Halló samskiptamiðlafíkn!

Já þetta er nýyrði. Orðið er ekki til þegar maður „googlar“ það og Árnastofnun hefur ekki (enn) tekið það upp.  Hvaða annað orð gæti betur lýst fíkn í samskiptamiðla ef ekki þetta?

Sú umræða verður sífellt háværari um alvarleika netnotkunar og þá staðreynd að mannleg samskipti eiga töluvert undir högg að sækja með tilkomu snjallsímanna. Pistlahöfundi eru minnistæð ummæli starfsmanns Nova þegar hún keypti sér iPhone. „Þú verður óþolandi í heimsókn ef þú skilur hann ekki eftir úti í bíl“. Ég hló, fannst þetta nú orðum aukið og sagði móður minni frá þessu gríni þegar ég kom heim, að springa úr stolti með nýja snjallsímann. Síðan eru liðin 2 ár. Ég hef ekki tölu á því hversu oft móðir mín hefur vitnað í orð Nova starfsmannsins.

Ástandið hefur versnað svo um munar. Við erum reglulega minnt á það með alls konar video-um og ljósmyndum undir svokölluðum „anti-social“ húmor. Ef við sitjum ekki við tölvurnar heima þá erum við með andlitið ofan í snjallsímanum, rúllandi upp og niður með fingrunum til að skoða fréttaveituna á Facebook, aftur og aftur og aftur. Þess á milli förum við á Instagram til að skoða hvað vinirnir voru að „læka“ og síðan hendum við í snapchat eftir að við erum búin að skoða „my story“ hjá vinum okkar. Getur verið að mörg okkar séu ómeðvitað að kljást við samskiptamiðlafíkn?

Í ágúst sl. steig ungur maður, Jason Thibeault fram og sagðist vera hættur á Facebook. Færslan hans á Linkedin hefur í dag fengið yfir milljón flettingar, yfir fimm þúsund athugasemdir og rúmlega tíu þúsund læk.  Hann rakti sínar ástæður og sagði þörfina á að vera alltaf að athuga hvað væri að gerast vera svona eins og að vera að svala þorsta sínum með vatni. Hann var stanslaust undir krananum! Við tengjum. Er það ekki?

Thibeault deilir alveg örugglega ekki einn þessari upplifun. Hann talar um „online rush“ sem við getum líklega kallað netvímu. Þegar fíklar komast í „vímu“ er erfitt að snúa við. Netfíkn er jú til og var fyrst skilgreind  fyrir 18 árum eða árið 1996. Ekkert löngu eftir að internetið hóf innreið sína inn á hið almenna heimili.

Ég gæti haldið langa tölu um einkenni, úrræði og áhrif netfíknar samkvæmt ýmsum rannsóknum en ætla að forða þessum pistli frá því að verða of langur. Athygli þeirra sem þjást af samskiptamiðlafíkn dugar skammt við lestur langra pistla. Þeir sem vilja kynna sér netfíkn er bent á þessa síðu.

Það er morgunljóst að samskiptamiðlafíkn er í auknum mæli að ryðja sér til rúms. Hún hefur þó ekki verið rannsökuð nægilega mikið til að fá hana viðurkennda sem slíka. Þó má leiða að því líkum að verið sé að framkvæma fjöldann allan af rannsóknum um þessar mundir í ljósi þess hversu mikil áhrif þetta er að hafa á daglega rútínu fólks. Gildir einu á hvaða aldri fólk er.

Samkvæmt nokkrum nýjum heilarannsóknum, hafa þeir sem þjást af mikilli netfíkn sýnt samskonar niðurstöður á heilariti og þeir sem klást við fíkniefnaleyslu. Enn aðrar rannsóknir sýna að einkenni netfíknar eru kvíði, depurð eða fíkn í aðra hluti eins og áfengi eða fíkniefni.  Þá komum við aftur að Thibault og ástæðu þess að hann hætti á Facebook. Ein af athugasemdum hans við samskiptamiðilinn var t.d. að við (sem notuðum Facebook) værum gríðarlega sjálfhverf og vildum ekkert annað en að vera miðpunktur athyglinnar. „Ég vil að þau sýni mér athygli… „læki“ mig. Einhverjir að tengja?

Samkvæmt rannsóknum eru ákveðnir þættir samskiptamiðlanotkunar (eins og að fá „læk“) sem tengjast því að ánæjustöð heilans (dópamín) verður virkari. Þetta getur síðar valdið annarri fíkn eins og áfengis- eða eiturlyfjafíkn. Á meðan lausn Thibeault var að fara „cold turkey“ og hætta á Facebook er ekki víst að það virki á alla. Einhverjir gætu  jafnvel verið það langt leiddir að utanaðkomandi aðstoð er hreinlega nauðsynleg. Thibeault nefndi þrjár leiðir til að halda Facebook notkun í lágmarki á blogginu sínu:

·         Vera ekki stöðugt skráð inn á miðilinn. Ef við erum ekki stöðugt skráð inn verður erfiðara að athuga hvað er að frétta og „skrolla“ fréttaveituna. Alls ekki láta tölvuna muna lykilorð og notendanafn. Við eigum að hafa fyrir því að skrá okkur inn!

·         Setja sér mörk. Hann sagðist sífellt hafa verið að athuga Facebook. Morgnana, eftirmiðdaginn, kvöldin og næturna. Við eigum að setja okkur tímaramma sem við leyfum okkur að vera tengd Facebook.

·         Draga úr tengslanetinu. Hluti þessarar „stafrænu fíknar“ er hlutfall þeirra stöðuuppfærslna sem við sjáum. Þegar við erum með hundruði vina er stöðug uppfærsla í gangi. Þá verður auðveldara að svala þessari „verð að fá að vita allt fíkn“. Hann mælir með því að við skerum niður á vinalistanum til að draga úr fjölda þeirra uppfærslna sem við sjáum.

Það er alveg örugglega hægt að heimfæra þessi annars ágætu ráð á aðra netnotkun hvort sem það er Twitter-notkun eða bændastörf á Farmville.

Eftir stendur sú hugleiðing pistlahöfundar hvort ekki sé orðið tímabært að viðurkenna þessa netfíkn eða samskiptamiðlafíkn sem ég kýs að kalla Facebook, Twitter, Snapchat og Instagram. Verða meðvitaðri um áhrif hennar og jafnvel fara að setja sér tímamörk í notkun.  Ef þau ekki virka er næsta úrræði að panta tíma hjá sálfræðingi, fá greiningu og í kjölfarið hugræna atferlismeðferð.

Eitt er víst,  undirrituð notar Facebook, Instagram og Snapchat. Töluvert út hófi. Í stað þess að fara líka á Twitter hefur hún í staðinn íhugað þessi þrjú skref Thibeaults.  Nú ef þau ekki virka þá er það bara kæri sáli.

 

Fyrir þá sem vinna mikið við tölvur er hægt að nálgast forritið Stay Focusd. Með því er hægt að takmarka tímann sinn á síðum eins og Facebook eða Twitter.

 Að lokum hvet ég lesendur að gefa sér 3,5 mínútur til að horfa á þetta myndband.

 

Heimildir:

 

Augenbraun, E. (2014, 22. ágúst). How real a risk is social media addiction? Af fréttavef CBS. Sótt 15. október 2014 af http://www.cbsnews.com/news/how-real-a-risk-is-social-media-addiction/

 

Thibault, J. (2014, 21. ágúst). Why I just quit Facebook. Af vefbloggi Thibeault á Linkedin. Sótt 15. Október 2014 af https://www.linkedin.com/today/post/article/20140821183914-5002630-why-i-just-quit-facebook

 

Kristín María Birgisdóttir
Latest posts by Kristín María Birgisdóttir (see all)

Kristín María Birgisdóttir skrifar

Kristín María hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.