Ástæða þess að umræðan um umferðaröryggismál er svona heit

“Passaðu þig á bílunum. Hjólaðu með hjálm. Vertu með endurskinsmerki. Líttu til beggja hliða. Ekki elta bolta út á götu. Settu á þig belti. Ekki stinga hausnum út um gluggann. Farðu yfir götu á gangbraut. Bíddu eftir græna ljósinu. Farðu út farþegameginn. Notaðu göngubrúna. Bíddu eftir að strætóinn fari áður en þú labbar yfir götu.”

Þegar börnum eru kenndar umferðarreglurnar eru þær ekki kynntar sem hugmyndir eða tillögur. Þær eru kynntar sem boðorð. Eðlilega. Það er ótrúlega mikið í húfi og ekkert svigrúm fyrir túlkun og vafa þegar tonn af stáli geta lent á manni.

Ef barn fer seint að sofa eða gleymir að taka með sér vettlinga út í frost, lærir barnið hugsanlega sína lexíu. Í umferðinni er ekki pláss fyrir lexíur. Þess vegna þarf að kynna reglurnar sem þar gilda eins og trúarsetningar sem ekki eru til umræðu.

Þegar ráðist er að trúarsetningum fólks verður fólk reitt. Það er verið að draga í efa eitthvað sem það lærði í æsku. Einhverjar heitustu umræður sem ég á eru einmitt um svona grundvallar-umferðaröryggismál. Það hjálpar heldur ekki til að nútíma-úrbanismi dregur margar af þessum kennisetningum í efa. Til dæmis varðandi hjálmanotkun eða hvort það eigi að troða öllum í göng.

Ein slík umræða sem reglulega skýtur upp kollinum er umræða um bílbelti í strætó. Tillaga um slíkt var til dæmis lögð fram í borgarráði um daginn. Maður skilur hvaðan þetta kemur. Fyrst fólk hefur lært að nota alltaf bílbelti í bíl er auðvitað rökrétt að álykta að það hljóti að vera sniðugt að krefjast þess sama af þeim sem nota strætó.

En staðreyndirnar eru:
1) Það tefur strætó ef allir þurfa að vera í belti áður en keyrt er af stað.
2) Það minnkar sveigjanleika ef fólk þarf bíða eftir næsta vagni þegar sæti vantar.
3) Mun stærri flota þyrfti til að sinna sama farþegafjölda ef bannað væri að standa.
4) Slys á farþegum í strætó eru afar fátíð samanborið við aðra ferðamáta.

Heildarmat í öllum hagkvæmum almenningssamgöngukerfum borga hefur því verið að gera ekki kröfu um bílbeltanotkun. En þar sem sú niðurstaða gengur þvert á það sem fólki hefur verið kennt við aðrar aðstæður getur umræðan oft orðið ansi heit.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.