mun aldrei skilja af hverju „introvert“ barnið getur ekki farið og spurt eftir vin? Barnið tekur það frekar á sig að eyða deginum heima í fullkomnum leiðindum bara af því að tilhugsunin um að fara og banka upp á hjá vini sínum og spyrja eftir honum er óhugsandi… barnið bíður bara eftir að vinurinn komi til þess – jafnvel þó það taki marga daga. Þetta mun „extrovert“ foreldrið aldrei skilja.

„Introvert“ foreldrið sem verður alltaf jafn vandræðalegt þegar „extrovert“ barnið tekur upp samræður við bláókunnuga manneskju, kannski bara í röð í búð og fer jafnvel að ræða einhverja óviðeigandi hluti eins og klæðaburð viðkomandi, eða eitthvað þaðan af verra, t.d. heilsu eða líðan. Hví í ósköpunum hugsar foreldrið og berst við löngun til að sussa niður í barninu eða byrjar að fikra sig aðeins fær og lætur eins og það heyri þetta ekki eða eigi ekki barnið – viðbrögðin fara hér auðvitað aðeins eftir aldri barnsins.

ADHD vs. hin týpan; hvort er verra fyrir barn að eiga foreldri sem getur aldrei mætt á réttum tíma, gleymir alltaf að setja sundfötin í töskuna og jafnvel lestrarheftinu og barnið er „hin týpan“ fær kvíðakast ef allt er ekki fullkomið – eins og reglan segir að fullkomið eigi að vera!

Eða að vera barnið sem man aldrei eftir að taka sundfötin með úr klefanum, mætir alltaf of seint í tíma jafnvel þó því hafi verið fylgt í skólann og gefur algjöran skít almennt í þær reglur sem gilda í skólanum, eins og t.d. bara að sitja og einbeita sér og lesa og reyna að fá góðar einkunnir – svona eins og reglan segir að hlutirnir eigi að vera?

Þetta er auðvitað bæði erfitt og allt erfitt og ég velti því oft fyrir mér hvar stuðningsgrúppurnar eru á Facebook fyrir foreldrana sem eiga börn sem eru hin týpan – það er ekki eins og þau sjálf. Því það er enginn að fara að tengja nema sá sem staddur er í nákvæmlega sömu stöðu.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.