Handabandið hefur sinn tilgang

Mannfólkið er almennt mjög lélegt í því að meta raunverulega hættu. Frægt dæmi um það birtist í því að algengt er að fólk sé dauðhrætt við að fljúga en sallarólegt yfir því að keyra á flugvöllinn. Þó er vitað að ökuferðin er oftast miklum mun hættulegri heldur en flugið sjálft. Þetta er sennilega vegna þess að hin örfáu stóru flugslys sem verða eru undantekningarlaust fréttaefni um heim allan, og þeim fylgja gjarnan hræðilegar myndir sem hreyfa illþyrmilega við tilfinningunum.

Flestar upplýsingarnar sem liggja fyrir um COVID-19 veiruna ættu ekki að hræða heilsuhraust fólk mjög mikið. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir sýkingum, til dæmis aldraðir og þeir sem undirgangast krabbameinsmeðferð, eru alvanir því að þurfa að óttast sérstaklega allar hugsanlega smitsóttir, sem heilbrigðir líkamar eiga oftast nokkuð auðvelt með að vinna sigur á. En jafnvel þessar venjulega kvefpestir og flensur sem ganga nánast á hverju ári geta verið hættulegar ef maður er óheppinn. Það er þess vegna ekkert skrýtið að margir finni fyrir ótta þegar fréttatímar eru uppfullir af tíðindum um veiru sem dreifir sér um heiminn og heilbrigðisyfirvöld virðast óttast. Viðbúnaðurinn og blaðamannafundirnir framkalla hamfarastemmningu sem jafnvel yfirvegaðasta fólk á erfitt með að láta ekki koma sér úr jafnvægi. Fyrir marga er nefnilega fátt sem veldur meira óöryggi heldur en einmitt þegar þeim er sagt á yfirvegaðan hátt að þeir eigi umfram allt að halda ró sinni. Þá fyrst fara margir að panikka.

Það þarf reyndar ekki að vera heimsfaraldur í gangi til þess að fólk verði hræddara við sjúkdóma en efni standa til. Einu sinni var það álitinn sérstakur kvilli læknanema að sjá í sjálfum sér einkenni allra þeirra hörmulegu og banvænu sjúkdóma sem þeir lásu um fyrir prófin. Nú til dags getur hver sem er gúgglað í sig hina ýmsu sjúkdóma. Það þarf ekki mikið að ama af sjálfum mér til þess að ég sökkvi mér ekki djúpt í alls kyns sjálfsrannsóknir á netinu sem óbrigðult benda til þess að ég sé haldinn fjölmörgum lífshættulegum og ólæknandi kvillum. Eftir að hafa farið út að hlaupa um daginn og fengið verk í kálfann á vinstri fæti, fannst mér öruggast að gúggla sérstaklega hvort um gæti verið að ræða krabbamein í kálfa og sló inn ”left calf cancer symptoms”—en það þurfti að fara mjög djúpt á internetinu til þess að komast að einhverri annarri niðurstöðu en þeirri augljósu; að verkurinn væri bein afleiðing örlítið meiri líkamlegrar áreynslu en líkamsparturinn var vanur. Hámarki óþarfrar taugaveiklunarinnar nær maður líklega með því að gúggla setninguna „Am I a hypochondriac“ og leita svo til læknis yfir því að hafa áunnið sér sjúklega sjúkdæmahræðslu.

Oftast er semsagt miklu minna að óttast heldur en efni standa til. Það er hins vegar þannig með hættulega sjúkdóma að líkindaútreikningur stoðar lítið til að hugga fólk. Það er ekkert skárra að vita að bara hálft prósent deyi úr sjúkdómi ef maður er sjálfur í þessu hálfa prósenti—það er víst aldrei minna en 100% af manni sjálfum sem fer í gröfina ef maður er svo óheppinn.

Það er líklega þess vegna sem óttinn um að smitast af óþekktum sjúkdómi getur náð að heltaka fólk, og það er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að þegar kemur að aðgerðum til að varna smiti þá sé ekkert til sem heitir að fara of varlega. En það sama má vitaskuld segja um nánast allt annað; hvort sem það eru flugferðir, bílferðir út á flugvöll, hjólreiðatúrar í torfærum eða bara að fara út í búð til að kaupa handspritt og andlitsgrímur.

Í pistli gærdagsins á Deiglunni var lagt til að fólk hætti að heilsast með handabandi—en það eru líka þróunarfræðilegar ástæður fyrir því að sá siður er svo lífseigur, þótt hann hafi vissulega þann ókost að dreifa alls kyns óværum. Sumir vilja meina að slík snerting milli fólks þjóni beinlínis þeim tilgangi að dreifa veirum og bakteríum, því með því að dreifa á milli okkar veirum og bakteríum erum við nefnilega smám saman að byggja upp aukið mótstöðuþrek í samfélaginu gegn smitsjúkdómum, og jú—við aukum vissulega áhættuna á því að við verðum sjálf 100% dauð. En við tökum öll á okkur þannig persónulega áhættu til þess að auka líkurnar á því að samfélagið okkar í heild myndi móstöðuafl sem þarf til að draga úr hættunni á tilvistarlegri katastrófu sem mjög einöngruð samfélög, sem aldrei heilsa eða kyssa framandi fólk, geta orðið fyrir þegar hið óhjákvæmilega gerist og nýir smitsjúkdómar láta á sér kræla.

Að sjálfsögðu er rétt að hlusta á fyrirmæli yfirvalda þegar mikið liggur við, og það verður að segjast að sóttvarnarlæknir lítur ekki út fyrir að vera týpan sem lætur koma sér úr jafnvægi að óþörfu. Það er bara vonandi að fólk geti sem fyrst byrjað aftur að heilsast innilega með þéttu handbandi, en móðgast vonandi ekki þótt pistlahöfundur gærdagsins taki skrefið aftur á bak og hneigi sig í staðinn.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.