Hækkaðu hnakkinn

Í fjölbýlishúsinu þar sem fyrsta íbúðin mín var bjó aðallega eldra fólk (60 plús). Húsið hafði upphaflega verið hugsað sem sérstakt húsnæði fyrir þennan aldurshóp, en horfið var frá þeim fyrirætlunum. Íbúasamsetningin hélst þó að mestu á þessu bili og við hjónaleysin þáverandi stungum því örlítið í stúf á húsfélagsfundum. 

Augljós kostur við að búa í blokk þar sem aðallega er eldra fólk er mikil umhyggjusemi í garð húsfélagsins og sameignarinnar. Það þurfti aldrei að þvinga neinn í húsfélagsstörf og iðulega var meiri stemning en minni fyrir framkvæmdum og viðhaldi á sameign. Síðasti fundur sem ég sat í félaginu snerist að miklu leyti um fallegri ásýnd gólfsins í bílakjallaranum. 

Ókosturinn fyrir okkur unga parið var eilíf afskiptasemi og umvöndunartónn sameigenda okkar í húsinu. Ég man ekki til þess að hafa gengið inn í ruslakompuna án þess að einhver hafi kallað á eftir mér: „Ekki gleyma að slökkva ljósið!“ Mamma vinkonu minnar, sem varð vitni að viðlíka samskiptum milli mín og heldri íbúa hússins, stakk upp á því að ég setti skilti á hurðina hjá mér sem á stæði „Héraðsdómslögmaður“, en ég hafði þá nýlega öðlast slík réttindi. Hún taldi að íbúarnir héldu e.t.v. að ég væri krakki. 

Ástandið síðastliðnar vikur og mánuði hefur vissulega dregið fram það besta í mörgum. Samhugur og samkennd, náungakærleikur og fegurðin í litlu hlutunum – allt þetta hefur birst okkur á margvíslegan hátt. Mér hefur þó í nokkur skipti orðið hugsað til þessa fyrrum og hugulsömu nágranna minna. Fólkið sem maður hefur mætt á göngustígum og hefur blakaðörmunum og galað áminningar um fjarlægðartakmarkanir. Fólkið sem flýtir sér hægt í verslunum og minnir viðstadda höstuglega á að hlýða Víði. Fólkið í íbúahópunum á facebooksem hefur birt myndir af gönguhópum undir yfirskriftinni „Er verið að virða 2ja metra regluna þarna gott fólki??“ Ég get vel ímyndað mér að þetta samviskusama fólk hugsi einstaklega vel um húsfélagið sitt og sameignina. 

Nú á miðnætti taka nýjar reglur gildi varðandi takmörkun á samkomum fólks hérlendis. Samkomubann mun miðast við 200 manns, framkvæmd tveggja metra reglunnar verður meira á ábyrgð þeirra sem telja sér ógnað og líkamsræktarstöðvar opna á ný. Og umhyggjusamir samborgarar beina athygli sinni aftur að fólki sem situr í hnipri á hjólunum sínum.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.