Haturberar III

Önnur klisja kynþáttahatarans

Í pistli mínum á mánudaginn kom fram að hræðsluáróður kynþáttahatara byggist á þremur lykiþáttum eða klisjum. Í dag er ætlunin að fjalla um aðra klisjuna sem gengur út á að ýkja og afskræma tölfræði um málaflokkinn.

Önnur klisja kynþáttahatarans

Í pistli mínum á mánudaginn kom fram að hræðsluáróður kynþáttahatara byggist á þremur lykiþáttum eða klisjum. Í fyrsta lagi að taka neikvæðar fréttir af fólki af erlendum uppruna og heimfæra þær upp á alla útlendinga. Í öðru lagi að ýkja og afskræma alla tölfræði um málaflokkinn. Í þriðja lagi að heimfæra satt og logið ástand og tölfræði erlendis í þessum málum upp á Ísland. Í dag er ætlunin að fjalla um aðra klisjuna sem gengur út á að ýkja og afskræma tölfræði um málaflokkinn.

Töfrar tölfræðinnar

Á sama hátt og haturberarnir klína verkum einstakra innflytjenda á þá alla þá snúa þeir gjarnan út úr tölfræðiupplýsingum um málefni innflytjenda. Við megum aldrei gleyma því að það er hægt að fá næstum hvaða markleysu sem er út úr tölfræði og láta það hljóma sannfærandi ef menn leggja sig fram og eru nógu harðsvíraðir. Hæpin túlkun á tölfræðilegum gögnum hefur ávallt verið vinsæl aðferð áróðursmanna til þess að ljá hæpnum staðhæfingum sínum trúverðugleika.

Helsta vitleysan sem haldið er fram er þegar fylgni og orsakasamhengi eru lögð að jöfnu. Röksemdarfærslan er þá til dæmis þannig:

Glæpir eru tíðari í hverfum þar sem innflytjendur eru fleiri svo innflytjendur hafa meiri glæpahneigð en aðrir.

Þeir sem hafa einhverja grunnþekkingu á tölfræði eða rökfræði vita að slík ályktun er ógild. Tölfræðigreining hefur til dæmis sýnt að árásum hákarla á sundmenn við strendur Ástralíu fjölgar um leið og sala á ís eykst. Þetta gefur ekki tilefni til þeirrar ályktunar að sala á ís leiði til hákarlaárása.

Tölfræði sýnir einnig að verðhækkun á hlutabréfamarkaði fer hönd í hönd við pilssídd; því styttri pils þeim mun betri ávöxtun á hlutabréfamarkaði. Þetta gefur rökvísum manni ekki tilefni til að ætla að hlutabréfamarkaðurinn hækki af þeirri ástæðu að betur sést í fótleggi kvenna.

Þessu til viðbótar má nefna að komið hefur í ljós að bandarískir háskólastúdentar sem reykja maríjúana hafi hærri greindarvísitölu en þeir sem gera það ekki. Þrátt fyrir þetta er full vísindaleg vissa til staðar fyrir því að kannabisneysla eykur ekki andlegt atgervi.

Dr. Jóhann M. Hauksson tekur þessa „fylgni-orsök-gryfju” fyrir í bók sinni Kynþáttahyggja og hversu auðvelt sé að fá rangar niðurstöður. Þar kemur fram:

Sú staðreynd að rétt tæpur helmingur fanga í Bandaríkjunum er svartur er mjög áhrifamikil. Auðvelt væri að falla í „fylgni-orsök-gryfju” og álykta að svartir séu fangar (og því ofbeldis- og glæpahneigðir) vegna þess að þeir eru svertingjar. Að kynþættinum sé um að kenna. En með því að beita sömu röksemdarfærslu en breyta ögn hópnum sem mældur er fást gjörólíkar niðurstöður. Væri ákveðið að mæla ekki alla „svarta” heldur aðeins „svarta sem búa í slömmum” stórborga, þá kæmi fram enn meiri ofbeldishneigð og enn hærra hlutfall þessa hóps væru fangar. Samkvæmt sömu röksemdarfærslu væri ekki hægt annað en að draga þá ályktun að „svartir í slömmum” séu glæpahneigðari en aðrir svertingjar. Ef svo félagsfræðingurinn okkar ákafi myndi taka sig til og mæla lífsferill allra íbúa slömma, hvort sem þeir væru hvítir, „latneskir”, gulir eða annað, þá kæmist hann að raun um að allir fremja þeir fleiri glæpi en gengur og gerist. Því yrði ályktað að slömm geti af sér glæpi.

Haturberatölfræðin er þessu marki brennd. Hún byggist á því að einhvers konar tölfræði sem er kastað fram og í veðri látið vaka að sökum þess að hægt sé að sýna fram á að til dæmis glæpir séu fleiri meðal innflytjenda hljóti innflytjendur að vera hneigðari til glæpastarfsemi en aðrir. Þetta stenst ekki nánari skoðun enda er samsetning innflytjendahópa yfirleitt mjög ólík samfélaginu í heild. Til þess að komast að raunverulegu orsakasamhengi þarf að vinna mun vandaðri tölfræðiúttekt sem til dæmis gerir ráð fyrir að allir í úrtakinu búi við sambærilegar aðstæður.

Rasískt röfl

Sé því slegið upp að glæpatíðni sé meiri í hverfum innflytjenda og sú ályktun dregin að þetta hljóti að vera vegna þess að viðkomandi séu af erlendum uppruna er það í flestum tilfellum byggt á óvandaðri tölfræðiúrvinnslu. Litið er fram hjá því að undantekningalaust er um að ræða fátækustu hverfi viðkomandi borgar sem og aðra félagslega þætti sem hafa mun betra skýringargildi heldur en uppruni fólksins. Til eru fjölmargar virtar rannsóknir sem sýna fram á beina tengingu á milli fátæktar og glæpa sem eru mun áreiðanlegri en fordómar haturberanna.

Það sama er uppi á teningnum varðandi tölfræðiupplýsingar um atvinnuástand. Ef það kemur fram að atvinnuleysi sé meira hjá innflytjendum heldur en heimamönnum þá er það merki um að útlendingar séu latir og vilji ekki vinna. Þeirra stærsti draumur hljóti að vera að leggjastá velferðarkerfið. Haturberarnir hafa þá löngu gleymt að fólk af erlendum uppruna á erfiðast af öllum með að fá vinnu í nýju landi sökum fordóma og ýmissa félagslegra þátta. Það er því oftar en ekki aftast í forgangsröðinni eftir vinnu hjá atvinnurekendum og því eðlilegar ástæður fyrir því að atvinnuleysið sé mest þar. Þetta var t.d. staðfest í rannsókn hagfræðingsins Christian Dustman við Háskólann í London sem meðal annars er fjallað um í síðasta tölublaði Economist. Þar kemur fram að atvinnuleysi innflytjenda sé aðallega tilkomið vegna erfiðleika við að útvega sér vinnu s.s. vegna tungumálaörðuleika. Þar kemur einnig fram að þetta skýri til dæmis þá staðreynd að stór hluti innflytjenda séu sjálfstæðir atvinnurekendur.

Ef það kemur hins vegar fram að atvinnuástandið sé gott hjá innflytjendum þá kúvenda haturberarnir algjörlega og fullyrða að útlendingarnir séu að stela vinnu af heimamönnum. Hentistefnan og tvískinnungurinn er því algjör. Þvælan um atvinnuþjófnað hefur verið hrakin hér á Deiglunni. Í grein eftir undirritaðan sem birtist þann 17. desember 2002 var farið í gegnum meintan atvinnuþjófnað útlendinga og óháða rannsókn um áhrif erlends vinnuafls á þjóðfélög. Viðkomandi rannsókn sýndi að erlent vinnuafl auðgar atvinnulífið en stelur ekki störfum af heimamönnum. Ofangreind rannsókn hagfræðingsins Christian Dustman leiddi til sömu niðurstöðu. Í grein eftir Pawel Bartoszek hér á Deiglunni 27. nóvember 2002 var einnig fjallað um rökleysuna á bak við staðhæfingar um „atvinnuþjófnað” útlendinga. Þar sagði meðal annars:

Nýbúar eru ekki einhliða blóðsugur á atvinnulífið. Þeir þurfa að kaupa sér mat, gera við bílinn, fara í bíó og senda börnin í skólann. Allt þetta eykur veltuna í viðkomandi starfsgreinum og störf skapast. Það er því álíka fáranlegt að halda því fram að útlendingarnir séu að taka störf af Íslendingum og til dæmis að halda því fram að nýbúar sem spila í lottóinu séu að taka vinninga af Íslendingum eða að útlendingar sem fari út að borða á laugardagskvöldi taki borð af innfæddum. Fólk sem heldur slíku fram ætti helst ekki að eignast börn því þegar krílin vaxa úr grasi fara þau að hirða til sín öll störf eldra fólksins.

Að lokum verður að benda á frægustu þvæluna sem haturberarnir nota en það er fjöldi innflytjenda á félagslega kerfinu. Misáreiðanleg tölfræði um fjölda innflytjenda sem þiggja hjálp frá ríkinu er ávallt notuð til að alhæfa að fjöldi innflytjenda sé gagngert að koma til landsins til að leggjast á velferðarkerfið. Fáar áreiðanlegar heimildir eru til um þetta efni. Í rannsókn sem breska ríkisstjórnin gerði um þetta efni kemur fram að gífurlegur efnahagslegur ávinningur er fylgjandi innflytjendum fyrir allt þjóðfélagið. Í rannsókninni kemur t.d. fram að árið 1999 hafi innflytjendur skilað 2,5 milljörðum punda meira í ríkiskassann en þeir fengu til baka frá ríkinu í formi allrar þjónustu og styrkja. Í sambærilegri rannsókn sem National Research Counsil gerði fyrir Bandaríkin kemur fram að einhver kostnaður muni falla á ríkið á næstu árum, aðallega sökum skólagöngu barna innflytjenda. Hins vegar sýndi rannsóknin að til lengri tíma litið yrði hagnaður ríkisins mikill vegna innflytjendanna á sama hátt og í Bretlandi.

Meistarar í misnotkun

Meistararnir í svona útúrsnúningum og misnotkun á tölfræði eru þeir rasistaflokkar sem bjóða fram í Evrópu svo sem Danske Folkeparti í Danmörku og Þjóðarflokkur Le Pen í Frakklandi. Allur þeirra málflutningur og útgáfa byggist upp á slíkri afskræmdri tölfræði í þeim eina tilgangi að auka fordóma og hræðslu við útlendinga. Þetta virðist virka ágætlega því sumir þessara flokka hafa náð töluverðu fylgi. Þessir flokkar treysta á fáfræði og hræðslu kjósenda sinna enda má gera ráð fyrir að kjósendur þeirra viti t.d. ekki af öllum þeim rannsóknunum sem voru gerðar í kjölfar bókarinnar Bell Curve sem sýndu að ástandið í fátækrahverfum Bandaríkjanna var nær eingöngu félagslegt. Sýnt var fram á að ef ljóshærðir, bláeygðir aríar væru settir í hverfin með sömu menntunar- og atvinnumöguleika þá yrði ástandið engu skárra. Dæmi um slíka rannsókn er að finna í bókinni Crime and the Bell Curve: Lessons from intelligent criminology.

Einnig er hægt að benda á að bók Dr. Jóhanns Haukssonar um kynþáttahyggju sem fjallar um þetta en þar er bent á nokkrar rannsóknir sem sýna fram á að umhverfi hafi skýr áhrif á niðurstöður greindarmælinga.

Rasistar eru glúrnir í áróðri sínum og þeir vita það vel að ekki er vænlegt til árangurs að koma upp um sig með of áberandi hætti. Af þessum sökum leggja þeir víða á sig mikla vinnu við að setja saman rök og tölfræði sem við fyrstu sýn virðist sannfærandi. Sannleikurinn er hins vegar ekki með rasistum í liði og hann staðfestir ekki ótta fólks við útlendinga. Sannleikurinn er sá að flest „innflytjendavandamál” eru hvergi til nema í hausnum á fólki sem einungis er að leita sér að afsökun til þess að þurfa ekki að endurskoða fordómafull viðhorf sín til útlendinga.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.