Haturberar II

Í pistli mínum í gær kom fram að hræðsluáróður kynþáttahatara byggist á þremur lykilþáttum eða klisjum. Í þessum pistli er ætlunin að fjalla um fyrstu klisjuna sem gengur út á heimfærslu neikvæðra frétta um útlendinga upp á alla útlendinga eða einstaka kynþætti.

Í pistli mínum í gær kom fram að hræðsluáróður kynþáttahatara byggist á þremur lykilþáttum eða klisjum. Í fyrsta lagi að taka neikvæðar fréttir af fólki af erlendum uppruna og heimfæra þær upp á alla útlendinga. Í öðru lagi að ýkja og afskræma alla tölfræði um málaflokkinn. Í þriðja lagi að heimfæra satt og logið ástand erlendis í þessum málum upp á Ísland. Í þessum pistli er ætlunin að fjalla um fyrstu klisjuna sem gengur út á heimfærslu neikvæðra frétta um útlendinga upp á alla útlendinga eða einstaka kynþætti.

Heimfærsla á neikvæðum fréttum af útlendingum upp á alla útlendinga eða einstaka kynþætti (aðallega fólk með annan húðlit) er einn algengasti málflutningur kynþáttahatara. Þegar það er eitthvað vesen sem hægt er að tengja við nýbúa, hér á landi eða erlendis, stökkva haturberarnir til og nota tilefnið til að rökstyðja ýmsar hugmyndir um aðgerðir gegn búsetu eða flutningi útlendinga til landsins.

Þetta er sama sveitamannahugmyndafræði og við höfum hlegið að þegar til dæmis Akureyringar taka sérstaklega fram að „aðkomumenn” hafi gert einhvern óskunda af sér í bænum. Góð dæmi um þetta er að finna á sumum af þeim íslensku vefsíðum sem er haldið úti af kynþáttahöturum eins og: www.framfarir.net, http://notendur.centrum.is/~fith/ og www.whiteawake.741.com. Í hvert skipti sem einstaklingur af erlendum uppruna lendir í átökum þá er því slegið upp og smjattað á því að um nýbúa hafi verið að ræða. Yfirleitt er ekki minnst á ástæður árásarinnar ef þær eru nýbúanum hliðhollar eða nokkuð sem gæti skýrt málið. Allur málflutningurinn byggist upp á því að nýbúi hafi framið afbrot og gert því í skóna að árásin hljóti að orsakast eingöngu af uppruna hans. Árásin er þannig heimfærð á alla nýbúa og notuð til að kynda undir þeirri trú að innflytjendur séu almennt orsök vandamála og afbrota. Þannig var því slegið upp á framfarir.net þegar Anna Lindh var myrt að:

Innflytjandi grunaður um að hafa myrt Önnu Lindh

Í fréttinni var ekkert minnst á að maðurinn væri alvarlega geðveikur heldur virtist það eitt skipta máli að hann var innflytjandi. Fleiri dæmi um áþekkan málflutning á sömu síðu eru:

Múslimaklerkur dæmdur á Spáni fyrir að hvetja menn til að beita konur ofbeldi

17 ára Svíi myrtur á hrottafenginn hátt af æstum múg fjölmenningarsinna

Tveir útlendingar handteknir grunaðir um að ætla að fremja umfangsmikil fjársvik á Íslandi

Fjölgun alnæmissmitaðra í Noregi nær eingöngu rakin til innflytjenda

Innflytjandi í Noregi meinaði konu sinni að aðlagast norsku samfélagi

Öll þessi dæmi eru frá október 2003 eða síðar. Allar eru þessar fyrirsagnir skrifaðar í þeim tilgangi að gefa lesendum villandi mynd um raunverulegt ástand mála. Þær eru settar fram í þeim einum tilgangi að sá sáðkornum haturs og tortryggni gagnvart ósköp venjulegu og blásaklausu fólki.

Þessi fyrsta klisja kynþáttahatarans ber vott um mikla tvöfeldni og hræsni því hún gengur út á að nýbúar fái ekki að njóta sannmælis á við aðra í þjóðfélaginu. Þegar aðrir í þjóðfélaginu fremja afbrot eða skapa vandamál þá pælir enginn í því hvort það sé vegna þess að viðkomandi sé til að mynda úr Skagafirðinum heldur veltir almenningur fyrir sér persónubundnum ástæðum og forsögu málsins.

Þetta er kynþáttahyggja af verstu gerð. Nýbúar fá ekki að vera einstaklingar heldur eru hlutgerðir í einni heild. Heildin er síðan dæmd af verstu verkum einstakra einstaklinga innan hennar. Það skiptir engu máli hversu duglegir menn eru eða hversu miklu þeir skila til samfélagsins. Þeir skulu alltaf settir undir sama hatt og fáir vandræðaeinstaklingar sem til dæmis lifa á velferðarkerfinu eða stunda afbrot.

Staðreyndin er vitaskuld sú að þegar úr stóru úrtaki t.d. glæpa er að velja, eins og óhjákvæmilegt er í sæmilega stóru samfélagi, er leikandi létt að draga út einstakan hóp og finna „fréttir” sem gefi vísbendingar um að einstaklingar innan hópsins séu grunsamlegri en aðrir. Tökum dæmi:

Örvhentur prestur á Spáni dæmdur fyrir að hvetja menn til að beita konur ofbeldi

Tveir albínóar handteknir grunaðir um að ætla að fremja umfangsmikil fjársvik á Íslandi

Fjölgun alnæmissmitaðra í Noregi nær eingöngu rakin til rauðhærðra

Litblindur maður í Noregi meinaði konu sinni að aðlagast norsku samfélagi

Sannfærandi, ekki satt?

Við verðum að vaxa upp úr þessari vitleysu og fara að dæma nýbúa á sama hátt og aðra einstaklinga þ.e. eftir persónu þeirra og eigin verðleikum en ekki eftir litarhætti eða uppruna. Á sama hátt og við veltum okkur ekki upp úr brotum ákveðinna rauðhærðra eða örvhentra einstaklinga og notum það sem afsökun til að takmarka réttindi þeirra þá eigum við ekki að beita kynþáttahyggju gegn nýbúum hér á landi. Enda ætti það ekki að dyljast neinum að það að dæma einstakling á þann hátt eftir kynþætti eða uppruna en ekki eigin verðleikum er ekkert annað en hreinn rasismi, sama hvað viðkomandi haturberi segir.

Um þetta atriði er vart hægt að betrum bæta fræg orð bandaríska leiðtogans Martin Luther King þegar hann sagði: „I have a dream that my four children will one day live in a nation where they will not be judged by the color of their skin but by the content of their character.” Og þótt tilvitnunin sé klisjukennd þá dregur það ekki úr nauðsyn þess að hún sé endurtekin.

Hver einstaklingur á rétt til þess að komið sé fram við hann af sanngirni og fordómaleysi; á þann hátt sem við teljum sjálf að koma eigi fram við okkur. Hvort sem við erum Íslendingar í útlöndum, útlendingar á Íslandi, Danir af íslensku bergi brotnir eða Íslendingar af dönsku – erum við jú öll fyrst og fremst einstaklingar.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.